25.01.1951
Neðri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

47. mál, loðdýrarækt

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Mýr., að mál þetta hefur verið svo mikið rætt hér, að ekki er þörf frekari umræðna um það, en ég vil ræða skoðun minni hl. landbn. nokkuð. Ég vil einnig taka undir með hv. þm. í því, að málið er það ljóst, að menn ættu að geta gert sér grein fyrir því. En eins og frv. nú er, er það ekki eins og frv. þau, sem legið hafa fyrir undanförnum þingum, heldur fjallar þetta frv. um loðdýrarækt almennt og er því ekki minnzt á minka í stjfrv. eins og það var lagt fyrir Ed. En Ed. tók inn ákvæðin um minkaeldi til að frv. gæti fullnægt og yfirtekið frv. það, sem lá fyrir Nd. um minkaeldi. En ég tel, að stjfrv. hafi batnað nokkuð í meðförum Ed., þannig að bann er sett við minkaeldi eftir 5 ár, þannig að þeir, sem hafa dýrin nú í venjulegum vírgirðingum, megi hafa þau þar í 11/2 ár, en verði þá að flytja þau í steinhús, þar sem þeir mega hafa þau í 31/2 ár, en þá verða þeir að lóga þeim öllum. En Ed. hefur ekki skerpt ákvæðin um útrýmingu villiminka. Þegar stjfrv. kom hingað, þá klofnaði n. ekki um frv. sjálft eins og það lá fyrir, heldur hvort ákvæði þess skyldu skerpt hvað snerti tíma þann, sem leyfa skyldi minkaeldi, eða þau felld niður, eins og meiri hl. vildi. Ég þarf ekki að fjölyrða um till. minni hl., því að þær eru að mestu samhljóða þeim till., sem bornar hafa verið fram í þessu máli á undanförnum þingum, þ.e. að banna minkaeldi, en þó er breytt um tímatakmark og miðað við 1. jan. 1952, svo að breyting okkar hv. þm. Dal. frá stjfrv. er ekki mikil í þessu efni, þar sem þar var gert ráð fyrir, að ala mætti dýrin í 11/2 ár í venjulegri girðingu, en við miðum við 1 ár, en við teljum ófært að láta menn byggja steinhús yfir dýrin og skipa þeim síðan að lóga þeim eftir 31/2 ár, og teljum við því heppilegra að láta slátra þeim eftir árið. Svo er annað atriði, sem fram kom í n. og hæstv. ríkisstj. verður að athuga, en það er um bætur til eigenda aliminka. Í bréfi, sem landbrn. fékk frá loðdýraræktarráðunautnum, er gert ráð fyrir að verð minkabúanna muni nema um tveim millj. kr. Ég hef að vísu ekki sannanir fyrir því í höndunum, að þetta sé fullhátt áætlað, en ég hef fengið ýmsar upplýsingar, sem benda til þess að svo sé.

Vitanlega verður að gera ráð fyrir, að það verði að greiða tjónið skv. lögum um eignarnám. En til þess að létta þetta af ríkissjóði höfum við þm. Dal. borið fram brtt. á þskj. 523, og í b-lið þeirrar till. leggjum við til, að þeir menn, sem eiga minka nú og þurfa ekki að slátra þeim öllum fyrr en 1. jan. 1952, megi nota og ráðstafa gjaldeyrinum sjálfir, — ekki aðeins þeim, sem þeir fá fyrir skinnin, heldur líka þeim, sem þeir fá fyrir þau dýr, sem þeir geta selt úr landi, og falli þá skaðabótaskylda ríkisins niður að nokkru eða öllu leyti. Slagurinn um gjaldeyrinn, sem ríkisstj. hefur til ráðstöfunar, er svo mikill nú, að sýnt er, að það muni þykja mjög mikið hagsmunamál að fá þennan gjaldeyri til umráða. Og vil ég benda á, að slagurinn um gjaldeyrinn milli ríkisstj. og framleiðendanna er svo mikill, að framleiðendurnir hafa stöðvað gjaldeyrisframleiðsluna. Mikilsvert er því fyrir eigendurna að fá þennan gjaldeyri til afnota, og líkur eru til, að samningar geti tekizt milli þeirra og ríkisstj. um, að skaðabótagreiðslur féllu niður að miklu leyti, og gæti það minnkað útgjöld ríkissjóðs í þessu tilliti.

Þessi till. gengur í sömu átt og 6. liður till. landbn. á þskj. 524, þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er þeim mönnum, sem vinna að eyðingu villiminka, að ráðstafa að eigin vild þeim gjaldeyri, er fæst fyrir skinn þeirra dýra, sem þeir vinna.“ — Landbn. er sammála um, að til þess að skapa meiri árangur í útrýmingu villiminka beri að vekja almennari áhuga í þessum efnum, og það ætti að gera með því að gefa mönnum kost á að ráðstafa sjálfir gjaldeyrinum, sem fyrir skinnin fæst. Gæti þetta þá e.t.v. orðið sport margra manna, sem mundu þá taka þátt í því að útrýma villiminkunum.

Við hv. þm. Dal. álítum, að banna eigi minkaeldi hér á landi, og teljum, að ekki sé hægt að stemma stigu við útbreiðslu þessara dýra, meðan dýr eru alin í búrum. Þó að það sé rétt, að aðeins 1 minkur á móti 1000 sleppi úr búri, þá er það þessi eini, sem breiðir út afkvæmi sín, og allir þeir villiminkar, sem breiðzt hafa um landið, eru afkvæmi hinna tiltölulega fáu dýra, sem úr búrum hafa sloppið.

Ég tel svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta að sinni, vegna þess að málið hefur verið þaulrætt hér áður.