28.11.1950
Neðri deild: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Einar Olgeirsson:

Hæstv. viðskmrh. upplýsti, að þessi till., sem hann hefur flutt, væri flutt vegna þess, að það hefði verið höfuðþáttur í samningum við togaraútgerðarmenn, að þetta gjald félli niður. Það er ánægjulegt, að þessi till. er komin fram, en betra hefði verið, að þetta hefði aldrei komið inn í l., eins og hæstv. stj. var bent á í vor, en þá vildi hún halda rígfast í þessar álögur, sem eru í 11. gr., en verður nú að viðurkenna, að þessar álögur hafa verið einn þáttur í því, að samkomulag gæti náðst milli togaraeigenda og sjómanna. Ég held, að þegar þessi brtt. kemur fram frá hæstv. viðskmrh., þá gefi það ástæðu fyrir hv. þm. til að athuga, hvort það hefði ekki verið óhætt, þó að sjálf stj. flytti frv., að athuga ofurlitið það, sem stjórnarandstaðan hefur að flytja, en berja ekki málin í gegn af öðru eins offorsi og gert var í vor með gengisskráningarlögin. Það voru önnur lög samtímis fyrir þinginu, l. um hvíldartíma háseta á botnvörpuskipum. Það er enginn efi á því, að ef þingið hefði borið gæfu til að samþ. þessi l. og ef þessi gr. hefði ekki verið sett, þá hefðum við að líkindum komizt hjá þeirri löngu stöðvun togaranna, sem varð. Ég vil aðeins benda á þetta í tilefni af þessari till. hæstv. viðskmrh. Annars verð ég þessari tili. meðmæltur. Hitt er annað mál, að í 3. málsgr. 11. gr. eru ákvæði, sem áttu að stuðla að því, að hraðfrystihús, sem hafa orðið útundan, fengju lán. Sannleikurinn er sá, að ríkinu bar að hjálpa þessum aðilum, og það er hægt að gera það, eins og sýnt hefur verið fram á hér, með því að auka framlag stofnlánadeildarinnar eða með því að láta standa það upphaflega framlag, sem seðlabankinn lagði fram, 100 millj. króna. Það hafa verið flutt frv. um það hvað eftir annað, og hæstv. viðskmrh. hefur m.a. flutt slíkt frv., en það hefur verið stöðvað, af því að stj. vildi ekki láta halda málinu áfram, vafalaust af því að stjórnarandstaðan hefur lagt að hæstv. ríkisstj. að fá þetta mál fram. Við munum, að hæstv. viðskmrh. hefur upplýst, hvaða munur sé á vöxtum, sem ríkið hefur orðið að greiða með því að veita togaraeigendum lán með þeim kjörum, sem stofnlánadeildin veitir, en taka sjálf lánið með víxilvöxtum í Landsbankanum. Ef hv. þm. N–Þ. vill hjálpa hraðfrystihúsunum, þá vil ég benda honum á, að bezta ráðið til þess er að auka stofnfé stofnlánadeildarinnar upp í 100 millj. kr., og það er síður en svo ofvaxið fjárhagslegri getu Landsbankans. Ef við viljum bæta úr þeim skakkaföllum, sem hér hafa orðið, þá er þetta eðlilegasta leiðin, og ég vil gjarnan stuðla að því, að hún verði farin.