25.01.1951
Neðri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

47. mál, loðdýrarækt

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það má vel vera, að ekki sé ástæða til þess að tala langt mál um þetta, því að það er rétt, að þetta mál ætti að vera orðið nægilega þekkt. En það er þó sjáanlegt, að ekki hafa allir þingdeildarmenn kynnzt málinu svo vel enn, að þeir hafi áttað sig á því til fulls; og á ég þar aðeins við hv. meiri hl. landbn. Ég mun því fara nokkrum orðum um málið hér, en sérstaklega þó vegna þess, að mér sýnist hv. minni hl. landbn. ekki hafa aðgætt nægilega vel, hvernig ástatt er um málið í Ed.; en ég tel, að það skipti sérstaklega miklu um afgreiðslu málsins hér. — Nd. afgr. þetta mál til Ed. nærri einróma og með afdráttarlausri neitun á minkaeldi - 4 atkv. á móti —, en till., sem gengur í aðra átt, fengu lítinn byr.

Í því frv. voru gerðar enn meiri ráðstafanir til útrýmingar villiminkum en eru í gildandi lögum. Við hv. þm. Borgf. hefðum helzt kosið, að það hefði fengið afgreiðslu á þessu þingi. En hv. Ed. stöðvaði málið, vegna þess að fylgi við það var eitthvað stirðara í þeirri hv. deild en í þessari deild, þótt vissa sé fyrir því, að breyting hafi orðið á í Ed. hvað þetta mál snertir. Og er það ekkert óeðlilegt. Því að eftir því sem menn kynnast því betur, hver vágestur og skaðræðisgripur þetta rándýr er, þá er ekki undarlegt, að afstaða manna breytist gagnvart þessu máli hér á Alþingi. Og það gegnir furðu, að til skuli vera nokkrir bændaþingmenn, sem vilja minkaeldi, og það er enn furðulegra, er þess er gætt, að sumir þessara þingmanna eru frá héruðum, sem hlotið hafa miklar búsifjar af þessum dýrum, eins og t.d. hv. þm. Mýr., og ætla ég að nefna eitt dæmi um búsifjar í sveit þessa þm., en þar hefur einn bóndinn fengið 6000 kofur í einni eyjunni, en nú er þetta alveg horfið. Um veiðitjón í ám og vötnum ætla ég ekki að fjölyrða, en aðeins minna á eina sveit á Snæfellsnesi, þar sem menn hafa selt silung í stórum stíl og haft drjúgar tekjur af, en s.l. sumar var þar engin veiði. Og nú fjölgar þessum dýrum meir og meir og þau breiðast út um landið. Nú eru þau komin í Húnavatnssýslu, og þaðan er stutt í Skagafjörðinn. Héraðabönnin, sem sýslun. þar hefur sett á, hafa vafalaust lítið að segja, enda kemur það fram í áliti landbn. Hann er kominn til Eyjafjarðar og í Þingeyjarsýslurnar og vestur á Breiðafjörð. Og einnig er hann kominn norður á heiðar fyrir einu ári og mun fljótlega heilsa upp á varplöndin fyrir norðan og brátt leggja undir sig allt landið; og máske þarf að fara svo, til þess að öllum þingmönnum megi verða ljóst, hvílíkt skaðræðisdýr hann er.

Allir vita, hvernig komið er með alifuglaræktina, — hún hefur sums staðar lagzt niður, en annars staðar hefur dýrunum verið haldið í haldi, og eykur það mjög fóðurbætiskostnað. Býst ég við, að mönnum þyki það enginn hégómi í samanburði við sportið, sem menn hafa af því að drepa villiminkana og eltast við þá um allt.

Sem dæmi um það, hve ótryggt það er að geyma hænsnin í húsum, get ég minnzt á atburð, sem nýlega skeði austur í sveitum. Þar hafði villiminkur nagað sig gegnum ytri hurðina, en komizt inn um innri hurðina, vegna þess að hún reyndist hviklæst. Þarf auðvitað ekki að geta þess, að hann slátraði álitlegum hóp hænsna. Fer vel á því, að sveitaþingmenn gefi mönnum von um það, að þessu verði haldið áfram!!

Það kom fram hjá hv. frsm. meiri hl., að hægt væri með góðu eftirliti að koma í veg fyrir, að minkarnir slyppu út. En hann bætti við, að ekkert gerði til, þótt einn og einn slyppi út! Þarna kom það þá!! En á meðan menn eiga von á því, fæst enginn til þess að leggja á sig erfiði og fyrirhöfn við útrýmingu þessara villidýra, þar sem það mundi algerlega vera unnið fyrir gýg. En á meðan þessi ófögnuður er látinn viðgangast, liggur það ljóst fyrir, að landsnytjar munu ganga saman, fuglalíf eyðileggjast, æðarvarp ganga saman, veiði í ám og vötnum rýrna o.s.frv. Þessi atriði ollu því, að Ed. breytti sinni afstöðu.

Fyrir þessari deild lá frv. okkar þm. Borgf. um, að hert yrðu ákvæðin um útrýmingu minkanna, svo að það er eðlilegt, að hv. Ed. hefur búizt við, að frv. okkar þm. Borgf. kæmi ekki í lakari búningi til þeirra nú en í fyrra. Út frá þessu sjónarmiði mun það hafa unnizt á, að sett hafa verið ákvæði í frv. ríkisstj. þess efnis, að allt minkaeldi skuli bannað í landinu eftir 5 ár. Og lengra í þessu mun ekki hægt að komast, því að þetta mun orðið samkomulag í deildinni.

Hv. frsm. sagði, að n. hefði viljað bíða og sjá, hverri afgreiðslu málið sætti í Ed. En landbn. tók okkar frv. fyrir á öndverðu þingi, er það kom frá Ed., og þá brá svo við, að meiri hl. landbn. tók afstöðu gegn frv. Af því má sjá, hver afstaða meiri hl. til þessa máls er. Honum nægir ekki, að meiri hl. deildarinnar sé fylgjandi banni við minkaeldi, heldur vill hann eyða málinu og fella þau bannákvæði úr stjórnarfrv., sem Ed. hefur sett í það.

Það er engin trygging fyrir því, að minkarnir sleppi ekki út úr búrunum, þótt þau séu gerð úr steinsteypu. Því að svo er þetta dýr hyggið, að það þarf lítið út af að bregða, svo að það sjái sér ekki leik á borði og notfæri sér það. Og mér þótti vænt um, að frsm. meiri hl., sem er á móti banni við minkaeldi, lét það koma fram í sinni ræðu, að e.t.v. sleppi nú einn og einn út úr búrunum. En hann lét þess nú einnig getið, að það gerði svo sem ekkert til, vegna þess að fjöldi villiminka væri svo mikill! — En hér gengur landbn. ekki hreint til verks, vegna þess að það eru engin rök fyrir því, að það eigi ekki að banna minkaeldi, að búranna sé betur gætt nú. Og það er broslegt að hugsa til þess, að þetta skuli koma frá manni, sem hefur ástæðu til að kynna sér þetta mál betur. Þetta var líka alltaf sagt áður. En hvað hefur tíminn leitt í ljós? Á þó nokkuð mörgum stöðum hafa unnizt dýr, sem sloppið hafa út úr hinum betri búrum.

Mér þótti rétt að láta þetta koma fram, svo að Alþingi gæti gert sér grein fyrir, hversu þetta mál er vaxið, áður en það greiðir atkv. um málið. Þessi ummæli mín eiga við meiri hl. nefndarinnar.

En svo að ég víki nú að minni hl., þá vill hann taka undir ákvæði í okkar frv., þ.e.a.s. láta banna frekara minkaeldi og gera ráðstafanir til útrýmingar villiminkum. En minni hl. hefði ekki átt að binda bagga sína með meiri hl. Og mér finnst það kaldhæðni, að í nál. meiri hl. segir, að minni hl. sé sammála honum! Það er þá meiri hl., sem á að hafa forustuna! Og þá geta menn verið vissir í sinni sök, að það verði ofan á að halda minkastofninum við, til þess að menn geti þá haft það sér til augnayndis að horfa á og elta þessar skepnur um allt landið. Það má vel vera, að einhverjir hafi gaman af að elta þessi rándýr um allt upp á sport. En það munu bara ekki vera þeir, sem eiga að útrýma þessum dýrum, sem munu hafa ánægju af þessu sporti.

Ég hefði kosið, af því að okkur og minni hl. landbn. ber ekkert á milli, — og þakka ég þeim fyrir grundvallarafstöðu þeirra —, að þeir hefðu fylgt því frv., sem kom frá Ed., því að 4–5 ár eru ekki lengi að líða, og skárra er að ganga að þessu en hafa allt í óvissu um þetta mál. Og ég verð að segja hv. minni hl., að eftir því sem ástandið í málinu er núna, þá er bezt að samþ. það frv. óbreytt, því að stutt er til þingloka og lítil von til þess, að það nái fram að ganga, ef það byrjar að hrekjast á milli deilda.

Við þm. Borgf. sjáum okkur ekki fært að gera nú þann háskahlut að breyta frv., því að það yrði aðeins til þess, að málið dagaði uppi. En það er auðvitað áform meiri hl., að svo fari, — bæði segja þeir það í orðum og sýna það í verki. Hann hefur bæði tekið afstöðu gegn þeim ákvæðum, sem sett voru í frv. í Ed., og flutt brtt. til þess að taka þessi ákvæði í burtu, og er það af ásettu ráði gert, til þess að málið nái ekki fram að ganga. Mér er kunnugt um hug manna í þessum efnum, og þó að lagaákvæðin séu ekki ýtarleg, þá er víst, að menn munu gera allt sem þeir geta til þess að útrýma villiminkunum. Höfuðatriðið er að endir verði bundinn á, að dýrunum sé haldið við, m.a. með ráðstöfunum, sem útiloka að þau sleppi úr búrunum. — Hvað áhrærir skaðabæturnar má segja það um fyrrv. loðdýraræktarráðunaut, að hann lætur ekki sitt eftir liggja. Hann kemur hér fram með ágizkanir í þessum efnum, og er óvarlegt af honum að varpa slíku fram, sem hann er búinn að gera. Nú er stofninn um 4000 dýr, og ætla ég, að ekki sé hægt að segja, að af því verði mikill skaði, þótt þeim verði lógað, og þessir kumbaldar, sem dýrin eru í, geta ekki verið svo mikils virði, svo að áætlun hans um skaðabæturnar nær ekki nokkurri átt. Mér finnst, að hv. d. geti fallizt á frv. eins og hv. Ed. hefur gengið frá því. Ríkið kemur til með að greiða þær skaðabætur; sem endilega þarf að greiða, og hvorki meira né minna, og það verða dómkvaddir menn, sem verða látnir meta þetta, þegar þar að kemur, og þar sem dýrin eru ekki fleiri en þetta, hygg ég, að ekki geti orðið um svo mikil útlát að ræða fyrir ríkissjóð. Ég vil líka á það benda, að þessum fjármunum er ekki á glæ kastað, hér er þvert á móti um stórkostlegan sparnað að ræða, og gegnir furðu, að bændur skuli af þessum ástæðum vilja víkja frv. frá sér. Hversu mikils virði fyrir okkur er silungsveiðin í öllum ám landsins og dúntekja af æðarvarpi? Hafa menn gert sér ljóst, hversu mikil verðmæti minkurinn er þarna að eyðileggja? Og svo er verið að tala um, að minkurinn færi okkur gjaldeyri. Hvar er að finna skýrslur yfir slíkar gjaldeyristekjur? Hins vegar væri hægt að nefna álitlegar tölur í sambandi við silungsveiði og dúntekju. Annars er það sama og að tala við steininn að sýna hv. meiri hl. fram á okkar rök, en hins vegar nær það, sem ég hef nú verið að tala um, ekki til hv. minni hl.

Um brtt. ætla ég ekki að fjölyrða. Ég get lýst því yfir, að við hv. þm. Borgf. sjáum okkur ekki annað fært — og gengur okkur það eitt til af umhyggju fyrir málinu — en að fylgja frv. óbreyttu eins og það kemur frá hv. Ed. Við munum því greiða atkv. gegn öllum brtt. og viljum ekki gera neitt af okkar hálfu til þess að sú afgreiðsla, sem náðst hefur í Ed., verði eyðilögð. Ég vil og vænta þess, að hv. d. taki þann sama kostinn og greiði atkv. gegn öllum brtt., og þess vegna hefði ég líka viljað vænta þess af hv. minni hl., að hann fylgdi okkur nú í þessu, sérstaklega þegar búið er að upplýsa, hvernig ástatt er um afstöðu hv. Ed. til málsins. Afgreiðsla málsins þar er byggð á samkomulagi innan d., og lengra varð þar ekki komizt varðandi útrýmingu dýranna, en ef landbn. fær brtt. sínar samþ., þá er búið með afgreiðslu málsins á þessu þingi. Ég hygg, að hv. minni hl. n. hafi komið fram með sínar till. af því, að hann hafi gert sér vonir um, að hv. Ed. mundi vera þeim fylgjandi, en mér er kunnugt um, að engin von er til þess, sérstaklega þegar komið er að þinglokum og þegar það er enn fremur haft í huga, að hv. Ed. vissi um frv. okkar hv. þm. Borgf., sem við bárum fram um eyðingu minka snemma á þessu þingi, og þess hefði mátt vænta, að málið hefði verið afgr. frá Ed. í þeim búningi, sem er á okkar frv., væri hún samþykk málinu í þeirri mynd. Það er því fyrirsjáanlegt, að aðra eða betri afgreiðslu verður ekki hægt að fá á málinu í hv. Ed. en er í frv. óbreyttu.