19.12.1950
Neðri deild: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Einar Olgeirsson:

Það er fyrst og fremst sú breyting, sem orðið hefur á þessu frv. í Ed., sem kom mér til að taka hér til máls, og þó ein önnur ástæða.

1. gr. þessa frv. felur í sér ákvörðun um, að kaupgjald skuli ekki hækka samkv. vísitölu frá 1. febr. n.k. að telja.

Í fyrsta lagi bitnar þetta á opinberum starfsmönnum, sem ekki eiga að fá laun sín greidd hærra en miðað við vísitöluna 123, og í öðru lagi gagnvart launþegum, þar sem réttur þeirra til að hækka sitt kaup er felldur burtu. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta koma úr hörðustu átt, að nú, þegar þm. eru að fara í jólafrí, skuli þessar till. koma fram.

Hér er búið að liggja fyrir þinginu frv. um breyt. á gengislækkunarl. Eru það aðallega breytingar við 6. gr. l., þær, að kaupgjald skuli reiknað mánaðarlega skv. vísitölu fyrra mánaðar. Þetta frv. er borið fram af okkur 6. þm. Reykv., er það 13. mál þingsins og hefur legið hér allan tímann, það hefur verið afgr. af hv. fjhn., en ekki fengið náð fyrir augum hæstv. ríkisstjórnar. Svo kemur nú ríkisstj. við síðustu umr. í Ed. með þessa breytingu, sem var samþ. þar. Þessi breyting, að banna kaupbreytingar, er í algerri mótsögn við allar óskir og kröfur launþegasamtakanna í landinu og opinberra starfsmanna og brigð á öllum þeim loforðum, sem gefin voru, þegar gengisbreytingarlögin voru til umr. í fyrra. Þá var gert ráð fyrir því, að 6 mánuði þyrfti til að jöfnuður næðist og lítil hætta á hækkandi dýrtíð úr því, og því ekki lengur nauðsyn aukinna kaupgjaldshækkana. En nú virðist ríkisstj. óttast og gera ráð fyrir, að dýrtíðin hækki svo mikið, að hún muni ekki fá við hana ráðið, og þegar er vitað, að hún er orðin tvöföld við það, sem reiknað var með fyrir hálfu ári, því að þá var reynt að fá verkalýðssamtökin til að trúa því, að vísitalan mundi ekki hækka nema 41 –13 stig. Með öðrum orðum, ríkisstjórnin hefur komið fram með þetta frv. af því, að hún hefur gefizt upp við að hafa hemil á þeirri dýrtíð, þeirri sömu dýrtíð og þessi sama stjórn leiddi yfir þjóðina með gengisbreytingarlögunum. Og þetta er sú sama ríkisstjórn og lýsti því yfir, að það, sem launþegar þyrftu að fá, væru ekki kauphækkanir, heldur að krónan væri þeim sem mests virði. Þetta er bótin á dýrtíðinni og vöruskortinum, sem þessi ríkisstjórn ætlaði að ráða. Og þetta kemur því undarlegar fyrir sjónir, þar sem aldrei hefur nokkur ríkisstjórn talað meira um það, hve mikla umhyggju hún bæri fyrir samtökum launþeganna í landinu. Báðir stjórnarflokkarnir hafa tekið þátt í kosningum til Alþýðusambandsþingsins, og báðir hafa þeir boðað, hve mikinn vinarhug þeir bera til verkamanna og hversu mikið öryggi það væri, að þessir flokkar ásamt Alþfl. fengu meiri hl. verkalýðssamtakanna. Verkalýðurinn sér nú, hvað þessir flokkar meintu með þessu fyrir Alþýðusambandskosningarnar, hvað þeir meintu með þátttöku í kosningunum, og hvað mikils þeir meta þær yfirlýsingar, sem þeir gáfu þá.

22. þing Alþýðusambands Íslands gerði einróma samþykkt í kaupgjalds- og dýrtíðarmálum. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er alger lágmarkskrafa, að þegar í stað fáist kaup í samræmi við útreikning vísitölu hvers mánaðar, og felur þingið væntanlegri sambandsstjórn að fylgja þeirri kröfu vægðarlaust fram við ríkisstjórnina.“

Þessi ályktun var einróma samþ. og borin fram á ábyrgð þess meiri hl., sem þessir flokkar kepptust við að ná. Þessi sami meiri hl. samþykkir að það sé alger lágmarkskrafa, að þegar í stað fáist kaup í samræmi við útreiknaða vísitölu hvers mánaðar. Og það er undirstrikað í allri ályktuninni að hefja baráttu til að vinna upp það, sem tapazt hafi. Það stendur þar, með leyfi forseta:

„Því telur þingið, að verkalýðshreyfingin verði nú að spyrna við fótum, stöðva kjararýrnun þá, er af þessu hefur leitt, og hefja sókn fyrir því, sem tapazt hefur, og batnandi lífskjörum. — Felur þingið hinni væntanlegu sambandsstjórn að setja öllu ofar að sameina verkalýðsfélögin til samstilltra átaka í þessu efni.“

Með öðrum orðum, 22. þing Alþýðusambands Íslands gerir ályktun, þar sem ákveðið er að stöðva rýrnun þá, sem á undan hafi farið, og í öðru lagi að vinna upp það, sem tapazt hafi, og í þriðja lagi, að verkalýðsfélögin efni til baráttu til að ná þessu marki. — Hvert er svo svarið, sem verkalýðsfélögin fá eftir þau hlýju orð, sem Framsókn og Sjálfstfl. létu falla í kosningunum til Alþýðusambandsþingsins? Hvert er svarið, sem Alþýðusamb. fær við þessum lágmarkskröfum? Svarið er komið frá hæstv. ríkisstj., og það er: Í fyrsta lagi, ykkur skal ekki aðeins bætt að engu það tjón, sem þið þegar hafið orðið fyrir. Í öðru lagi, ykkur skal heldur ekki veitt sú lágmarkskrafa að greiða laun skv. mánaðarlegri vísitölu. Þvert á móti, þetta skal af ykkur tekið.

Er það meining hæstv. ríkisstj., að opinberir starfsmenn séu lausir allra mála og megi hefja verkfall til að knýja fram kjarabætur? Er það meiningin, að þeir megi hefja verkfall, þegar þeim sýnist? — Nei, ég held, að það sé nokkuð djarft af ráðh. að segja, að þetta sé allt gefið frjálst.

En óskar ráðh. eftir því, að verkalýðurinn noti þetta frelsi? Hingað til hefur mér nú skilizt, að ráðh. væri heldur á móti svo dýrri baráttu í þjóðfélagsmálum og því heldur kosið að láta undan lágmarkskröfum hans.

Nei, þetta frv. virðist hér aðeins fram borið til að ögra verkalýðssamtökunum og í öðru lagi til að binda starfsmenn ríkis og bæja þrælalögum. Ég verð að segja, að það er hart fyrir þá og harðvítugt af ríkisstj. gagnvart þeim. En e.t.v. verður þetta til að sýna þeim, á hverju þeir mega eiga von, þegar þeir kjósa fulltrúa Sjálfstfl. og Framsfl. til að hafa forustu í málum sínum.

Formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja er einn af varaþm. Sjálfstfl., og það er ekki lengra en frá því í fyrra, að hv. þm. talaði djarft um það, að kjör starfsmanna ríkis og bæja væru allt of slæm, og talaði um grunnkaupshækkanir, hvað þá að þeir ættu að fá greidda fulla vísitöluuppbót. En þetta eru svörin, sem starfsmenn hins opinbera fá, þegar þeir glæpast á að ljá einhverjum fulltrúa Sjálfstfl. eða Framsfl. kjörfylgi. Í öðru lagi á þetta að segja verkalýðssamtökunum: Fyrst þið voruð svo þæg að kjósa fulltrúa Framsóknarog Sjálfstfl., þá skuluð þið vita, að það litla, sem þið höfðuð, skal af ykkur tekið. — Auðsætt er, að stjórn Alþýðusambandsins hefur skilið, hvað í þessum till. felst. Á miðstjórnarfundi, sem haldinn var í nótt, var einróma samþ. þessi áskorun til ríkisstj. með leyfi hæstv. forseta:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþ. eindregin mótmæli gegn framkomnum brtt. við frv. til l. um breyt. á lögum nr. 22/1950, um gengisskráningu, launabreytingar o.fl., er kveða svo á, að frá 1. febr. 1951 skuli laun ekki taka breytingum skv. ákvæðum gengislaganna um vísitöluuppbót, og telur miðstjórnin, að með þessu sé vinnufriðnum í landinu stefnt að óþörfu í bráða hættu.

Miðstjórnin samþykkir enn fremur að skora á Alþingi að samþykkja þegar í stað framkomna brtt. þess efnis, að kauplagsvísitala verði framvegis greidd mánaðarlega á laun eins og verkalýðssamtökin hafa áður krafizt og síðasta Alþýðusambandsþing samþykkti einróma sem lágmarkskröfu sína í þessum efnum.“

Þetta er samþykkt frá miðstjórn Alþýðusambands Íslands, þar sem það er blátt áfram lagt við, að vinnufriðnum sé stofnað í bráða hættu með því að samþykkja þetta frv. Og það er ekki af áhuga ríkisstj. fyrir vinnufriðnum, sem þetta frv. er komið fram.

Ég álít, að með þessu sé ríkisstj. alveg að gefast upp við að stjórna atvinnulífinu í landinu, gefast upp við að leyfa nokkrar kjarabætur, allt það, sem sagt var fyrir gengislækkunina, hefur verið svikið af hv. stjórnarflokkum. Og ég lýsi því hér með yfir, að við sósíalistar munum við þessa umr. freista þess, að frv. okkar, 13. mál, nái fram að ganga, og ef hliðstæðar till. koma fram frá öðrum, munum við styðja þær. Og ég lýsi því yfir, að það er ríkisstjórnin ein, sem ber ábyrgðina á því, þó að komi til árekstra, ef þetta frv. hennar verður samþ.

Ég hef nú nokkuð lýst mótmælum Alþýðusambandsins gegn þessu máli, og vil ég nú koma nokkuð að öðrum ráðstöfunum í atvinnumálunum. — Það er meiningin, að alþingismenn fari heim í jólafrí í dag, og ekki er enn búið að afgreiða þau mál, sem áttu að vera undirstaðan undir atvinnulífi þjóðarinnar, ekkert hefur verið gert til þess, að vélbátaflotinn geti hafið veiðar strax upp úr nýárinu. Það var að vísu samþ. í gær frv. um skuldaskil bátaútvegsins, þar sem nánast voru samþ. refsiákvæði gegn útvegsmönnum fyrir að hafa nokkurn tíma gert út. En ekkert hefur verið gert til að útgerð gæti hafizt að nýju.

Ég man eftir því, að eftir síðustu jól voru samþ. l. af þáv. ríkisstj., sem voru sérstök brbl. um fiskábyrgð, og skyldu þau gilda, þar til búið væri að semja önnur l. um þetta sama efni, og áttu þessi brbl. aðeins að gilda til janúar- eða febrúarloka, og síðan var alltaf verið að framlengja þau. Og ég verð að segja það, að mér finnst rétt að reyna nú á seinasta augnabliki að fá meiri hl. Alþ. til þess að skiljast svo við þetta mál, að útgerðin geti a.m.k. farið af stað eftir nýárið. Ég mun því flytja brtt. við það mál, sem hér er til umr., með brb.- ákvæði á þskj. 459, sem ætti að tryggja það, að vélbátaflotinn verði gerður út. Ætlunin er, að þetta brb.- ákvæði verði aðeins í gildi, þar til hæstv. ríkisstj. er búin að finna sína lausn á þessu máli og fá hana samþ. á Alþ., og þar með væri brb.- ákvæðið afnumið.

Það, sem mundi vinnast með þessu brb.-ákvæði, ef samþ. yrði, að svo miklu leyti, sem útgerðarmönnum fyndist það nægur grundvöllur til þess að geta starfað á, er þá það, að þeir gætu gert sínar ráðstafanir strax og hafið sína útgerð. Ef þetta ákvæði skyldi hins vegar ekki reynast raunverulegur grundvöllur, þá er enginn skaði skeður, en ef það skyldi reynast á hinn bóginn, er sá kostur við það, að vélbátaflotinn mundi a.m.k. fara á veiðar og sá fiskur, sem dreginn yrði úr sjó og tekinn til vinnslu þann tíma, sem hæstv. ríkisstj. er að finna sína lausn, er fundið fé fyrir þjóðina. Það er hins vegar algerlega tapað fé, sá fiskur, sem ekki er veiddur á þessu tímabili, og þeir dagar, sem menn ganga iðjulausir í landi af þessum sökum. Ef hægt er að gera vélbátaflotann út á þessu tímabili í krafti þessa brb.- ákvæðis, þá er það m.ö.o. sparað fé fyrir almenning, sem fæst fyrir vinnu við útgerðina, og sá gjaldeyrir sparaður fyrir þjóðina, sem fæst fyrir andvirði þess fisks, sem þannig yrði veiddur, verkaður og fluttur út.

Ég mun ekki fara nákvæmlega út í að skýra þessa till. mína, þar sem hv. þm. geta lesið um innihald hennar. En þeim fiski, sem veiðist á því tímabili, sem ríkisstj. er að finna sína lausn, skal varið til kaupa á ýmsum nauðsynjavörum, sem eru taldar upp í till., þannig að þær nauðsynjavörur, sem yrðu fluttar inn fyrir þennan fisk, væru annars algerlega glataðar og sama sem að við hefðum hent þeim í sjóinn. Það væri því hreint tap fyrir þjóðfélagið og hvern einasta borgara þess, ef við sköpum útgerðinni ekki aðstæður til að gera vélbátaflotann út þann tíma, sem líður þar til ríkisstj. er búin að finna sína lausn.

Það, sem ég legg hér til, er ekkert út í bláinn, þar sem samþykkt liggur fyrir um það frá útgerðarmönnum, að þeir geri ekki út báta sína fyrr en búið sé að finna lausn á málum þeirra. Þetta er m.ö.o. verkfallsyfirlýsing frá útgerðarmönnum. Og ég er hræddur um, að ef slík yfirlýsing hefði komið frá sjómönnum eða verkamönnum, hefði hæstv. ríkisstj. sagt, að eitthvað þyrfti að gera. Ég fyrir mitt leyti kann ekki við það, að meiri hl. Alþ. geri ekki á síðustu stundu einhverjar tilraunir til að skilja þannig við útgerðina, að henni sé gefinn möguleiki til að gera út, og þótt henni séu að vísu sett þröng skilyrði með mínum till., hygg ég, að hún mundi samt fara af stað, ef þær yrðu samþ. Með till. er ríkisstj. heimilað að setja það að almennu skilyrði fyrir útflutningi, að fyrir fiskinn hafi verið greitt lágmarksverð. Enn fremur er gert ráð fyrir, að um verðlag hinna innfluttu vara gildi venjuleg verðlagsákvæði. Hér yrði ekki um hrognapeninga eða neitt slíkt að ræða. Þegar hæstv. ríkisstj. væri svo búin að finna sína lausn á málinu, hefur hún leið til að afnema þetta brb.- ákvæði.

Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að meiri hl. Alþ. ber ábyrgð á öllu því þjóðfélagslega tjóni, atvinnuleysi og vöruskorti, sem af því hlýzt, ef útgerðin stöðvast. - Ég álít, að það sé lagalega séð eðlilegt að setja þetta brb.-ákvæði aftan við gengislækkunarl., þar sem þau áttu að tryggja rekstur útgerðarinnar. Enn fremur var því lofað í grg. gengislækkunarfrv., að rýmkað yrði um höftin á verzlun og útgerð og þeim gefnar frjálsari hendur, og það væri því í samræmi við þessi loforð að veita landsmönnum nú þetta frelsi, sem í till. minni felst, þótt það stæði ekki nema í einn mánuð, þar sem hæstv. ríkisstj. hefur rétt til að afnema það, jafnskjótt og hún hefur fundið lausn á málinu.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vænta þess, að þeir hv. þm., sem hafa einhverja ábyrgðartilfinningu, þar sem Alþ. hefur tekið að sér stj. útgerðarmálanna, komi sér saman um einhverjar ráðstafanir, áður en þ. verður frestað fyrir jól sem gefi útgerðarmönnum einhvern grundvöll til. að starfa á, — a.m.k. eitthvert frjálsræði til að hreyfa sig, þótt ekki sé um neina aðstoð að ræða.

Hins vegar er það ljóst, að aðalmálið, sem hér hefur verið deilt um, er brtt. sú, sem hér hefur verið lögð fram og felur í sér kaupbindingu gagnvart opinberum starfsmönnum og er jafnframt ögrun gagnvart öllum almenningi um að leggja út í harðvítugar vinnudeilur til þess að vinna sinn rétt.

Ég legg því til, að 1. gr. verði felld og frv. síðan fellt í heild.