16.10.1950
Efri deild: 3. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

20. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem kunnugt er gilda sömu sektarákvæði fyrir smábáta, sem brjóta bannið gegn botnvörpuveiðum, eins og fyrir regluleg stór botnvörpuskip. Þetta hefur orðið til þess, að dómsmrn. hefur neyðzt til að leggja til við forsetann, að hann náðaði skipstjóra á smærri skipum, eða færa sektirnar mjög niður. Má segja, að það sé nú viðtekin regla, en er vitanlega óvíðunandi til frambúðar, því að til þess eru lagaákvæði að fara eftir þeim. Það er skoðun mín, að sektirnar séu svo háar, að þær séu óinnheimtanlegar, og ef þetta er einnig skoðun Alþingis, þá þarf það að koma fram með lagabreytingu. En ef skoðun Alþingis er sú, að sektirnar séu ekki of háar, þá fellir það náttúrlega þetta frv., en þá hættir dómsmrn. að leggja til, að sektirnar falli niður. — Svipað er að segja um dragnótaveiðarnar, að sektir þar eru hærri en ætlazt var til, en ráðuneytinu fannst ekki ástæða til að bera fram frv. um breyt. á þeim l., fyrr en séð yrði, hvernig Alþingi tæki þessu frv., og væri gott, ef hv. n., sem þetta mál fær til meðferðar, athugaði ákvæðin um dragnótaveiðarnar einnig.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til sjútvn.