23.11.1950
Efri deild: 24. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

107. mál, bifreiðalög (viðurlög)

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í 38. gr. bifreiðalaganna eins og þau eru ná er kveðið svo á, að hver, sem ekur bifreið eða reynir það, er hann er undir áhrifum áfengis, fær öðrum manni, sem er undir áhrifum áfengis, stjórn bifreiðar, ekur bifreið, eftir að hann hefur verið sviptur ökuleyfi eða réttindum til að öðlast það, misnotar merki það, sem rætt er um í 1. gr. 5. mgr., eða notar skrásetningarmerki á aðra bifreið en til er ætlazt, skuli sæta varðhaldi eða fangelsi, nema um alveg sérstakar málsbætur sé að ræða. — Þetta ákvæði hefur leitt til þess, að hér um bil allir þeir, sem teknir hafa verið fyrir ölvun við bifreiðaakstur, hafa verið dæmdir í varðhald, oftast nær 10 daga. Hins vegar hygg ég, að frá því lögin voru sett hafi reynslan lengstum orðið sú, að allmargar náðanir hafi átt sér stað um þessa menn. En eftir að ég varð dómsmrh., tók ég upp þann hátt að leggja ekki til, að náðanir væru veittar nema eftir sérstökum reglum. Mikill hópur manna hafði ekki fengið rúm í fangelsum til að taka út refsingu sína, og dómstjórnin hafði þá ekki heldur sótzt eftir, að þeir tækju út refsingu. Og því var tekin upp sú regla samkv. 38. gr. bifreiðalaganna að kynna sér efni þeirra og ástæður og þessir dæmdu menn þannig flokkaðir eftir efnahag og 10 daga fangelsi venjulega metið frá 1000 kr. og upp í 8000. Var reynt að veita náðanir eftir ákveðnum reglum með hliðsjón af efnahag hlutaðeigenda.

Töluverður hópur manna hefur fengið náðun samkv. þessum reglum. Og ég þori að fullyrða, að ef þeir hefðu allir átt að sitja af sér refsinguna, þá hefðu orðið fullkomin vandræði með fangelsi í landinu. Því að þótt þessar náðanir hafi átt sér stað, hefur mjög brostið á, að hægt væri að láta menn taka út jafnóðum refsingar fyrir afbrot af þeim sökum, að fangelsisrúm hefur skort. Nú mætti segja, að eðlilegt væri að stækka fangelsisrúmið. Og það er vitaskuld rétt. En eins og til háttar nú í landinu á síðustu árum, að ekki hefur verið unnt að reisa nóg af sjúkrahúsum eða skólabyggingum vegna skorts á byggingarefni af gjaldeyrisástæðum, þá hef ég talið réttara að láta nýjar fangelsisbyggingar sitja á hakanum. Þá er líka á það að lita, að refsing af þessum sökum er óeðlilega ströng, miðað við refsingar af öðrum tilefnum. Með því er ég ekki að mæla því bót, ef menn aka bifreiðum undir áhrifum áfengis. En ef menn verða sekir um að valda sérstökum slysum, er svo stendur á, fá menn líka af sjálfu sér þyngri refsingu, og í engu slíku tilfelli er um náðanir að ræða. Það hafa eingöngu verið menn, sem ekki hafa valdið slysum eða manntjóni, sem fengið hafa refsingu sinni breytt. Oft er hér um lítið saknæmt athæfi að ræða og viðkomandi aðilar oft svo að segja allsgáðir. Og yfirleitt er það nú svo í öðrum löndum, að mönnum er ekki refsað fyrir það að aka bifreið, er svo stendur á. Hins vegar tel ég nauðsynlegt, að strangari reglur gildi í þessu efni hér á landi. En þegar litið er á eðli afbrotsins og þá staðreynd, að við höfum ekki nægu fangelsisrými á að skipa, þá held ég verði að teljast rétt að breyta refsilögunum eins og hér er lagt til og staðfesta þannig það, sem áður hefur tíðkazt um náðanirnar. Og ég vil leggja áherzlu á það, að í öllum tilfellum, þar sem um verulega sök er að ræða, þar kemur til varðhaldsrefsing, svo að breytingin er þannig á engan hátt neitt varhugaverð frá öryggissjónarmiði. Þá eru ákvæðin um réttindamissinn óbreytt, en það er hann, sem allir, er bifreiðum aka, setja hvað mest fyrir sig.

Ég leyfi mér því að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. Það má deila um, hvort málið eigi að fara til samgmn. eða allshn., en þar sem hér er um að ræða refsiákvæði, þá finnst mér eðlilegt, að því verði vísað til allshn.

Á eitt vildi ég svo að lokum minnast og vildi biðja n. að athuga það, hvort ekki þætti ástæða til, ef skipstjóri hefur t.d. verið sviptur réttindum til skipstjórnar vegna áfengisneyzlu, að hann væri þá einnig sviptur rétti til að aka bifreið eða stjórna flugvél. Og eins, hvort ekki væri rétt, að bifreiðar-. stjóri, sem sviptur hefur verið ökuréttindum af þessum sökum, skuli einnig missa rétt, ef hann hefur slík próf, til að stýra skipi eða stjórna flugvél. Hér er um svo skyld störf að ræða, að mjög er athugandi, hvort hið sama á ekki að gilda um þau öll. Ég hef ekki lagt til neinar breyt. í þessa átt að svo stöddu, en vildi biðja n. að hugleiða þetta, og mætti þá ræða það nánar við 2. umr., hvað sýnast kynni um þessa hugmynd.