13.12.1950
Efri deild: 36. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

47. mál, loðdýrarækt

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv. felur í sér þá breyt. að leggja niður starf loðdýraræktarráðunauts og fela það Búnaðarfélagi Íslands, að svo miklu leyti sem þess er þörf, því að fátt er nú orðið um loðdýr í landinu. N. hefur gert brtt. við 1. gr., og er breyt. fólgin í því, að við tökum skýrt fram, að ráðh. eigi að vera æðsti aðili í þessum efnum, en ekki Búnaðarfélag Íslands, en ráðh. hefur haft æðsta vald í þessum málum hingað til, og er n. öll sammála um þessa brtt.

Hin brtt. n. er annars eðlis. Í frv. segir, að öll loðdýr skuli geymd í fulltryggum girðingum og búrum og minka megi aðeins ala í steinsteyptum búrum, og skuli það vera undir dómi Búnaðarfélags Íslands, hvenær minkageymslur séu nægilega góðar. N. hefur flutt við þetta brtt., sem er innifalin í því, að óheimilt sé að reisa ný minkabúr eftir að l. þessi koma til framkvæmda. Hins vegar er þeim, sem eiga löglega umbúin minkabúr, önnur en steinsteypt, þó heimilt að láta þau standa allt að þrem missirum eftir gildistöku l. Þetta þýðir það, að minkaeldi í öðrum búrum en steinsteyptum er algerlega bannað eftir gildistöku l., og er þar komið á móti óskum þeirra manna, sem ekki mega sjá minka nema villta. Það eru líklega veiðimenn, sem ekki þola að sjá minkana í búrum. Móti þeirra vilja er hér komið með þessari brtt. Ef minkarnir voru í steinsteyptum búrum, mátti eftir stjórnarfrv. ala þá þar endalaust. Í brtt. n. er gert ráð fyrir, að slíkt megi aðeins gera í 5 ár og þurfi eftir þann tíma að framlengja leyfið, eins og t.d. gert er, þegar skattfrelsi Eimskipafélags Íslands er framlengt frá ári til árs og fleira slíkt. Við nm. höldum, að þegar svona sé um hnútana búið og minkaeldið gert svo tímabundið, þá muni nást sættir í þessu máli við þá menn, sem ekki mega sjá minkana í búrum. Annars er óhætt að segja, að nm. voru hér ekki alls kostar sammála. Ég gekk inn á 5 ára ákvæðið, af því að það má framlengja, en ég tel það glapræði, ef banna á þá atvinnugrein með öllu, sem ber sig nú kannske bezt allra atvinnugreina.

Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar að svo stöddu, en n. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem við leggjum til, enda þótt nm. séu misjafnlega ánægðir með þann sáttabikar, sem hér er verið að reyna að bera á borð fyrir menn.