28.11.1950
Neðri deild: 30. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var aðeins út af ræðu hæstv. viðskmrh., þar sem hann sagði síðast, að það, sem ég sagði um hraðfrysta fiskinn, stæðist ekki í sambandi við togarana. Þetta er misskilningur hjá hæstv. ráðh., ég nefndi hraðfrysta fiskinn aðeins í þessu sambandi, og stafar það af því, sem sagt er í grg. þeirri, sem fylgir þessu frv. og komið er frá hv. fjhn. þessarar hv. d.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. N-M. sagði um hraðfrysta fiskinn, þá vil ég ítreka það, sem ég sagði, að ef vilji hv. þingmanna og þess flokks, sem hann tilheyrir, er fyrir hendi um að tryggja hag hraðfrystihúsanna, þá er leiðin sú að tryggja þeim meiri lán úr stofnlánadeild sjávarútvegsins, eins og ég benti á í frv., sem ég flutti á þremur undanförnum þingum, ef slík breyting færi fram, þá væri það raunhæf aðgerð til að bæta hag þeirra.

Ákvæði 11. gr. gengislækkunarlaganna hefur aldrei komið að haldi, en hitt væri raunhæft, ef sjóði stofnlánadeildarinnar væri komið upp í 100 millj. króna og síðan bætt við það fé eftir því, sem við væri hægt að koma. — Þetta er vilji þeirra manna, sem vilja bæta hag hraðfrystihúsanna á raunhæfan hátt og bera hag þeirra fyrir brjósti.