07.11.1950
Neðri deild: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

20. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Pétur Ottesen:

Það eru aðallega tvö atriði í ræðu hæstv. dómsmrh., sem ég vildi víkja nokkrum orðum að. Hæstv. dómsmrh. hélt fram, að hin háu sektarákvæði l. gætu orðið þess valdandi, að svo og svo mikill hluti bátaflotans stöðvaðist með öllu. Það er ástæðulaust að halda slíku fram, því að þó að sektir fyrir landhelgisbrot reyndust í sumum tilfellum svo þungar, að þeir, sem fyrir þeim yrðu, gætu ekki undir þeim risið, þá er vitanlegt, að það eru til nógir menn, sem mundu taka við rekstri slíkra báta. Enda er algengt, að bátar gangi kaupum og sölum manna á milli, þó þetta komi ekki til greina. Þess vegna er ástæðulaust að halda fram, að jafnháar sektir og hér eru nú verði til þess að stöðva bátaútgerðina. Sektirnar gætu orðið til þess, að eignatilfærsla á bátum ætti sér stað, en ekki til þess að stöðva útgerðina. Auk þess er vitað, að í hópi skipstjóra er svo stór hluti menn, sem virða lögin, en mikill minni hluti landhelgisbrjótar, sem betur fer. Það er fjöldinn af skipstjórum, sem kostar kapps um það að vera löghlýðnir menn í þessu efni sem öðrum og forðast í öllum kringumstæðum að vera valdir að neinum slíkum brotum. Hins vegar eru aðrir menn, sem nota hvert tækifæri til þess að reyna að brjóta landhelgisl., og slíkum hvötum, sem koma fram í því, á vitanlega að reyna að halda í skefjum á allan hátt og með ströngum viðurlögum.

Hæstv. dómsmrh. vildi gera lítið úr því hjá mér, að jafnvel gæti staðið svo á og að því væri svo varið í ýmsum tilfellum, að það tjón, sem minni bátar gera í sambandi við landhelgisbrot, geti verið mun meira heldur en það, sem stærri skipin gera. Það er rétt hjá honum, að yfirleitt er það svo, að aflamagn af nytjafiskum er meira hjá stærri skipunum. En hættan, sem stafar af ólögmætum landhelgisveiðum, er ekki fyrst og fremst fólgin í því, að mikið sé dregið upp af nytjafiski, heldur er hættan miklu meir fólgin í þeirri eyðileggingu og tortímingu, sem verður á fiski, sem er á uppvaxtarskeiði. En smærri bátar eru kannske í flestum tilfellum miklu hættulegri ungfiskinum en stærri skipin, því að smærri bátunum hættir til að vera nærgöngulli en stærri skipin á þeim stöðvum, sem eru klakstöðvar og uppvaxtarstöðvar nytjafiskanna. Þetta er þungamiðjan í málinu. En fiskfæðin í sambandi við botnvörpuveiðarnar stafar fyrst og fremst af því, hver gereyðing uppfæðingnum er búin af slíkum völdum, og er tjónið, sem af þessu leiðir, miklu meira en þó nokkuð sé nærri gengið um veiði nytjafiska. Þetta verður fullkomlega að hafa í huga. Og ræða hæstv. dómsmrh. hefur þess vegna ekkert sannfært mig um það, að hans sjónarmið eigi að vera öðru fremur ríkjandi, þegar um slík mál er að ræða sem þessi.

Hitt get ég verið hæstv. dómsmrh. alveg sammála um, að það ástand, sem nú ríkir í þessum efnum, er gersamlega óviðunandi, að það skuli vera orðið að fastri venju, eins og hann sagði, í meðferð ríkisstj. í þessum efnum að ganga svo gersamlega á bak við skýr og ótvíræð lagafyrirmæli eins og fyrir liggur, að gert hefur verið í þessum hlutum. Slíkt ástand er vitanlega ekki við hlítandi. Og hvaða afgreiðslu sem þetta mál, sem hér liggur fyrir, fær, og eins þó það fái þá afgreiðslu, sem ég tel æskilegri, að þessi ákvæði verði ekki í lög tekin, sem eru í frv., þá ætti það líka að vera fullkomið aðhald fyrir hæstv. ríkisstj. um að fara ekki svo að sem gert hefur verið að undanförnu, að sniðganga lögin. Enda hefur hæstv. dómsmrh. lýst yfir, að ef þetta frv. nái ekki fram að ganga, þá muni hér eftir verða farið að lögum um þessa hluti.