28.11.1950
Neðri deild: 30. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það má vera, að það hafi vantað eitt orð í till. mína, og bið ég velvirðingar á því, þar sem hún var skrifuð upp í flýti. Hins vegar vil ég leiða athygli hæstv. ráðh. að því, að till. er í tvennu lagi, þó að hann virðist ekki hafa séð nema seinni hlutann.

Aðalatriðið, sem fyrir mér vakti, var að breyta till. svo, að öll 41. gr. félli niður. Ég vakti athygli á því í n.. að með því að samþ. till. viðskmrh., þá er í 11. gr. heimild til að innheimta framleiðslugjald af síldarútvegsmönnum, en ég taldi óviðeigandi að láta 4. málsgr. 14. gr. standa, eftir að búið væri að fella hinar þrjár niður. Nú höfum við hæstv. atvmrh. oft rætt um þetta mál, svo að honum var eins kunnugt um mína skoðun á þessu máli og mér er kunnugt um hans. En sé nú svo, að búið sé að endurgreiða þetta gjald, þá hefur mín till. reyndar litla þýðingu, en ef hins vegar ekki er búið að því, þá hefur hún mikla þýðingu. Það er augljóst mál, að þetta framleiðslugjald verður dregið frá síldarverðinu, — hins vegar talaði hann um það að endurgreiða útvegsmönnum aftur hluta af þessu framleiðslugjaldi. Mér skilst nú, að um leið og síldarverðið var ákveðið hafi verið ákveðið, hvort endurgreiða skyldi útvegsmönnum þetta gjald eða ekki. Ef nú hæstv. ráðh. gefur skýlausa yfirlýsingu um, að búið sé að endurgreiða þetta gjald, þá er ég fús til að taka aftur seinni hluta þessarar till., ef hann mælir með fyrri hluta hennar.