24.11.1950
Neðri deild: 27. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

56. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Í lögum nr. 82/1936, um ríkisútgáfu námsbóka, er svo fyrir mælt, að ríkið annist útgáfu námsbóka og ríkisprentsmiðjan prenti þær. Vegna þess kostnaðar, sem af þessu leiðir, eru jafnframt ákvæði um að innheimta gjald af hverju heimili, þar sem nemandi er, og nemi það 7 kr. á hvert heimili, og hefur þetta verið þannig undanfarin ár, eða allt frá 1940.

Frv. þetta fjallar um það að hækka þetta gjald, svo að það nemi 15 kr. á heimili.

Rökin fyrir því eru, að útgáfukostnaður hefur hækkað svo mjög síðast liðin 10 ár, svo að óhjákvæmilegt er að vega á móti því með hækkun á námsbókagjaldinu. Menntmn. hefur rætt þetta og féllst á, að óhjákvæmilegt væri að taka tillit til hins aukna kostnaðar, og mælti með, að frv. yrði samþ. En jafnframt því, að lögin nr. 82/1936 feli í sér fyrirmæli um útgáfu námsbóka vegna barnaskólanna, fela þau einnig í sér heimild um, að það megi láta bækur í té til annarra skóla, svo sem héraðs- og gagnfræðaskóla. Ef til þessarar heimildar er gripið, má hækka gjaldið í 15 kr. Í þessu verður því ósamræmi nema heimildinni sé breytt samhliða. Menntmn. leggur því til, að brtt. sé felld í þetta frv., sem er á þá leið, að ráðh. megi hækka námsbókagjaldið í 20 kr. á hvert heimili, sem sendir nemendur bæði í barna- og gagnfræðaskóla. Brtt., sem fjallar um þetta atriði, er á þskj. 167.

Einn nefndarmanna vildi gera breytingu á öðru atriði og hefur lagt fram brtt. á sérstöku þskj., og mun hann gera grein fyrir þeim.