18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef hugsað mér að vera stuttorður við þessar umr. hér. Sumu af því, sem fram hefur komið, má þó ekki láta ósvarað. Er það þá sérstaklega viðvíkjandi því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði hér í kvöld mót betri vitund. Hafa þrír þm. talað hér í kvöld, þeir hv. 1. landsk., hv. 4. þm. Reykv. og hv. 6. landsk., og hafa haldið því fram, að togaraverkfallið hafi ekki orsakazt af gengislækkuninni, heldur vegna þess, að sjómönnum hafi verið þrælað út á saltfisksveiðum. Þetta er gott dæmi upp á rökfærslur þær, sem þessir hv. þm. beita hér yfirleitt við málflutning sinn í kvöld. Það er vitað, að ekki var nema ár síðan útgerðarmenn og sjómenn gerðu sín á milli samninga um þetta atriði. Hv. 4. þm. Reykv. þarf ekki að segja mér neitt um þetta mál, því að ég var einn aðili að þeim samningi; af hálfu útgerðarmanna. Það var alveg gengið að öllum kröfum, sem hásetar eða sjómenn gerðu í sambandi við sjálfa veiðina. Um þetta var ekkert ágreiningsefni og gert með opnum augum. Sjómenn vissu, ekki síður en útgerðarmenn, að ekki var hægt að hafa allan flotann á veiðum fyrir erlendan markað, og þó það væri gert, mundi það verða til þess að kolfella markaðinn í Englandi og Þýzkalandi. — Það er vitað, að gengislækkunin hlaut að bæta kjör manna á saltfisksveiðum. Þeir fengu meira fyrir lifrina vegna þess, að hægt er að greiða hærra fyrir lýsi í íslenzkum krónum eftir gengislækkunina.

Annað ákvæði gengislækkunarlaganna, sem kannske orsakaði að miklu leyti, að togarasjómenn sögðu upp samningum, var, að þeir fengu ekki sinn hundraðshluta reiknaðan í íslenzkum kr. með nýja genginu, heldur með gamla genginu. Þetta var sérstaklega gert til að fyrirbyggja það, að yfirmenn, sem voru með laun reiknuð eftir gamla genginu, fengju 60–70% hækkun á launum. Aðalástæðan til þess, að farið var út í verkfall, var þetta. En þegar sýnt var, að stilling sjómanna var að bresta í sambandi við kaupkröfur, og að ekki var hægt að halda frið innbyrðis í sjómannafélögunum, var tekið til þess að stytta vinnutímann, til þess að sætta þá við þau ömurlegu kjör, sem verið var að leiða yfir þá. - Nú er þessu beinlínis snúið við. Nú er sagt, að það hafi eingöngu verið vegna vinnutímans, að togararnir voru stöðvaðir í 6 mánuði. En ef það hefði aðeins verið vegna vinnutímans, hefðu aðrar kröfur ekki verið gerðar en kröfur um að stytta vinnutímann. Hv. 6. landsk. þurfti því ekki að gefa nein ámæli í sambandi við ummæli um formann sjómannafélagsins. Ég hef hvergi á hann hallað eða vanmetið í sínu starfi. Hitt er satt, að hann fékk svo miklar ákúrur frá eigin flokksmönnum fyrir gerðir sínar, sem sumpart mótuðust af skilningsleysi og sumpart af hræðslu við kommúnista, að taugar hans, sem voru farnar að bila, að sjálfsögðu sumpart af því, að hann hafði lagt of mikið starf á sig á undanförnum árum, þoldu það ekki. Þetta er enginn óhróður um þennan ágæta mann, síður en svo.

Mönnum er talin trú um, að togaraverkfallið hafi orðið út af kröfum um styttingu vinnutímans. Það var ekki bundið við það ákvæði í samningunum fyrr en þeir fundu, að þeir voru búnir að tapa leiknum.

Hv. 6. landsk. spurði, hvort ég vildi ekki skýra það, hvernig togaraverkfallið hefði orðið til þess að auka dýrtíðina í landinu. Ég skal gjarnan svara þessu. Dýrtíðin er að ákaflega miklu leyti vegna mikillar vöruþurrðar í landinu. Þess vegna hefur meðal annars þróazt svartur markaður á vörum, keðjuverzlun og of hátt vöruverð. Heldur hv. 6. landsk. þm., að 100 millj. kr. minni framleiðsla í útflutningi hafi minnkað svarta markaðinn hér á landi, eða minnkað eftirspurn eftir erlendum vörum? Ég held, að hv. 6. landsk. þm. þyrfti ekki að verða menntaskólakennari eða rektor til að skilja, að það hlaut að auka svarta markaðinn, hlaut að auka eftirspurn eftir erlendri vöru og hlaut að hækka vöruverð, beint eða óbeint. Það þarf minna til en 100 millj. minnkun á útflutningi til þess að hafa áhrif á dýrtíðina í landinu.

Hv. 6. landsk. þm. hefur haldið því fram og lagt megináherzlu á, að kauphækkun sé ekki orsök dýrtíðarinnar, heldur afleiðing. Ef hann vill halda þessu fram, skal ég lofa honum að standa í þeirri trú svolitla stund. Getur hann þá neitað því, að verðhækkun sé ekki afleiðing kauphækkunar, heldur orsök. Verðhækkun hlýtur að skapa um leið fall krónunnar, nema hægt sé að skapa nægilegan útflutning með hinu hækkaða kaupgjaldi. Þetta er ekki hægt, og eins og hæstv. landbrh. tók fram, þá hefur þetta skapað það hér, að útflutningur hefur ekki staðið undir kostnaði. Og krónan var fallin, þegar gildi hennar var opinberlega viðurkennt með gengislækkunarlögunum, og er hún fallin langt niður fyrir það gildi nú. Verð dollara eru engar 16 kr., heldur 35 kr., eins og hann er seldur núna. Þetta sýnir, að krónan hefur stórfallið. Eina ráðíð til að vinna þetta upp aftur er að auka útflutninginn, til þess að hægt sé að halda framleiðslunni áfram, þannig að hagnaður verði af rekstri framleiðslufyrirtækjanna, — hagur að því að þurfa ekki að safna skuldum og geta haldið áfram. Hv. þm. vildi ekki viðurkenna þetta, en hann getur ekki komizt hjá þeirri staðreynd, að svona er þetta. Hv. 6. landsk. þm. sagði, að það gleddi sig að geta fært Vestfirðingum þann boðskap, að ég og fleiri álitum, að fara ætti með kaupgjaldsvísitölu verkafólks langt yfir 123 stig, það væri óhætt og réttlátt. Hvað því viðkemur, að það sé réttlátt, þá er það réttlátt, svo fremi að atvinnufyrirtæki og útflutningur þoli það.

Það er annað, sem þessum hv. þingmönnum er illa við, sem sé, að með þessari breytingu á l. eru þeir settir í þann vanda að hafa ekki lengur ríkissjóðinn til að hlaupa í og láta bæta upp. Hafa ekki ríkissjóð til að borga mismuninn, sem þarf að borga, og ekki ríkissjóð til að halda fyrirtækjunum gangandi. Þeir komast þá í þá aðstöðu að verða að horfast í augu við, að laun verkamanna geti orðið svo há, að vinnustundirnar verði færri og heildarlaunin minni. — Þeir barma sér yfir, að ábyrgðin kemur yfir á þá sjálfa, alveg eins og við togaraverkfallið. Hv. 6. landsk. þm. boðaði það, að ef það, sem hér um ræðir, yrði samþ., yrði krafa verkalýðsins að fá aukna atvinnu, og dugi það ekki, þá mundi hann heimta hærra kaup. (HV: Vafalaust.) Ég held, að nauðsynlegt sé, að þeir menn, sem hafa þennan skilning á þessu, fái það frelsi, sem verið er að gefa þeim hér í kvöld, og ábyrgðina af þeirri stefnu, sem hv. 6. landsk. þm. boðar beinlínis: að krefjast aukinnar vinnu, og ef það dugar ekki, þá hærra kaups. Það er bezt að sjá, hvert sú stefna leiðir og hve mikla bölvun hann leiðir yfir verkalýðinn, sem hann þykist vera að verja, ef hann dregur ekki skýluna frá augunum í þessu máli.

Ég ætla einnig að segja örfá orð í sambandi við það, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði. Hann vildi halda því fram, að það væri rangt hjá hæstv. viðskmrh. að láta orð að því liggja, að öll verðhækkun vegna gengislækkunarinnar væri komin fram, og benti á ýmislegt í þessu sambandi. Þarna blandar hann saman tveimur algerlega óskyldum atriðum, sem sé hækkun vöruverðs í landinu vegna gengislækkunar og hækkun vöruverðs af öðrum ástæðum. Meðal annars er þessi hækkun vegna hækkaðs verðlags erlendis og af þeim ástæðum, sem bent var á, t.d. hækkun skatta í landinu, sem ekkert hefur með gengislækkun að gera. Hækkunin stafar af því, að illu heilli varð einhvers staðar að taka fé til að bæta þau glappaskot, sem gerð voru á síðasta þingi með fulltingi þessara ágætu þingmanna og hefðu aldrei verið gerð, ef þessir hv. þm. hefðu látið það mál afskiptalaust. — Einnig sagði hv. 4. þm. Reykv., að Alþfl. hefði bent á alveg ótvíræð ráð til þess að koma lagi á þessi mál, og það væri að koma á landsverzlun. Já, mér þykir gott að geta sýnt fram á, hvernig það hefði orðið fyrir landslýðinn. Er langbezt að sjá það af dæmum, sem hafa komið fram og ekki er hægt að hrekja. Mér er kunnugt, að á þessu ári, sem er að líða, þurfti stofnun ein að kaupa ákveðið efni til að halda áfram verki, sem sama ríkisstofnun þurfti að sjá um. Jú, jú, það er eðlilegt, að forstjórinn, sem er einn af þm. Alþfl., teldi sjálfsagt að nota innkaupastofnun ríkisins til að fá sem hagkvæmust innkaup á því, sem þurfti að kaupa, og var henni falið að kaupa þetta magn af þessari vöru, sem þurfti. Þetta var þess eðlis, að ekki var hægt að deila um, hvort varan væri verri eða betri. Það var um að ræða ákveðna tegund af timbri. Forstjórinn vildi helzt, að enginn annar maður kæmi þarna nálægt. En þegar tilboðin voru athuguð, hafði innkaupastofnun ríkisins gert tilboð um að kaupa þessa vöru fyrir 52 þús. kr., en annar innkaupaaðili lagði fram tilboð um 30 þús. kr. — Hvernig haldið þið, hv. þingmenn, að verðlag yrði lækkað í landinu, ef slík vinnubrögð ættu að vera í verzluninni og sett yrði á stofn landsverzlun, þar sem þessum manni eða öðrum ágætum alþýðuflokksmanni væri falið það starf að kaupa inn allar vörur til landsins og fyrir hverjar 30 þús. kr., sem gefa þyrfti fyrir vöruna, væru gefnar 52 þús. kr.? Það væri ekki óhuggulegt! Þá held ég, að lækkaði dýrtíðin í landinu. — Nú var því haldið fram, að ekkert væri að marka þetta, af því að það hefði aðeins verið gert einu sinni. Svo þurftu þessir ágætu menn að gera önnur innkaup á timbri, að upphæð 80–90 þús. kr. Nú krefjast þeir þess að fá nægan tíma til að leita fyrir sér um víða veröld. Þeir eru búnir að hafa tímann fyrir sér síðan í ágúst í sumar, en neita að taka tilboði frá sama aðila, 20–30% lægra. Mig furðar ekki, þó að hv. 4. þm. Reykv. vilji láta koma verzluninni undir þessa menn. Ég tel það hreint blygðunarleysi að vilja koma verzluninni undir þessa menn. Ég hélt, að þeir vissu, hver reynslan hefur orðið af ríkisrekstri, sem hefur verið í höndum flokksbræðra þeirra. Nú er ekki lengur milljónatap á áætlunarferðunum; ekki milljónatap, sem kemur á ríkissjóð. Á meðan flokkur þessara manna hafði stjórn á þessum ferðum, var milljónatap á þeim rekstri allan tímann. Þá tóku þeir til bragðs að taka í leyfisleysi milljónir af orlofsfé til að hylja þetta tap. Við skyldum ætla, að þeir hefðu ekki gengið á þann sjóð til að hylja tapið. Það er ekki hv. 4. þm. Reykv. að þakka, að það var bætt síðar. Ég vil benda þeim á að athuga gagngeran samanburð á verðlagi í Englandi og hér eftir gengisbreytinguna. Ég hef verið nægilega lengi í Englandi til þess að vera kunnugur þessum málum. Í sept. í haust var verkfall hjá bifreiðarstjórum á strætisvögnum í nokkra daga. Þeir vildu fá laun hækkuð úr 5 pundum í 6 á viku. En þeir töpuðu þessu verkfalli. Við skulum til gamans geta þess, að ein skyrta kostar þar 50 shillinga, og verkamenn þar vinna aðeins fyrir tveimur skyrtum á viku. Hvað haldið þið, að verkamenn hérna segðu, af þeir fengju ekki meira en þetta? Þetta er nú gert í landi Attlees til að halda uppi genginu. Og við getum tekið annað dæmi. Einir kvenskór kosta 5 pund. Þeir eru heila viku að vinna fyrir einum skóm. Nú segja þessir hv. þm., að þar sé það þannig, að ekki sé hægt að hækka launin, nema það sé gert í öllu landinu í einu. En nú hefur staðið kaupdeila við vélvirkja, og er þetta aðeins einn flokkur launþega. Þeir fengu þessu skotið til stjórnarinnar, en hún gaf það svar, að þeir gætu sjálfir deilt um þetta, — við viljum ekki skipta okkur af þessu. Þessi launahækkun var gerð án þess að laun væru almennt hækkuð í landinu. Deiluaðilar hafa talið réttara að semja heldur en halda deilunni áfram. — Ég mun ekki lengja þessar umr. meira, nema á mig verði ráðizt og ég verði að bera af mér sakir.