09.01.1951
Neðri deild: 46. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

107. mál, bifreiðalög (viðurlög)

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Meiri hl. allshn. leggur til á þskj. 372, að þetta frv. sé samþ., en einn nm., hv. þm. Ísaf., er þó á móti því. Í grg. frv. eru rökstuddar ástæðurnar fyrir því, að þetta frv. er sett upp, og breyt. er, ef þetta frv. verður samþ., í því fólgin, að það verður á valdi dómara, hvort tiltekið brot í fyrsta sinn skuli valda varðhaldi, fangelsi eða vægari refsingu. Það brot, sem þarna er um að ræða, er aðallega, ef menn stjórna bifreið undir áhrifum áfengis, og samkv. gildandi ákvæðum varðar það við fyrsta brot fangelsisrefsingu, en það hefur verið allmikið af þessum brotum. Reynslan hefur verið þannig, að það hefur ekki verið rúm í þeim fangelsum, sem fyrir eru, fyrir þá dæmdu, og kveður svo rammt að þessu, að til þess að því sé ekki algerlega frestað, að menn taki út refsingu, þá hefur þessum fangelsisdómum með náðun verið breytt í sektir, sem miðaðar eru við efnahag sökunauts, og vegna þess að ekki er fyrirsjáanleg breyt. á þessu, þá hefur meiri hl. n. fallizt á, að þessu sé breytt. Þetta þýðir ekki það, að það geti ekki valdið fangelsisrefsingu við fyrsta brot, ef um ölvun við akstur er að ræða. En breyt. á 38. gr. bifreiðal., sem í þessu frv. er fólgin, er sú, að það sé ekki skilyrðislaust, að menn skuli sæta fangelsisrefsingu við fyrsta brot en það skuli fara eftir því, hve stórt brotið kann að vera.

Hv. landbn. hefur flutt brtt. um það, að færa aldurstakmarkið til þess að mega stjórna bifreið niður í 17 ár. Ég skal ekki víkja að því sérstaklega, n. hefur ekki fallizt á það og styður ekki þá till. En með þessu hef ég gert grein fyrir afstöðu n. og þeirri till., sem hún hefur fram að færa.