18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta frv. með þessu langa nafni, sem forseti lýsti nú, er um gengislækkunarlögin. En það er hins vegar ekki hægt að segja, að sú till., sem hæstv. viðskmrh. flytur við þetta frv., sé langorð, — hún er aðeins ein setning, en hér er um stórmál að ræða. Og ekki væri heldur hægt að segja, að framsöguræða ráðh. hefði verið löng um of.

Lítið er látið fara fyrir þessu máli, og á að fara vel að deildinni og láta líta svo út, að hér sé um vinsemd í garð verkalýðsins í landinu að ræða. En það er þó verið að skerða hinn skarða rétt launþeganna með þessari breytingu, þann rétt, sem gengislækkunin átti að veita fólki.

Síðari hluta ársins 1950 átti kaup að hækka í landinu, ef verðlag hefði hækkað um 5% og eins ef vísitalan hækkaði frá 4. jan. til 1. júlí 1951, þá átti að greiða kaup eftir vísitölu. Það að ákveða að laun skyldu greidd eftir vísitölu, var byggt á þeirri forsendu, að þá mundi dýrtíðin komast á svo hægt skrið, að ástæðulaust væri að bæta launin upp mánaðarlega, heldur á 1/2 árs fresti. Spádómsorð formælenda gengislækkunarinnar voru á þá leið, að verðhækkanir yrðu nær stöðvaðar á árinu 1951, og yrði þetta engin veruleg kjaraskerðing, þótt kaup breyttist ekki nema á hálfs árs fresti. Í fylgiskjölum gengislækkunarfrv. var það tekið fram, að höfuðforsendan fyrir gengislækkuninni væri sú, að þjóðin vildi, að sjávarútvegurinn, sem greiddi 90% af innflutningsverðmætunum, yrði rekinn án taps eða styrkja og að þjóðin í heild sinni vilji sætti sig við, að hann fái eðlilegar tekjur fyrir afurðir sínar.

Nú ætti sú öld að vera upprunnin, að hægt sé að reka sjávarútveginn án taps eða styrkja og að hann fái nú eðlilegar tekjur fyrir afurðir sínar. En hver skyldi vilja halda því fram, að þessir spámenn hafi ekki orðið sér til skammar og forsendurnar brostið? Enginn, — ekki einu sinni hæstv. ráðh.

Höfundar gengisl. sögðu, að áhrif ráðstafana þeirra yrðu, að tilfærsla yrði á tekjum til sjávarútvegsins frá þjóðinni í heild, enda féllu þá allir styrkir og fríðindi til hans niður. Sú hækkun átti ekki að nema meir en 11–13%. En svo átti bráðlega að verða tilfærsla á tekjum frá verzluninni og innlenda neyzluvöruiðnaðinum til launþega vegna rýmkunar hafta á innflutningsverzluninni. Útflutningsstyrkur átti svo að falla niður, og yrði þá hægt að lækka skattana.

Skyldu nú ekki tekjur streyma frá verzluninni til launþeganna og skyldi ekki vera komin rýmkun hafta á innflutningsverzluninni? Skyldu ekki útflutningsstyrkirnir hafa fallið niður og skattar lækkað? Nei. En hinn óbeini skattur, sem stafar af nýmyndun dýrtíðar, hefur hann fallið niður? Nei, hann hefur aldrei verið þyngri en í dag. Sem sagt: Allir spádómarnir hafa orðið að öfugmælum og forsendurnar brostið. Og því mun hæstv. ráðh. hafa flutt sína brtt. En ef ráðh. væri sannfærður um, að spádómarnir mundu koma fram 1951, hefði hann ekki flutt þessa brtt. Hæstv. ríkisstj. veit það vel, að von er á geysilegum verðhækkunum á fyrri helming ársins 1951, og þess vegna verður því ekki mótmælt, að till. hæstv. viðskmrh. (BÓ) felur í sér miklar kjaraskerðingar fyrir almenning í landinu, frá því sem gengislækkunarl. ákváðu, þegar þau voru sett. Verkalýðssamtökin mótmæltu því, þegar gengislækkunarl. voru sett, að ekki var gert ráð fyrir, að kaup hækkaði mánaðarlega samkvæmt vísitölu hvers mánaðar, og töldu, að þær réttarbætur, sem fólust í l. launþegum til handa, væru of knappar, þar sem aðeins ætti að greiða uppbætur á laun á 6 mánaða fresti, er fram í sótti. En nú er verið að fella niður þessi mjög svo naumu fríðindi launþeganna, sem í gengislækkunarl. fólust.

Það er ákaflega bagalegt, að hæstv. viðskmrh. (BÓ) skuli ekki gefa sér tíma til að vera hér í d., þegar verið er að ræða þetta mál, þar sem það var ætlun mín að spyrja hann ýmissa spurninga í sambandi við þessa till. hans. Ég vil því leyfa mér að fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann sjái til þess, að hæstv. ráðh. megi vera hér við a.m.k. um stundarsakir, svo að ég geti komið spurningum mínum á framfæri við hann.

Því hefur nú verið slegið föstu með afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1951, að laun opinberra starfsmanna skuli greiðast með 122% álagi, og samkv. brtt. hæstv. viðskmrh., sem hann flytur við brtt. sína á þskj. 399, skal greiða verðlagsuppbót á laun þessara starfsmanna miðað við kauplagsvísitölu 123 allt árið 4951, hvað svo sem útreiknaðri vísitölu líður, þegar fram á árið kemur. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja er þannig búið að fá ótvíræða vitneskju um, hvað bíði meðlima þess í þessum efnum. Og ég geri ekki ráð fyrir, að nokkur maður í þeim samtökum sé svo bjartsýnn að gera sér vonir um, að hæstv. ríkisstj. takist að halda verðlaginu niðri, þannig mun með þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar óefað verða um geysilega kjaraskerðingu að ræða hjá þessu fólki, þegar fram á árið kemur. Það er að vísu lofsvert við þessar aðfarir hæstv. ríkisstj., að þarna er þó farið beint framan að viðkomandi fólki og því sagt, hvernig launamálum þess verði hagað á næsta ári, en mér er þó nær að halda, að þessi framkoma stafi fyrst og fremst af því, að hæstv. viðskmrh. og ríkisstj. beri ekki þann beyg í brjósti af styrkleika þeirra samtaka, sem hér um ræðir, þar sem annar aðalhöfundur gengislækkunarl. er aðalforsvarsmaður bandalagsins og þess vegna láti hæstv. ríkisstj. sér detta í hug, að það megi bjóða þessu fólki flest — þar á meðal það að binda laun þess, án alls tillits til þess, hvernig verðlagið verður á næsta ári. (Forseti: Ég vil spyrja hv. 6. landsk. þm., hvort hann vilji ekki fresta ræðu sinni, þar sem hæstv. viðskmrh. er ekki viðstaddur, enda komið fram yfir venjulegan fundartíma.) Það er til mikils óhagræðis að ræða þetta mál, án þess að hæstv. viðskmrh. sé viðstaddur, og vil ég því mælast til þess við hæstv. forseta að sjá til þess að hæstv. viðskmrh. sé hér mættur, þegar fundi verður fram haldið. [Frh.]