28.11.1950
Neðri deild: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Ég skal ekki fara út í að deila við hv. 2. þm. Reykv. um gengisbreytingarlögin. Það er mál, sem mundi taka allt of mikinn tíma. En ég vil benda honum á, að freðfisksverðið kemur þessu máli ekki við. Það hefur ekkert að segja um afkomu togaranna í heild. Freðfisksverð og saltfisksverð lýtur öðrum lögmálum en fiskur, sem er verkaður í togurum.

Út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði, skal ég taka fram, að ástæðan fyrir því, að síðasta málsgr. 11. gr. var ekki tekin inn í þetta frv., er sú, að gr. sjálf ber í sér heimild til að lækka þetta gjald. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ef sumarafli skipa, er veiða í snurpinót, er minni en 6000 mál pr. skipshöfn að meðaltali, er ríkisstj. heimilt að lækka gjaldið. Ef afli er minni en 4000 mál pr. skipshöfn að meðaltali, er ríkisstj. heimilt að fella það niður.“ Það er því svo, að ef það kemur á daginn, að útgerðin getur ekki staðið undir gjaldinu, þá hefur ríkisstjórnin heimild til að fella gjaldið niður. Hvað endurgreiðslu gjaldsins snertir, þá mun hafa verið einhver ágreiningur um, hvernig slík endurgreiðsla ætti að fara fram til sjómanna eða útgerðarmanna og verksmiðja. Mér er ekki kunnugt um, hvort búið er að taka endanlega ákvörðun um það, enda tilheyrir það ekki mínu ráðuneyti.