25.01.1951
Neðri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

47. mál, loðdýrarækt

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa þetta mörg orð, því að hv. 1. þm. Árn. hefur gert svo glögga grein fyrir afstöðu okkar, sem snemma á þessu þ. fluttum frv. um breyt. á l. um loðdýrarækt og um útrýmingu villiminksins. Þetta frv., sem féll í þann góða jarðveg að vera vísað til hv. landbn. d., er nú búið að liggja þar hátt á 3. mánuð og fær svo að lokum þá afgreiðslu hjá n., að það er notað sem meðal til þess að eyðileggja ákvæðin í því frv., sem hér liggur fyrir frá hv. Ed., sem ganga í sömu átt og eru í frv. okkar. Hv. þm. Mýr. (BÁ), frsm. meiri hl. n., ætlast kannske til þess, að við hv. fyrri þm. Árn. föllum á kné fyrir honum og n., fullir auðmjúks þakklætis fyrir slíka fyrirgreiðslu á þessu máli. Nei, svo djúpt erum við ekki fallnir, að við viljum þannig falla í duftið fyrir þá, sem gera tilraun til að koma góðu máli fyrir kattarnef.

Hv. fyrri þm. Árn. hefur gert því full skil, hvernig þetta mál liggur hér fyrir, og það er einungis sú hliðin, sem ég vil fara nokkrum orðum um. Hitt er sýnilegt, að því er snertir hv. þm. Mýr., að það er engan veginn þess vert að eyða kröftum í það að ætla sér að færa honum heim sanninn um, hvaða leiðir verður fyrst og fremst að fara til þess að vinna bug á minkaplágunni, sem sé að það verður að taka fyrir allt minkaeldi í búrum. Hann þverskallast við rökum okkar jafnt þótt hann viðurkenni í öðru orðinu, að ekki sé hægt að ganga svo örugglega frá búrunum, að það geti ekki komið fyrir, að minkur sleppi úr búri. Almenningur hefur einmitt af þessari ástæðu ekki gert gangskör að því að nota þau tæki, sem til eru til útrýmingar á villiminki, þar sem menn vita, að þeir eru að vinna fyrir gýg, meðan verið er að halda lífinu í þessum kvikindum í búrunum. Þetta er stærsti þátturinn í þessu máli, og það er alveg sama, hvernig þetta er útlistað fyrir hv. þm., þá þrjózkast hann stöðugt við að fallast á þetta, þótt hann í öðru orðinu viðurkenni, að ekki sé hægt að hafa svo öruggan útbúnað á búrunum, að dýrin geti ekki sloppið út.

Eins og hv. fyrri þm. Árn. tók fram, samþ. þessi hv. d. á síðasta þingi ákvæði um að banna minkaeldi, en málið náði þá ekki fram að ganga, var stöðvað í hv. Ed., sem vildi ekki fallast á ákvæðin um bann við minkaeldi. Nú bar svo við, að hæstv. ríkisstj. leggur fram á þessu þingi í hv. Ed. frv. um breyt. á l. um loðdýrarækt, en aðaltilgangur þess var að leggja niður embætti loðdýraræktarráðunauts. Þó voru tekin inn í grg. ákvæði um að torvelda minkaeldi í búrum. Var frv. þetta í Ed. borið fram um svipað leyti og okkar frv. í Nd., og vissum við ekkert um frv. í Ed. Hún hefur nú gengið þannig frá málinu, að þar eru að vísu ekki ákvæði um, að minkaeldi skuli bannað strax eða frá næstu áramótum, heldur skuli minkaeldi enn leyft um nokkur ár, en að því árabili liðnu skuli það vera bannað. Þess vegna er það augljóst, að ekki er hægt að komast lengra hvað snertir slíkt bann hjá hv. Ed. heldur en felst í þessu frv., og af þessu leiðir það nú, að við hljótum að gerast stuðningsmenn að frv. Ed. og hvetjum aðra til að standa með okkur til þess að fá það samþ. óbreytt, því að ef það verður að l. eftir 3. umr. þess, teljum við, að mikið hafi á unnizt eftir þeim atvikum, sem eru til málsins á Alþ. Þess vegna heitum við á stuðning hv. Nd., sem áður hefur veitt okkur mikið lið í þessu máli, með því að samþ. frv., en til þess að svo geti orðið, verðum við fyrst og fremst að stuðla að því sjálfir, að þær till., sem við höfum áður flutt, verði felldar, og biðjum aðra, sem svipaða afstöðu hafa, að ljá því lið. Ég heiti því á hv. þm. að standa að því, að þessi till. verði samþ. Það er það næstbezta í málinu, næst frv. okkar hv. 1. þm. Árn., og eins og málum nú er komið, er það bezta lausnin, sem völ er á, því það er rétt, að í frv. eru ákvæði, sem gætu stuðlað að útrýmingu minkanna.

Hv. þm. Mýr. var eitthvað að fara á fjörurnar um það í sinni ræðu, að við hv. 1. þm. Árn. hefðum farið í gegnum sjálfa okkur og snúizt gegn okkar fyrra sjónarmiði og með hans með því að fylgja þessu frv. og falla frá frv. okkar um að banna minkaeldi í landinu. Við leggjum jöfnum höndum áherzlu á þetta hvort tveggja. Og í því sambandi vildi ég spyrja: Hvaðan eru þær till. runnar, sem herða á eftirliti með minkaeldi í landinu? Eru þær runnar frá hv. þm. Mýr.? Nei, þær eru ekki runnar frá honum, en óhætt er að segja hv. þm. það til hróss, að hann hefur ekki staðið í gegn þeim, en hann hefur hins vegar verið þröskuldur í vegi fyrir því, að minkaeldi væri bannað í landinu. Meðan svo stendur, að stöðugt er hætta á, að minkar sleppi úr búrum, er ekki hægt að ráðast á villiminkinn, svo að til úrslita geti dregið. Ég þekki vel til þessarar útrýmingar, því að ég hef búið við þessa plágu um fjölda ára, bæði í varplandi og við aðrar kringumstæður, og ég er sannfærður um, að ef hægt er að nema í burtu þennan ótta í mönnum við að minkar sleppi úr búrum, þá er hægt að ná mikilsverðum árangri í þessari baráttu. Menn hafa fundið ýmis ráð til þessarar útrýmingar. Menn hafa alið upp töluvert af hundum, sem drepa mink, náð tækni í eitrun og leggja gildrur fyrir þá og margs konar önnur ráð til þess að ráða bót á þessum ófögnuði. Það er fyrst og fremst hættan á því, að minkar sleppi úr búrum, sem stendur í vegi fyrir því, að ráðizt verði til úrslita gegn þessari meinvætti.

Það er merkilegt, hve mörgum greindum mönnum, eins og hv. þm. Mýr. er og unnandi landbúnaði og þeim gæðum, sem landbúnaðurinn hefur upp á að bjóða, svo sem dúntekju, fuglalífi, lax- og silungsveiði, — það er undarlegt, að þeim skuli geta sézt svo hatramlega yfir um það, að þetta sé annað aðalatriðið til þess að hægt sé að vinna bug á þessum vágesti. Ég held, að Íslendingar telji sig fátækari eftir, þegar búið er að vinna bug á fuglalífi, silungi og laxi, auk þess sem vitað er, að til eru byggðarlög, sem beinlínis eiga tilveru sína undir því, að hægt sé að forða þeim frá og vinna bug á þessari plágu.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta mál, en það er leiðinlegt, hve fáir eru viðstaddir í hv. deild, þegar þetta er rætt, því að það er um mikilsvert atriði að ræða, að hægt verði að bjarga því, sem bjargað verður í þessum efnum, þ.e.a.s. að frv. frá hv. Ed. nái fram að ganga, því að þar er lagður grundvöllurinn að útrýmingu minkanna. Það er ekki aðalatriðið, að útrýmingin fari fram strax, heldur hitt, að grundvöllurinn verði lagður að því, að útrýmingin fari fram á næstu árum.

Hv. 1. þm. Árn. hefur gagnrýnt réttilega fullyrðingar þær, sem felast í bréfi frá loðdýraræktarráðunautnum sáluga. Ég tala um hann sem slíkan, en ekki sem mann, því að ég vona honum endist líf og heilsa enn um langan aldur til þess að vinna landi sínu gagn, en úr þessari stöðu sakna ég hans hins vegar ekki. Fullyrðingar hans í þessu bréfi ná ekki nokkurri átt, og það hlýtur því að vera sent í illum tilgangi. Annað getur ekki legið til grundvallar svo fjarstæðukenndra fullyrðinga.

Meiri hl. hv. landbn. flytur brtt., sem miðar að því að fella niður þau ákvæði, sem ég hef nú minnzt á og miða að því að banna eldi minka. Miðað er við það, að minkaeldi haldist, en hv. þm. Mýr. túlkaði afstöðu meiri hl. þannig, að hann vilji stuðla að því, að sem bezt yrði séð fyrir búrum. Ég vil í þessu sambandi benda á, að ekki er öruggt, að minkar sleppi ekki úr búrum, jafnvel þótt steypt séu í hólf og gólf. Ef t.d. tréhurð er fyrir búrunum, þá er það ekki langrar stundar verk fyrir minkinn að grafa gat á hana. Ég frétti um atburð austur í Árnessýslu fyrir tveimur dögum. Bóndi hafði þar minka, og var tréhurð fyrir búrunum. Einn morgun, þegar að var komið, var komið gat á hurðina og minkurinn hafði drepið 20–30 hænsni.

Þó að það verði að viðurkenna, að ekki verði lengra komizt en að hafa búrin steypt í hólf og gólf, þá er það samt engan veginn öruggt. Hv. meiri hl. leggur til að gera þetta ákvæði að engu með því að veita mönnum heimild til þess að geyma dýr í búrum, sem Búnaðarfélag Íslands hefur samþykkt. Búnaðarfélag Íslands hefur haft þetta eftirlit, sem hefur verið falið ýmsum mönnum, og reynslan samt orðið sú, að minkar hafa alltaf smogið úr búrum, en nú er lagt til, að haldið verði áfram eldi þeirra í þessum búrum. Það er ekki hætt við, að menn fari að leggja út í kostnað við að byggja rammlegri búr, þegar heimild er fyrir hendi til þess að nota gömlu búrin. Mér finnst, að í þessu felist öryggisleysi og það verði að taka öllum fullyrðingum þessara manna með mestu varúð. Það er hægt að sigla fram hjá þessu, ef hv. deild vill verða við tilmælum okkar hv. 1. þm. Árn. og samþ. frv. óbreytt eins og það kom frá Ed. Ég vildi mega vænta þess, að þeir hv. þm., sem hingað til hafa verið andvígir minkaeldi, standi með okkur nú um þessa einu mögulegu lausn í málinu, að fella allar brtt. við það og afgreiða það nú strax eftir helgina sem lög frá Alþingi.

Ég vil aðeins drepa á eitt atriði í ræðu hv. þm. Mýr., þar sem hann bar loðdýraræktarráðunautinn fyrir því, að ekkert hafi fundizt af minkum af hinum nýrri stofni meðal þeirra villiminka, sem veiðzt hafa. Ég hef haft tal af manni, sem mikið hefur unnið að útrýmingu minka og þekkir vel muninn á þessum tveim stofnum, og hann fullyrti, að hann hefði orðið var við dýr af nýrri stofninum meðal villiminkanna, og þetta sýnir vitanlega ekkert annað en það, að minkarnir halda áfram að sleppa úr búrunum, enda sagði sá vísi maður, Guðmundur Bárðarson náttúrufræðingur, að aldrei væri hægt að búa svo um minkana, að öruggt væri að þeir slyppu ekki úr haldi. Þessi aðvörun er líka alltaf að rætast, og hún mun halda áfram að rætast svo lengi sem minkaeldi er leyft í landinu, hvaða viðleitni sem er sýnd til þess að halda í hemilinn á þessum dýrum. Þegar þess er gætt, hversu gersamlega þýðingarlaust minkaeldi er fyrir afkomu þjóðarinnar og hins vegar hver verðmæti eru í voða af þessum vágesti, þá er það undarlegt, að til skuli vera andstaða gegn því, að gerð verði alvarleg tilraun til þess að ráða niðurlögum þessarar plágu.