27.10.1950
Efri deild: 10. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

47. mál, loðdýrarækt

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég sé, að samkv. þessu frv. er hugsað að leggja niður starf loðdýraræktarráðunautsins og að þetta starf sé afhent Búnaðarfélagi Íslands, eins og hæstv. ráðh. hefur lýst. Frv. sjálft segir ekkert um það, hvort greiða skuli fyrir þetta til Búnaðarfél. Ísl. né hve mikið. Og í bréfi frá Búnaðarfélagi Íslands, sem prentað er hér sem fskj., segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnin getur samþykkt þessa ráðstöfun sem leið til sparnaðar, þó gengið sé út frá, að Búnaðarfélag Íslands fái nokkra þóknun fyrir þetta starf.“

Ég vildi heyra, hvort ráðh. hugsaði sér, að Búnaðarfélag Íslands tæki þóknun fyrir þetta og hvað mikla. Ef upphæðin yrði álíka mikil, sé ég ekki, að hún yrði til sparnaðar. Mér skilst, að það sé krafa frá Búnaðarfél. að fá þóknun fyrir þetta starf. Á fjárl. er gert ráð fyrir framlagi til loðdýraræktarfélags Íslands. Mundi þetta hafa áhrif á þetta framlag?