09.01.1951
Neðri deild: 46. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

107. mál, bifreiðalög (viðurlög)

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það má segja, að nú opnist ýmsir atvinnumöguleikar fyrir fyrrv. kaupfélagsstjóra sem forvígismenn þeirra manna, sem dæmdir hafa verið í sekt, en neita að borga. En sízt skal ég gera lítið úr fjáraflamöguleikum þeirra og ekki svipta þá þeirri von, því að það væri illa gert.

En svo að talað sé í alvöru, þá er það mitt álit, að það sé frekast ein röksemd, sem er góð, en ef henni er fylgt út í hið ýtrasta, má færa hana út í öfgar. Þar ræður reynsla sú, að í stað þess að áður var látið dankast að refsa afbrotamönnum, sem ekki höfðu greitt tilskilda sekt, þá hefur ríkissjóður fengið fé, sem nemur hundruð þúsundum króna. Kaus ég þann kost að leggja meira upp úr reynslunni en bókstafnum einum saman. Allur þorri manna hefur greitt þær sektir, sem þeim hafa verið úrskurðaðar. Þeir, sem ekki hafa greitt þessar sektir, hafa tekið út sína refsingu með því að sitja hana af sér í fangelsi. Ríkið er ekki svo illa stætt, að ekki sé hægt að beita fangelsun, ef menn neita að greiða sektina. Mér skilst, að það hafi yfirleitt verið undir handahófi komið, hvort menn hafi verið látnir sitja af sér þessa refsingu eða hvort einstaka vildarvinir ráðh. hafi verið teknir út úr og náðaðir. Mér finnst slíkt óheppilegt — og eðlilegt, að einhver regla sé látin gilda, þó að hún sé vægari en pappírsreglan, ef það er þá framkvæmanleg regla. Þess vegna hef ég alveg neitað að taka einstaka menn út úr og náða þá. Hv. þm. Ísaf. hafði orð á því að taka tillit til efnahags einstaklingsins, þegar dæmt er til fjársektar. Benti hv. 5. þm. Reykv. réttilega á, að sektina á að leggja á eftir efnahag. Hv. þm. V-Húnv. hefur á þessu lítinn skilning. Hér er um að ræða lagaákvæði. Samkv. stjskr. hefur forsetinn heimild til að náða menn, sem er í því fólgin, að breyta má strangri refsingu í væga refsingu. Það, sem gerzt hefur, er, að dómsmrh. hefur lagt til við forseta að breyta fangelsisrefsingu í sektarrefsingu.

Hafi menn einhverra hluta vegna ekki getað tekið út fangelsisrefsinguna, var það iðulegt, að þeir, sem áttu að losna við að sitja hana af sér, fengu sér læknisvottorð. Og stundum átti það sér jafnvel stað að láta þessa menn losna alveg við refsinguna. En menn, sem voru dæmdir fyrir minna brot, urðu að greiða sína sekt að fullu.

Hér er um sjálfsagða stjórnskipun að ræða, og ég held því fram, að óhyggilegt sé að breyta því. Ég get haldið þessu áfram á meðan ég er ráðherra, en taldi hitt heppilegra og réttara, að þingið tæki afstöðu til þess áður. Ef þingið samþ. ekki frv., verður með einhverju móti reynt að framfylgja lögunum, eins og gert hefur verið. Dómsmálastjórnin getur ekki framfylgt lögum, sem hún hefur ekki möguleika til að framkvæma. Það hefði vissulega mátt gera meira til að koma þessu í lag, og ætla ég ekki að draga mig undan. Mér skildist, að nóg væri komið af fjárveitingum frá ríkinu, þó að þessu væri ekki bætt við. En þegar ég heyri hljóðið í þm., ýtir það undir mig að bera fram till. um þetta á næsta þingi. Þá held ég, að betra sé að hafa lög, sem hægt er að framfylgja og breyta, en að láta þau verða að dauðum bókstaf og framkvæmd með hlutdrægni.

Það, sem dómsmrn. hefur gert, er að skapa reglu, svo að menn slyppu ekki við að borga sektina. Refsifræðin telur, að þessi fangelsisrefsing sé sú misráðnasta refsing, sem til er; ég hygg að það sé byggt á reynslu.

Eins og hv. þm. A-Húnv. sagði réttilega, hefur það mest áhrif að svipta menn réttindum til aksturs. Ég hef haldið fast við þá reglu að stytta aldrei umfram heimild þann tíma, sem menn hafa verið dæmdir til ökuleyfismissis. Það versta við að framfylgja þessu er, að áður var þessum ökuleyfismissi breytt með náðun. Ég tel þetta óheillaráð, og hefur verið staðið á móti því.

Ég hef oft þurft að taka á, þegar menn hafa komið og sagt, að með þessu væru þeir sviptir atvinnu sinni. Oft eru þessir menn sjúklingar, sem ekki geta stundað hvaða vinnu sem er, auk þess að hæfileg sektargreiðsla er sanngjörn.

Hv. þm. V-Húnv. minntist á, hvort ekki væri hægt að útvega heppilegt hús til þessara nota. Ég hef haft þetta í huga og hef gert út fróðan mann til að athuga ýmsar byggingar í þessu skyni. Reynslan hefur sýnt, að fáar af þeim byggingum, sem fáanlegar eru, séu þess eðlis, að þær séu heppilegar til kaupa. Nú hefur Reykjavíkurbær keypt jörð á Snæfellsnesi, sem af ýmsum hefur verið mælt með til þessara nota. Eftir landslögum á ríkið sjálft að standa undir þessu, og hefur verið borin fram till. af hálfu ríkisins um fjárveitingu til þess að reka heimilið. Ég álít, að ekki sé rétt, að ríkið kaupi þessa eign að svo stöddu, því að ég tel, að hér sé naumast um framtíðarlausn að ræða. En ef reynslan leiðir hið gagnstæða í ljós, þá finnst mér sjálfsagt, að ríkið kaupi hana. Það er ágætt, að bærinn reyni þetta fyrst. Ég tel víst, ef slíkur staður er til, verði það til þess að greiða fyrir innheimtu ógreiddra barnsmeðlaga. Að líkindum verður þessi staður ekki alltaf setinn til fulls, og opnast þá möguleiki til þess að skjóta inn mönnum til að afplána sektir. Það er beinn vinningur fyrir ríkið, ef bærinn vill gera tilraun með þetta, og yrði þetta mikill léttir á þessum málum eins og sakir standa.

Ég játa, að lögreglustöðin sé orðin úrelt, en sem betur fer eru fangaklefarnir þar ekki ætlaðir til langdvalar. Mennirnir, sem gista þennan stað, eru oft í því ástandi, að þeir eiga ekki góðra kosta völ, enda eru þeir oft ölóðir. Kjallarinn er þó ekki æskilegur staður fyrir þessa menn, en málið verður naumast leyst nema með því að byggja nýja lögreglustöð.

Hvað viðvíkur hinum ölóðu mönnum, þá hefur Alþingi gert ráðstafanir til þess, að nokkur hluti af áfengisgróðanum verði notaður til þess að hlúa að þessum mönnum með því að koma upp sjúkrastofu fyrir þá. Nú hafa verið sett lög um þetta, og hefur nokkurt fé safnazt í þennan sjóð. Hæstv. forsrh. hefur ýtt á eftir því, að framkvæmd verði hafin í málinu, og léttir þetta í vissu atriði á fangelsinu.

Ég vona, að málið skýrist við þessar umr., en ég tel það ekki gagna að senda mönnum úti í bæ það til umsagnar. Að mínu áliti hafa þeir menn bezta innsýn í þetta mál, sem standa í daglegu sambandi við það. Hitt er svo matsatriði, hvort setja eigi þessa menn inn í tíu daga eða svo, en ég tel, að það sé engin sáluhjálp. Ef það kæmi á daginn, að einhver sáluhjálp væri í stofnun samfélags þessara manna, væri ekki annað að gera en að kaupa jarðir í Húnavatnssýslu fyrir þá. Þetta er allt saman álitamál, og eins er það með till. landbn. Það er áhorfsmál, hvort ökuleyfisaldur skuli vera 17 eða 18 ár. Það er býsna vont að gera greinarmun þar á milli, og finnst mér, að fara mætti eftir atvinnunni. Þess vegna segi ég við hv. þm. A-Húnv., að þó að ég vilji ekki gerast talsmaður till., mun ég ekki setja mig á móti henni. En ég vil geta þess, að af hálfu bifreiðaeftirlitsins hefur komið fram till. um að taka upp strangara eftirlit með notkun landbúnaðarverkfæra, vegna þess að slys hafa hlotizt af þeim. Þeir vilja láta bifreiðalögin ná meir til þessara tækja en verið hefur, og hefur þetta verið tekið til athugunar.