28.11.1950
Neðri deild: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Finnur Jónsson:

Ég sé, að þetta er 3. umr. málsins í þessari d. Ég hef þess vegna hugsað mér að leggja fram brtt. á þessum fundi við brtt. hæstv. viðskmrh. Hæstv. ráðh. hefur skilið eftir eina málsgr. af þessari gr., en þar stendur, að framleiðslugjald skuli lagt á allar síldarafurðir aðrar en þær, sem fluttar eru út fullverkaðar í smápökkum til manneldis, og skal það nema 8% af útflutningsverðmæti þeirra. Nú hlýtur hv. þm. að vera ljóst, að ef þessi ákvæði eru haldin, verður það til þess að lækka verð þessarar vöru til viðkomandi útvegsmanna og fiskimanna sem þessu gjaldi nemur. Þegar nú hefur orðið aflabrestur eitt sumar enn, virðist ekki vera óþarfi að halda þessari heimild.

Mér virðist það vera óskiljanlegt, að Alþingi sér réttlæti í því að afnema þetta gjald af öllu öðru en síldarafurðum. Ég þykist vita, að ráðh. verði mér sammála um, að það beri að fella niður framleiðslugjald af síldarafurðum. Ég treysti því, að ég fái stuðning ráðh. og síðasta málsgr. 11. gr. l. falli niður.

Mér er kunnugt um, að það olli ágreiningi í sumar, hvernig haga skyldi endurgreiðslu á þessu gjaldi. Útvegsmenn héldu því fram, að síldarverð til söltunar og bræðslu væri ákveðið með hliðsjón af því, að þetta skyldi greitt í ríkissjóð. Var alveg fullkomlega gert ráð fyrir þessu gjaldi, og lækkaði það verðið til sjómanna á bræðslusíld um 10 kr. málið.

Ég leyfi mér enn fremur að bera fram brtt. um, að endurgreiða skuli síldarútvegsmönnum og sjómönnum framleiðslugjald, sem innheimt hefur verið af fersksíldarverði til söltunar og síldarbræðslu á sumrinu 1950. — Ég byggi það á áætlun S.R., sem ég gæti lagt fyrir Alþingi, en hún sýnir, að útflutningsgjaldið er dregið frá síldarverðinu.

Ég verð að biðja hæstv. forseta að leyfa undanþágu fyrir till., og leyfi ég mér að leggja hana fram.