13.11.1950
Efri deild: 18. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

65. mál, ábúðarlög

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Eftir að hv. 1. þm. N–M. hefur lokið máli sínu, þarf ég raunar ekki mikið að segja. Eins og fram kemur í grg. fyrir frv., er frv. fyrst og fremst, og raunar eingöngu, flutt til þess, að hægt sé að fella breyt. á ábúðarl. inn í ábúðarl. sjálf, en það verk reyndist óframkvæmanlegt án þess, að flutt væri um það sérstakt lagafrv. Vitanlega koma ýmsar fleiri breyt. til greina, og þó að þessi tvö atriði séu nefnd til viðbótar, þá eru margar fleiri breyt., sem þarf að athuga, og því er bent á þetta í grg. frv., að það er vilji ráðuneytisins að vekja athygli á því, að þetta frv. er eingöngu til samræmingar á lagaákvæðum þeim, sem nú gilda. En ef fara ætti út í það að endurskoða l. í heild og taka þá endurskoðun upp í sambandi við þetta, þá er það efa undirorpið, að þetta frv. komist fram í vetur, því að mörg atriði í þessu sambandi eru mjög umdeild. En ef þetta frv. nær nú fram að ganga, þá hefur maður ábúðarl. samfelld, og síðan er hægt að byrja á þeirri miklu vinnu að endurskoða lögin í heild, en það má ekki tefja fyrir þessu frv., og að þeirri sömu niðurstöðu hefur n. komizt, og er ég henni þakklátur fyrir það. Það er svo hins vegar mín skoðun, að jarðir fari ekki fyrst og fremst í eyði af því, hvernig ábúðarl. eru, en ég fer ekki nánar inn á það, því að þá væri ég að brjóta mína eigin reglu um það, að þetta frv. eigi að afgreiða sem leiðréttingu og nokkurn veginn þegjandi og hljóðalaust, en taka síðan fyrir breytingar á ábúðarl. alveg sérstaklega.