09.01.1951
Neðri deild: 46. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

107. mál, bifreiðalög (viðurlög)

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það kom fram í upphafi ræðu hæstv. dómsmrh., eins og vænta mátti, að hann ber umhyggju fyrir því, að allir landsmenn hafi atvinnu. En mér virtist skorta, að hann gæfi skýringu á því, hvernig það mætti verða til tekjuöflunar fyrir einstaka menn, þó að sakamenn mynduðu með sér félag. Mig vantaði betri skýringu á því, hvernig það mætti verða, að aðrir menn gætu haft tekjur af þessu. Þetta yrði aðallega til hagræðis fyrir þá menn, sem dæmdir hafa verið í sektir, en ekki til tekjuöflunar fyrir þá. Að því er varðar þetta, sem í grg. stendur um breyt. á refsidómum, kemur engin tilvitnun í lög, sem gera ráð fyrir því, að framkvæmdavaldið ákveði sektir. Hins vegar talaði hæstv. ráðh. um gömlu regluna, sem hann hefur einnig fylgt, að beita náðunarheimild þannig, skildist mér, að breyta þyngri refsingu í aðra léttari, enda séu mörg fordæmi fyrir því, sem þarna hafi verið gert. Mér skilst, að framkvæmd á þessu sé þannig, að þarna sé um nokkurs konar verzlunarviðskipti að ræða, þó að ekki séu kaupfélagsstjórar við þá verzlun. Það virðist vera sagt við þessa menn: Ef þið viljið borga svo og svo mikið, þá skuluð þið fá náðun. — Og „prísinn“ er settur nokkuð mismunandi, eftir því hvað álitið er um efnahag viðkomandi manns. Ég lasta það ekki út af fyrir sig í þessu tilfelli, en þetta er nokkuð annar verzlunarmáti en er nú yfirleitt í landinu á öðrum sviðum, að ákveða verðlag eftir efnahag manna. En sem sagt, ég lasta þennan verðlagsmun ekki. Hins vegar vil ég halda fram, eins og áður, að það sé óeðlilegt að hafa í l. ákvæði um refsingar, sem ekki er hægt að beita þegar til kemur, þ.e.a.s., að nauðsynlegt sé að bæta þannig úr, að hægt sé að framkvæma fangelsisdóm. Og ekki einasta fyrir brot á bifreiðalögunum, heldur fyrir brot á öðrum l. Nú kom ekki fram hjá hæstv. ráðh., hvort þannig hefði verið að farið eingöngu þegar um er að ræða brot á bifreiðalögum, að náða gegn því að borga einhverja sektarupphæð. En mér finnst slíkt ætti þá einnig að koma til greina við önnur brot. Við skulum segja, að einhver væri dæmdur til fangavistar fyrir smávægilegt hnupl. Gæti ekki komið til greina að sleppa honum við fangelsisvist, ef hann borgaði eitthvað, eftir því sem um semdist, í staðinn, eins og þeir, sem aka bifreið undir áhrifum áfengis og valda tjóni á verðmætum og lífi eða limum manna. En út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta, að hann hefði þegar leitað fyrir sér um möguleika til að fá húsnæði til afnota fyrir fangelsi, þá er það gott. En mér skildist hann hafa aðallega falið mönnum að líta eftir slíku úti um land. Hann nefndi Húnavatnssýslu til dæmis. En nú er öllum kunnugt, að byggðin er mest hér í höfuðstaðnum og grenndinni. Finnst mér, að einnig mætti leita fyrir sér þar, sem landsbyggðin er þéttust, og væri þar meiri árangurs að vænta af slíkri leit.