28.11.1950
Neðri deild: 30. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Já, hv. þm. Ísaf. sagði, að ef ég vildi gefa yfirlýsingu um, að búið væri að endurgreiða þetta framleiðslugjald, þá skyldi hann taka till. sína til baka, enda mælti ég með því. Og hv. þm. veit, að það er löngu búið, strax í þingbyrjun var búið að svara þessu skriflega, og á fundi, sem báðir aðilar sátu, sagði ég, að ég teldi að þessi krafa væri óréttmæt, og með því hafði ég raunverulega bundið mig til þess, en hvort búið er að greiða hverjum manni það, sem honum ber, veit ég ekki, en hitt er augljóst mál, að með þessu hef ég raunverulega bundið mig til að sjá um, að svo verði gert, svo að það er enginn vafi um það efni.

Nú varðandi þessa smáletursgrein, sem mér er nær að halda, að mér hafi yfirsézt um, en hv. þm. telur, að sé aðalefni till. sinnar og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „1. efnismálsgr. orðist svo: 11. gr. laganna falli niður“, — þá er mér nú nær að halda, að hv. flm. hafi bætt henni inn á eftir, en hitt hafi upprunalega verið aðalefni till. Er ekki svo? (FJ: Nei.) En mikið má nú vera, ef svo er ekki. Og sannarlega er það nú miklu meira efni málefnalega séð, hvort Alþ. vill láta 4. málsgr. gefa ríkisstj. heimild til að fella niður þetta gjald, en þó með takmörkunum, en ef þetta gjald er fellt niður, þá er ekki síður ástæða til að fella það hjá síldarútvegsmönnum. Nú er það svo að mjög fá skip munu hafa yfir 5000 mála afla, hvað þá 6000 mála, og er þá heimild fyrir ríkisstj. að lækka þetta gjald, og þau ákvæði eru, að hún megi fella það niður, ef aflinn fer niður fyrir 4000 mál, en ég vil ekki kveða á um þetta án samráðs við ríkisstj.

Nú stendur svo á um þessi 10%, sem lögð skulu á sjávarafurðir, að þeim skal varið til að standa straum af og endurgreiða skuldir ríkisins, sem myndazt hafa í sambandi við togarakaup, ábyrgðargreiðslur og framkvæmdir í þágu sjávarútvegsins á liðnum árum og því næst að greiða önnur gjöld ríkisins. Það verður því að viðurkenna, að það stendur öðruvísi á um þetta mál en framleiðslugjaldið að öðru leyti. Og mér finnst þetta varða svo miklu, að rétt sé að athuga það nánar. Að sönnu má taka þetta mál upp í Ed., en ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Ísaf. þyki það skipta það miklu máli, að það sé tekið fyrir hér í þessari deild, svo að úr því fáist hér skorið.