13.11.1950
Efri deild: 18. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

65. mál, ábúðarlög

Gísli Jónason:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hv. frsm. landbn. tók fram, að þetta frv. til ábúðarlaga felur ekki í sér neinar breyt. frá gildandi lagaákvæðum. En vegna þess að frv. til ábúðarl. er til umr., þá fyndist mér ekki óeðlilegt, að tekið væri nokkurt tillit til þeirrar reynslu, sem fengizt hefur af ábúðarl. eins og þau nú eru og gerðar væru þær efnislegu breyt. á frv., sem rétt þætti.

Ég vil í þessu sambandi benda á, að ég flutti hér á Alþ. árið 1943 frv. um breyt. á ábúðarl., sem er að finna á þskj. 27 frá 1993, þar sem farið var fram á það, að breytt yrði allverulega leigumála á þeim jörðum, þar sem greitt væri eftir jarðirnar með dún eða öðrum vörum, sem framleiddar eru á jörðunum og stórkostlega hafa hækkað í verði. Skal ég hér, með leyfi hæstv. forseta, lesa 1. gr. frv. þess, sem ég flutti 1943, um að aftan við 36. gr. l. kæmi ný málsgr., svo hljóðandi:

„Þegar jörð hefur verið byggð eða leigð með þeim skilmálum, að jarðarafgjaldið skal greiðast í hlunnindum, skulu þau reiknast til peninga með sama verði og þau voru reiknuð á árið 1939. Er landeiganda óheimilt að taka hærra afgjald af jörðinni en sem nemur þeirri upphæð, svo lengi sem það ástand ríkir hér í verðlagsmálum, að hömlur eru settar með lögum um verðlag eða að launþegar fá uppbætur á laun sín samkvæmt vísitölu. Þó má hækka þetta gjald, ef nauðsynlegt er, upp í 4% af samanlögðu fasteignamati jarðarinnar og þeirra húsa, er landeigandi á og lætur fylgja jörðinni.“

Þessu máli var vísað frá með rökst. dagskrá, sem er að finna á þskj. 371 frá 1943 og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem telja verður fullvíst, að frv. þetta, þótt að lögum yrði, næði eigi þeim tilgangi sínum að bæta kjör þeirra leiguliða, sem nú greiða jarðarafgjöld í hlunnindum, og þar sem breytingar á ábúðarlögunum þurfa vandaðan undirbúning, sem ekki er líklegt, að fáist á þessu þingi, telur deildin ekki ástæðu til frekari afgreiðslu frv. nú og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Síðan þetta skeði hafa ábúðarlögin verið endurskoðuð, m.a. 1945, og þó hefur ekki fengizt, að gerð væri á þeim þessi nauðsynlega breyt., sem ég tel, að þurfi að gera á l. Og ég vil beina því sumpart til hv. landbn. og hæstv. landbrh. og svo til hæstv. forseta d., hvort ekki væri rétt að fresta þessari umr. á þessu stigi og taka þetta mál til athugunar á ný. Ég tel, að reynslan hafi sýnt, að ekki svo fáar jarðir hafi farið í eyði beinlínis vegna þess að þessi breyt. hefur ekki fengizt á ábúðarl. Ég vil benda m.a. á, að á Breiðafirði hafa prýðilegustu jarðir farið í eyði beinlínis vegna þess, að engu hefur fengizt um þokað í sambandi við afgjaldið af jörðunum. Það er t.d. svo um Hergilsey og Bjarnareyjar. Og ég hygg, að víðar sé það svo á landinu, að hlunnindajarðir hafi farið í eyði vegna þess að afurðirnar hafi hækkað svo stórkostlega í verði, að ekki hafa verið tiltök að búa á jörðunum með óbreyttum ákvæðum um leigumála af þeim. Og eigendur hlunnindajarða hafa séð sér hag í því að láta jarðirnar vera í eyði og hirða það, sem hægt er af hlunnindunum, með tiltölulega auðveldum hætti. En þá fer svo um jarðirnar, að þær grotna niður, sem endar með því, að hvorki verða þar hlunnindi, svo sem dúntekja eða selveiði, né heldur gras.

Mér þætti einmitt eðlilegt, að þetta atriði væri tekið til athugunar nú á þessu stigi málsins. Vil ég því mælast til þess, að umr. um málið verði frestað og hv. landbn. taki málið til athugunar og athugaði það þskj., sem ég benti á og gerði grein fyrir.

Og ég bendi á, að eins og 3. gr. nú er í frv., þá mun hún tæplega hafa náð þeim tilgangi, sem ætlazt var til. Það var meiningin með ákvæðum 3. gr., þegar þau voru sett, að það væri hægt að knýja landeigendur til þess að byggja eyðijarðir, og ef þeir ekki fengjust til þess, þá að viðkomandi sveitarstjórnir tækju á sig röggsemi og byggðu jarðirnar sjálfar eftir fyrirmælum þessarar gr. Nú hefur reynslan sýnt, að ef svo er viðkomandi eyðijörð, að jarðeigandinn er í hreppsnefnd, og sérstaklega ef hann er oddviti, þá hefur þessum fyrirmælum 3. gr. ábúðarl. ekki verið hlýtt. (PZ: Samanber Vattarnes). Já, samanber Vattarnes og fleiri jarðir. Og ef eigandi eyðijarðar hefur ekki setið í hreppsnefnd, en hann á þar vini eða vandamenn, þá hefur þessum ákvæðum ekki heldur verið hlýtt. Og ég veit, að þetta hefur sums staðax skapað það ástand, að það hefur ekki verið til hagsbóta fyrir sveitirnar. Það er spursmál, hvort þessu eigi ekki að breyta þannig, að ef eigandi hefur ekki leigt eyðijörð eða afhent hana t.d. hreppsnefnd til þess, að fenginn yrði á hana ábúandi, þá ætti jörðin að falla til hreppsins endurgjaldslaust. — Mér er m.a. ákaflega vel kunnugt um það, að jörðin Vattarnes hefur nú legið í eyði og ónotuð upp undir tíu ár. Landssímastöð, sem þar er, hefur ekki verið starfrækt. Og fyrir það, að ekki hefur verið búið á þessari jörð, liggur við, að næsta jörð við hana fari í eyði. Og ef svo fer, er ekkert annað fyrir ríkissjóð að gera en að taka þessar jarðir og setja upp ríkisbú þar. Því að það verður að hafa þarna byggð vegna póstsamgangna. — Ég vildi því biðja hv. n. líka að athuga, hvort ekki væri rétt að gera einhverjar breyt. á 3. gr., til þess að tryggja, að slíkar jarðir séu ekki látnar vera í eyði árum og áratugum saman, þar sem vitað er, að fleiri en einn aðili og fjöldamargir aðilar hafa sótzt eftir að fá þessar jarðir til að búa á þeim, en hafa ekki getað fengið þær vegna mótþróa eigendanna.

Ég skal ekki á þessu stigi ræða þetta meira, en óska, að hæstv. forseti taki til athugunar, hvort ekki sé rétt að fresta umr. nú vegna þessara atriða, sem ég minntist á.