12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

20. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég tel það í raun og veru nokkurt áhyggjuefni, hvernig því er varið með bátaflota okkar, hve mörg skip í bátaflota okkar eru í raun og veru á vissan hátt, ef segja mætti, hvorki fugl né fiskur. Það eru skip, sem geta verið heppileg til síldveiða fyrir Norðurlandi þá þrjá mánuði ársins, sem um síldveiðar er að ræða, en reynslan virðist þó hafa sýnt, að séu óheppileg til þorskveiða. Þegar svo er ástatt, þá virðist vera um tvennt að velja viðkomandi þessum bátum, annaðhvort að láta þá vera ónotaða allt að níu mánuði ársins eða setja þá á togveíðar, sem fjöldi þeirra er alls ekki fær til, ef þeir eiga að stunda togveiðar þar sem þeir hafa rétt til, ég meina utan landhelginnar. Ég hygg því, að það sé nokkurt sannmæli, sem hv. minni hl. sjútvn. heldur fram, að bátatogveiðarnar séu víðs vegar í kringum landið á grunnmiðum eins og sakir standa hættulegri heldur en togveiðar togaranna, og það liggi í því, að togbátarnir hafi yfirleitt ekki aðstöðu til að nota sér þau togveiðimið, þar sem togarar stunda veiðar yfirleitt með góðum árangri. Þegar á þetta er litið, þá má kannske virðast undarlegt, að meiri hl. sjútvn. leggur til, að samþ. verði frv. það, sem hér liggur fyrir, þ.e. sá hluti þess, þar sem gert er ráð fyrir, að togbátarnir búi við lægri sektarákvæði en togarar, þegar um brot á landhelgisl. er að ræða. En sú ástæða, sem þar er á bak við, er sú alkunna staðreynd, sem reyndar er vikið að í grg. frv., að þau sektarákvæði, sem nú eru í gildi í l. um bann gegn togveiðum í landhelgi, hafa alls ekki verið gerð gildandi gagnvart togbátunum. Og mun það jafnvel hafa verið svo, að þó að sektin hafi verið ákveðin, þá hefur í ýmsum tilfellum ekkert verið innheimt af sektinni. Og það er frá mínu sjónarmiði alveg óþolandi. Það er vitað, að ýmsir landhelgislögbrjótar á togbátunum hafa þessi lög og framkvæmd þeirra að athlægi, og háttalag þeirra í ýmsum tilfellum í sambandi við veiðar í landhelgi er þannig, að það virðist sem þeim finnist, að það sé ekki mjög mikið í húfi fyrir þá, hvort þeir hafi lögin í heiðri eða ekki. Þetta ástand er vitanlega, eins og vikið er að í grg. þess frv., sem hér er til umr., algerlega óviðunandi. Og meiri hl. sjútvn. fellst á það atriði frv., að togbátarnir yfirleitt búi við lægri sektarákvæði viðkomandi brotum gegn landhelgisl. heldur en togarar, og mælír með því, að það verði samþ. En það er byggt á því, — og ég geri ráð fyrir, að ég tali þar fyrir hönd allra í meiri h1. sjútvn., — að l. eins og þau verða, ef þetta frv. er samþ., verði þá gerð skilyrðislaust gildandi og framkvæmd þannig, að togbátar, sem sannir verða að sök um að brjóta landhelgisi., verði í hverju tilfelli dæmdir í þá hæstu sekt, sem um getur verið að ræða, og að sú sekt verði innheimt tafarlaust í hverju tilfelli. Ef þetta frv. verður gert að l. og ef lögunum verður framfylgt á þennan hátt, sem ég hef vikið að, þá hygg ég, að það megi segja, að hér sé í raun og veru um þyngingu að ræða á sektarrefsingum gagnvart togbátum, sem veiða í landhelgi, en ekki léttingu frá því sem nú er. Hitt er svo annað mál, hvort það væri ekki ástæða til þess að bæta við vissum ákvæðum í sambandi við þetta frv., þeim ákvæðum, sem gerðu það að verkum, að skipstjórar á togbátum ættu meira í húfi heldur en nú er, ef þeir verða sannir að sök um landhelgisbrot. Ég á þar víð, að ég tel, að það gæti vel komið til mála, að þeir ættu yfir höfði sér strax við fyrsta brot einhverja réttindaskerðingu og jafnvel einhverja hættu í sambandi við fangelsisvist strax við fyrsta brot. Og ég tel, að hv. sjútvn. mætti gjarnan athuga þetta betur en hún hefur þegar gert, hvort ekki væri rétt fyrir 3. umr. þessa máls að koma fram með brtt. í þessa átt.

Hvað við kemur brtt. meiri hl. sjútvn. um það atriði að hækka rúmlestatölu eða stærð skipa þeirra, sem falla undir lægri sektarákvæðin, úr 115 lestum upp í 200 rúmlestir, þá ætla ég, að þar með vilji meiri hl. sjútvn. reyna að setja í einn og sama flokk alla þá báta, sem stunda togveiðar, og sé þar með sama sekt fyrir brot þessara báta, hvort sem þeir eru stærri eða minni, alveg eins og það hefur verið og er gert ráð fyrir, að það verði áfram sama sektarfjárhæð á hendur togara, sem brjóta landhelgisl., hvort sem togararnir eru stærri eða minni.