08.12.1950
Neðri deild: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

20. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í sambandi við lagafrv. þetta á þskj. 20, þá hefur það reynzt nær óframkvæmanlegt að innheimta þessar háu sektir hjá ýmsum minni bátum, sem hafa stundað botnvörpuveiðar hér við land.

Ég held, að það sé ekki rétt fram tekið hjá hv. þm. Borgf., að það sé mikið af slíkum brotum, sem framin eru af erlendum skipum af þessari stærð, sem um getur í frv., sem stunda botnvörpuveiðar hér við strendur landsins. A.m.k. minnist ég ekki þess, að þeir bátar hafi verið teknir í landhelgi að ólöglegum veiðum. Enda er þessi till. frá hæstv. dómsmrh. um breyt. á l. komin fram sökum þess, að það hefur sýnt sig, að ekki hefur þótt tiltækilegt að beita þessum sektum, og hefði slíkt í flestum ef ekki öllum tilfellum kostað gjaldþrot viðkomandi báta. Ég tel því, að hér sé með þessu frv. stefnt í rétta átt, því að það er ekki heppilegt að hafa þá löggjöf í gildi, sem er ekki framkvæmd. Og eins og kemur fram í grg. frv., þá hefur þessi löggjöf ekki verið framkvæmd, hvað við kemur sektarákvæðunum, heldur munu venjulega viðkomandi skipstjórar hafa fengið náðun með því að greiða miklu minni sekt.

Það var rétt fram tekið hjá hv. frsm. minni hl. sjútvn., að mér láðist að geta þess, að meiri hl. sjútvn. hefur lagt til, að gerð verði sú breyt. á frv., að stærð skipanna verði miðuð við 200 rúmlestir í stað 115, sem gert er ráð fyrir í frv.