19.12.1950
Neðri deild: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Þótt ég vilji verða við tilmælum hæstv. forseta um að lengja ekki umr., þykir mér þó rétt að láta nokkur andmæla- og aðvörunarorð falla um það frv., sem hér liggur fyrir til lokaafgreiðslu. Ég á þar sérstaklega við 2. mgr. 1. gr. frv., og er efni hennar á þann veg, að árið 1951 skuli greiða verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna miðað við kauplagsvísitölu 123, og er þetta miðað við launavísitölu 1. des. s.l. Um leið eru felld niður þau ákvæði, sem áður voru í gengislækkunarl. og mæltu svo fyrir, að verkalýðssamtökin og verkamenn fengju uppbætur á laun sín miðað við vísitölu 1. júlí, ef hún hefði hækkað eða lækkað um meira en 5 stig.

Um þetta má tvennt segja. Í fyrsta lagi það, að með þessu ákvæði eru laun opinberra starfsmanna algerlega bundin allt árið 1951, hvert svo sem verðlag verður. Þeir hafa engan rétt að l. til þess að leggja niður vinnu og með samtökum sínum að krefjast réttarbóta sér til handa, ef þeir þykjast vanhaldnir út af launagreiðslum. — Í annan stað er það ákvæði afnumið gagnvart verkalýðsfélögunum, sem fjallaði um uppbætur, sem þau kynnu að fá á miðju eða eftir mitt næsta ár vegna hækkaðrar dýrtíðar á fyrri helmingi ársins. En í sambandi við síðara atriðið lýsti hæstv. viðskmrh. yfir því, sem að visu er rétt, að verkalýðsfélögunum væru gefnar frjálsari hendur í sambandi við sín launamál. Ég verð að segja, að mér finnst skjóta nokkuð skökku við, hvað þetta atriði snertir og þær röksemdir, sem voru fram fluttar á sínum tíma í sambandi við setningu gengislækkunarl., þar sem þeim var talið til gildis, að verkalýðurinn fengi að verulegu leyti bættar upp þær verðhækkanir á nauðsynjavörum, sem yrðu vegna gengislækkunarinnar, og fyrir þessar sakir var sagt, að verkalýðurinn gæti beðið rólegur og séð, hvort hún hefði ekki einmitt að geyma hagsbætur þeim til handa með aukinni atvinnu í landinu. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja varðandi þá spádóma og fyrirsagnir, sem fylgdu gengislækkuninni um að hækkunin mundi ekki nema meiru en 11–13%, að nú við þessi áramót nemur hækkunin helmingi meiru en talið var að hún mundi verða mest, og það sem verra er, að ekkert útlit er fyrir — nema síður sé — að stöðvun verði á verðhækkunum. En eins og ég sagði áðan, taldi hæstv. viðskmrh. þessu ákvæði það til gildis, að verkalýðsfélögunum væru gefnar frjálsari hendur í launamálum en þau að nokkru leyti hefðu áður haft. Þetta er rétt í orði kveðnu, og maður hefur því tilhneigingu til þess að spyrja hæstv. ríkisstj., ef hún telur eðlilegt, bæði vegna þess, sem orðið er, og vegna þess, sem búast má við að verði á næstu tímum hvað verðlag á nauðsynjum snertir, að verkalýðssamtökin hafi frjálsari hendur í launamálum og geti því tekið til sinna ráða til þess að fá kaup sitt bætt upp, hvort hún sé með þessu að sækjast eftir, að þessi samtök taki til sinna ráða í þessum efnum. Ég býst við, að þau telji ekki nema eðlilegt að notfæra sér það frelsi, sem hæstv. viðskmrh. var að tala um, en hvort það væri svo ýkja æskilegt frá sjónarhóli hæstv. ríkisstj., það er aftur önnur spurning.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Alþýðusamband Íslands hélt þing sitt í nóvember s.l. og gerði þar ályktanir í samræmi við álit miðstj. þess og síðasta sambandsþ. Þar er lögð áherzla á, að það muni vera bezt fyrir þjóðarheildina að halda verðlagi svo niðri, að ekki þurfi að koma til kauphækkana. Hins vegar finnst verkalýðssamtökunum, að ríkisstj. hafi gengið svo linlega fram í því að halda niðri verðlagi í landinu, að fyrir þær sakir gæti svo farið, að þau þyrftu að grípa til sinna ráða. Ég tel verkalýðssamtökin hafa sýnt mikla þolinmæði í gengislækkunarmálunum, jafnandstæð sem þau voru þeirri löggjöf, og viljað láta koma í ljós, hvort þeir spádómar rættust, sem forsvarsmenn hennar gerðu, þegar þeir sögðu, að það væri verkalýðnum sjálfum fyrir beztu að gera ekkert til þess að setja úr skorðum þær tilraunir, sem þeir þóttust ætla að gera með gengislækkuninni. Það er síður en svo, að verkalýðssamtökin hafi ekki gefið þessari löggjöf tækifæri til að sýna, hvað hún hefði í för með sér. En nú er það svo, með setningu þessarar löggjafar, sem hér er til umr. og ekki er stór eða margorðuð, að hér virðist farið inn á nýja braut, sem mér finnst fela í sér allt að því ögrun fyrir verkalýðinn. Mér virðist hæstv, ríkisstj. með þessu beinlínis segja við verkalýðinn: „Nú getið þið hækkað kaupið, en við ætlum ekki að gefa ykkur launauppbætur, þótt vöruverð hækki.“ Þess vegna verð ég að aðvara hæstv. ríkisstj. um það, að ef svo færi í sambandi við þessa löggjöf og einnig í sambandi við aðrar ráðstafanir hennar, að verðlag hækki enn til stórra muna á næsta ári, að mér þykir ekki líklegt, að verkalýðssamtökin sjái sér fært að sætta sig við slíkt, og frá mínu sjónarmiði er þetta hættuleg pólitík, sem hlýtur að hafa í för með sér eina allsherjarorustu út af kaupgjaldi í landinu.

Þá vil ég minnast nokkrum orðum á brtt. á þskj. 459 frá hv. 2. þm. Reykv. (EOl). Því hefur verið spáð, en um það get ég ekkert sagt, að hér ætli hann og hans samherjar að verða fyrri til að boða þá stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hyggst fylgja á næsta ári. Ef það reyndist rétt, að það væri að einhverju leyti stefna hæstv. ríkisstj., sem felst í brtt. á þskj. 459, er ég viss um, að slíkt yrði til þess að hækka til mikilla muna verð á mörgum vörum, sem eiga að flytjast til landsins, og gerði þar með launþegum örðugra að lifa við þau lífskjör, sem þeir verða að búa við. Og mér finnst það einkennileg framkoma af hv. 2. þm. Reykv., að samtímis festingu vísitölunnar í 123 stigum vill hann bæta aftan við l. brb.-ákvæði, sem óhjákvæmilega hlýtur að hafa í för með sér stórkostlega hækkun á vöruverði í landinu.

Ég vil svo að loknum þessum andmæla- og aðvörunarorðum mínum leyfa mér að bera fram skriflega brtt. um, að síðari mgr. 1. gr. frv. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta: „Frá 1. janúar 1954 mega laun hækka mánaðarlega samkvæmt vísitölu hvers mánaðar.“ (Forseti: Ég vil benda hv. 8. landsk. þm. á það, að nákvæmlega sams konar brtt. hefur þegar verið lögð fram af hv. 2. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Reykv. ) Það er ágætt og þá óþarfi, að brtt. mín komi fram, og mun ég fylgja brtt., sem fram er komin um sanna efni. Ég vil taka það fram, að þessi till. er í samræmi við yfirlýsingar Alþýðusambands Íslands, en ég mun ekki hafa verið í d., þegar sams konar till. var lögð fram.

Að endingu vil ég endurtaka þau aðvörunarorð mín til hæstv. ríkisstj., að ef 1. gr. frv. verður samþ. eins og hún er nú, er hér lagt út á braut, sem ómögulegt er að sjá, hvaða afleiðingar kann að hafa fyrir þjóðina á næstu árum.