18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Hannibal Valdimarsson [Frh.]:

Herra forseti. Þá tek ég upp þráðinn aftur, þar sem frá var horfið, því að fundi var frestað skv. minni ósk, þar eð mig langaði til að eiga tal við hæstv. viðskmrh., sem flytur þessa brtt. hér. Ég mun ekki rifja neitt upp af því, sem ég sagði í fyrri hluta ræðu minnar. — Í gengislækkunarlögunum lá algerlega ljóst fyrir þetta tvennt: að kaup gat lækkað á árinu 1951, ef dýrtíðin lækkaði, og í öðru lagi: kaup gat hækkað, ef dýrtíðin yxi. Það er ólíklegt, að brtt. hæstv. viðskmrh. sé fram komin vegna hins fyrra möguleika. Ég geng þá út frá því, að hæstv. ráðh. sé að nema á brott möguleikann til kauphækkunar. Með þessari brtt. er þá verið að fyrirbyggja kauphækkun, eftir því sem ég skil brtt., og mun ég hafa það fyrir satt, þar til ég verð fræddur á öðru. Sé þessi skilningur minn réttur, þá blasir þetta nú við öllu fastlaunafólki: lögbundið kaup og lögbundin vísitala, hvað mikið sem dýrtíðin kann að vaxa á árinu 1951. Kaupið á að miðast við vísitölu 123, — eins og vísitalan er nú við þessi áramót. Þessar aðfarir þýða það, að hvað sem dýrtíðin kann að vaxa, þá eiga opinberir starfsmenn ekki að fá það bætt að neinu. Ef ríkisstjórnin hefur ekki gert öflugar ráðstafanir, er hamli gegn vexti dýrtíðar, þá eru opinberir starfsmenn bókstaflega ofurseldir óþolandi kjararýrnun. Ég segi því: Vesalings Ólafur Björnsson prófessor. Átti hann nú þetta skilið? Þessi maður, sem samdi gengislækkunarlögin og er forustumaður B.S.R.B. — Og eru þetta svo þakkirnar til hans — að setja launasamtök hans í gapastokkinn? Maðurinn, sem varð að leggja vísindaheiður sinn í sölurnar, er hann samdi gengislækkunarlögin, — fær nú þetta að launum? — Ég fæ ekki betur séð en þessar ráðstafanir þýði á venjulegu mæltu máli: Það er óhætt að lögfesta vísitöluna. Opinberir starfsmenn hafa ekki verkfallsrétt og auk þess eru þessi samtök undir stjórn eins þægasta manns ríkisstjórnarinnar, — Ólafs Björnssonar prófessors. Þess vegna þorum við til við þessi samtök og segjum: Þið fáið enga hækkun á kaupi, hvað sem dýrtíðin kann að vaxa. — Um þetta vil ég nú segja: að þarna fer heldur minna fyrir drengskapnum en hreinskilninni.

En nú segir hæstv. viðskmrh., að brtt. hans þýði allt hið bezta gagnvart verkalýðssamtökunum. Það sé verið að rýmka rétt samtakanna, verið að gefa þeim kaupið frjálst. Ég hygg, að þetta þættu ekki illar fregnir, ef örugglega mætti treysta þeim. Og það hefur hæstv. viðskmrh. sagt, að ekki fælist annað í brtt. En þegar litið er á það, að þessi brtt. ráðh. kom fram samtímis því, að binda á kaup opinberra starfsmanna í 123 stigum, þá er ekki óeðlilegt, þó ótrúlegt þyki, að verið sé að rýmka rétt verkalýðssamtakanna. Höfum þetta þó fyrir satt — og víkjum að framkvæmdinni: Getur hæstv. ráðh. ímyndað sér, að ef verkalýðsfélögin færu alfrjáls ferða sinna og næðu kaupi miðað við vísitölu, segjum 140 eða 150 stig, en opinþerir starfsmenn sitji með sín 123 vísitölustig, að slíkt sem þetta gæti gengið? Þótt hún sé nú e.t.v. velviljuð verkalýðsfélögunum, hæstv. ríkisstj., þá óttast ég nú samt, að þetta yrði talið ósanngjarnt. Þá má líka gæta að því, að tekizt hefur vaxandi samvinna milli B.S.R.B. og Alþýðusambands Íslands, og þætti mér næsta líklegt, að Alþýðusambandið styddi B.S.R.B. með ráðum og dáð, jafnvel í kaupdeilum, ef stórlega væri á rétt þess gengið. — Ég held, að þetta tvenns konar kaup yrði alveg óframkvæmanlegt, ef um slíkan feikna mismun yrði að ræða. — Er hitt ekki hið rétta, að till. þessi er borin fram til að létta þeirri kvöð af hæstv. ríkisstj. að greiða hærra kaup seinni árshelminginn, ef dýrtíðin skyldi vaxa? Ef þetta er rétt, þá er verið að leggja hömlur á launþegasamtökin og fyrirbyggja kauphækkun, en ekki verið að aflétta hömlum, eins og ráðh. hefur sagt hér í hv. deild. — Nú vil ég, til þess að taka af allan vafa, spyrja hæstv. ráðh., ef till. hans verður samþ.: Hvað gerist þar, sem samningar verkalýðsfélaga eru í fullu gildi og ekki er hægt að segja þeim upp nema með svo og svo margra mánaða uppsagnarfresti? Hvað gerist, þegar búið er að fella niður lagaákvæðin um að greiða kaup skv. vísitölu? Eiga atvinnurekendur eftir 1. febr. að greiða bara grunnkaup, en ekki grunnkaup að viðbættri vísitölu? Ég á við, hvort hægt sé að líta þannig á, að greiða megi kaup án vísitölu? Vonandi er sá skilningur rangur. En við hvaða vísitölu ætti þá að miða kaupgjald eftir 1. febr. n.k.? Þá verður engin vísitala til í lögum til að reikna kaup eftir. Ef það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði í dag, nfl. að þessi brtt. gæfi verkalýðssamtökunum óbundnar hendur um kaupgjaldsákvarðanir, þá er þessi brtt. í rauninni tilboð um kauphækkanir. Er þá ekki viðurkennt þar með, að ekki sé hægt að lifa á kaupi verkamanna eins og það er nú? — Þetta er máske tilboð um kauphækkanir, hliðstætt þeim verðhækkunum, sem urðu á landbúnaðarafurðum á s.l. hausti og námu um 21% — og hliðstæða við álagningarhækkanir á vörum um 15%? Væri ekki heldur ólíklegt, að hæstv. ríkisstj. gerði nú tilboð um kauphækkanir til samræmis við þessar verðhækkanir? (Viðskmrh.: Hvorar tveggja hækkanirnar eru nú komnar inn í vísitöluna.) Það má e.t.v. segja það, en illa hafa þá þessar hækkanir skilað sér, því að fjöldi þessara hækkana er fyrir utan vísitöluna. Þess vegna er kaup miðað við vísitölu allt of lágt miðað við verðlag. Verkalýðssamtökin hafa sætt sig við og viljað sjá, hvaða blessun gengislækkunarlögin gætu af sér leitt. Ef hæstv. ráðh. hefur mælt af heilindum í dag, að þetta væri gert til að auðvelda framkvæmd samþykktar Alþýðusambands Íslands, sem gerð var fyrir fáum vikum, þar sem sagði, að þingið óskaði, að kaup yrði greitt skv. vísitölu hvers mánaðar, þá er ríkisstjórnin að verða við lágmarkskröfum Alþýðusambandsins. Og væri það ekki óeðlilegt, því að þar voru margir fulltrúar, sem styðja hæstv. ríkisstjórn. Sé svo, er það ágætt, en verði hins vegar ekki orðið við þessum lágmarkskröfum, þá er ekki von á friðsamlegri lausn á því, sem á milli ber. En ef það er rétt, að þessi till. sé fram komin til þess að auka frelsi verkalýðsfélaganna, þá er till. vægast sagt ónákvæmlega orðuð. Væri það ætlunin, þyrfti að vera í henni ákvæði, þar sem sagt væri, að kaupgjald skyldi greitt skv. vísitölu hvers mánaðar. Þá væru réttindi veitt með breytingartillögunni og síður en svo hægt að kvarta undan þessari breytingu á gengislækkunarlögunum. Til þess nú að sannprófa þetta, ber ég og hv. 4. þm. Reykv. fram brtt., þar sem lagt er til, að frá 1. jan. 1951 skuli kaup greitt skv. vísitölu hvers mánaðar. Þetta er sú lágmarkskrafa Alþýðusambands Íslands, sem ekki verður frá vikið. Og verði þessi krafa ekki samþ., þá er það eins víst og dagur kemur eftir þessa nótt, að enginn friður verður á milli Alþýðusambands Íslands og hæstv. ríkisstj. Íslands.

Ég sagði áðan, að það væri ólíklegt, að hinir opinberu starfsmenn ríkis og bæja mundu sætta sig við að hafa lögbundna vísitölu, allra sízt, ef verkalýðssamtökin gætu hagað sínu kaupi eftir eigin geðþótta. — Það var verið að panta hér ræðu í ljóðum, og mér finnst, að opinberir starfsmenn hafi ástæðu til að segja við hæstv. ríkisstjórn:

Við þá, sem vildu þér bezt,

þorirðu til með drambið.

Ríkisstjórnin þorir nú til með drambið gegn sínum ágæta manni, honum Ólafi Björnssyni próf. En vísunni er ekki lokið, framhaldið er þannig:

En jafnan þegar Jón sést,

jarmar í þér lambið.

Og fer það ekki svo hjá ríkisstj., að þegar hún sér Alþýðusambandið, þá jarmar í henni lambið. Nú þykist hún nefnilega segja við verkalýðssamtökin: Gerið þið svo vel að ákveða ykkar kaup eftir eigin geðþótta. Og það er víst, ef hæstv. ráðh. hefur ekki mælt af heilindum í dag og neitað verður um kauphækkanir samfara verðhækkunum, að þá getur verið, að Móri jarmi, þótt ríkisstj. ætlist ekki til þess.