18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. (Gísli Jónsson):

Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar á nokkrum fundum. M.a. hefur n. rætt málið við hæstv. ríkisstj., og hefur n. tekið ákveðna afstöðu til þess. En það hefur ekki gefizt tími til þess að prenta nál., og vil ég því með leyfi hæstv. forseta lesa það. Það hljóðar svo: [Sjá þskj. 449.]

Áður en ég fer lengra, vil ég gera nokkra grein fyrir frv. eins og það kemur frá hv. Nd. og eins og það lá fyrir fjhn. á þskj. 309, því þskj., sem prentað var upp, og bið ég hv. þdm. að athuga það.

1. gr. þessa frv. er um, að framleiðslugjaldið, sem lagt er á samkv. l. nr. 22/1950, er látið falla niður, þ.e. framleiðslugjald á útflutningi. Og jafnframt er tekið fram, að endurgreiða skuli þau framleiðslu- og útflutningsgjöld, sem þegar hafa verið greidd ríkissjóði samkv. 1.–3. málsgr. 11. gr. þessara laga. Þetta kemur fram af því að fyrir ríkisstj. hafa legið fullkomnar sannanir fyrir því á þessu ári, að viðkomandi aðilar hafa ekki haft þann ágóða af rekstri þessum, að þeim sé unnt að greiða þetta gjald. Og þess vegna er lagt til, að þetta gjald falli niður og verði endurgreitt það af því, sem greitt hefur verið fyrr á árinu.

2. gr. frv. er um það, hvernig skuli reikna út þann hluta skatts, sem félagi ber að greiða, hlutafélagi eða samvinnufélagi. Og er það samkv. ósk skattstjóra, að þessi gr. er orðuð þannig.

Í 3. gr. er ákveðið, að skattstjórinn í Reykjavík skuli ákveða skattinn. Var það upplýst af hæstv. ráðh., að ógerlegt væri að láta undirskattanefndir gera þetta úti um allt land, enda dýrara og jafnvel ekki framkvæmanlegt. Og þess vegna var þessi háttur tekinn hér upp.

N. hefur hins vegar ekki viljað fallast á, að fram komnar kærur yrðu endanlega úrskurðaðar af skattstjóranum, heldur óskaði, að inn yrði tekið ákvæði um það, að slíkum úrskurði mætti áfrýja til ríkisskattanefndar, og síðan mættu aðilar einnig áfrýja þeim úrskurði til fjmrn., ef þeir vildu ekki sætta sig við hann. Nú hefur hæstv. fjmrh. bent á, að með þessu orðalagi gæti svo farið, að skattan. hefði fullan rétt til að áfrýja til ríkisskattan. og til ráðun., en hins vegar gæti fjmrh. ekki áfrýjað úrskurði ríkisskattan. Og hefur því verið hugsað að athuga þetta nánar fyrir 3. umr., þar sem eðlilegast þykir, að báðir aðilar gætu leitað úrskurðar dómstólanna í þessum málum. Ég mun því fyrir hönd n. taka sjálfa brtt. aftur til 3. umr., sem hér er borin fram í nál. Og mun n. athuga orðalag brtt. betur áður en 3. umr. um málið fer fram hér í dag.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þessa gr. nánar nú. En hér eru tvær brtt., önnur frá hæstv. viðskmrh., sem hann mun sjálfur gera nánari grein fyrir ásamt annarri skrifl. brtt. Hin till. á þskj. 363 er frá hæstv. atvmrh., og þar sem hann liggur nú veikur, mun ég gera grein fyrir henni eftir beiðni hæstv. ráðh., en þar er gert ráð fyrir, að aftan við 1. gr. komi ný málsgr., svo hljóðandi: „4. málsgr. sömu lagagr. orðist svo: Framleiðslugjald skal lagt á allar síldarafurðir, aðrar en þær, sem fluttar eru út fullverkaðar í smápökkum til manneldis, og skal nema 8% af útflutningsverðmæti þeirra. Ef sumarafli er minni en 6000 mál að meðaltali á skip, skal gjaldið allt endurgoldið útgerðarmönnum og sjómönnum um leið og lokið er veiðitíma. Ef sumarafli er meiri en 6000 mál að meðaltali á skip, skal gjaldið innheimt og renna allt til síldardeildar hlutatryggingarsjóðs bátaútvegsins.“ — Meginbreytingin er sú, að gjald þetta skuli renna til síldardeildarinnar í stað ríkissjóðs, og vænti ég, að þessi breyting verði samþ.

N. hefur ekki enn tekið afstöðu til brtt. þessara, en sjálfsagt fær hún tækifæri til að athuga þær nánar, eða hver einstakur nefndarmaður láti í ljós, hvort hann er með eða móti till. þessum. Ég ræði þetta svo ekki nánar, en legg til, að till. verði samþ., en tek brtt. í nál. aftur til 3. umr.