02.11.1950
Efri deild: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

65. mál, ábúðarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Tímanlega í sumar sendi landbrh. Búnaðarfélaginu samþykkt, sem gerð var í N.-Ísafjarðarsýslu, og bað Búnaðarfél. Ísl. að athuga málið og ef það sæi ástæðu til að gera till. til breytinga og athuga, á hve miklum rökum till. sýslunefndar N.-Ísafjarðarsýslu væru reistar. Ég fór því og skrifaði öllum eða flestöllum hreppstjórum landsins og setti þar, hvaða jarðir voru í eyði, og bað þá um að leiðrétta það, ef rangt væri. Ég hef fengið svör frá þeim flestum og leiðrétta tölu eyðijarða, og jafnframt hafði ég beðið þá að segja orsakir til þess, að þær hefðu farið í eyði, og hvað hefði átt að gera til úrbóta. Nokkrir af þeim komu með aths., bæði um orsökina og það, hvað gera ætti til úrbóta. Á föstudag gerði ég svo útdrátt úr svörum þeirra og lagði það fyrir Búnaðarfélagsstjórn, og átti hún að senda sams konar útdrátt um ábúð á jörðum annars vegar til ráðherra og hins vegar til búnaðarþings, og láta bændur taka niðurstöðurnar til athugunar, og hvernig ætti að breyta ábúðarlögunum. Nú vildi ég gjarnan fá upplýsingar hjá hæstv. ráðh., hvort hann óskar eftir, að landbn. fari nú að kryfja þetta til mergjar og athuga, hvernig ætti að breyta ábúðarlögum í samræmi við þetta, eða hvort hann getur sætt sig við þá afgreiðslu, að breytingar á frv. verði látnar bíða, þangað til búnaðarþing verður búið að hafa það til athugunar. Ef þetta yrði ákveðið núna, mundi ég láta gera ráðstafanir strax í kvöld þess efnis, að Búnaðarfélagsstjórnin athugaði málið nánar. Ég sá, að tillögur hreppstjóranna voru ýmiss konar, og þyrfti því að kryfja þetta vel til mergjar.

Ég mundi samt fara í það að athuga þetta nánar en ég hef gert, ef þess er óskað í sambandi við þetta frv.