25.01.1951
Neðri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

47. mál, loðdýrarækt

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Snæf. fyrir afstöðu hans í þessu máli, því að hún er nú önnur en hann hafði til þessa máls fyrir ári síðan. Svo lítið var þá ekki að græða á minkaeldi í landinu. — Ég ætla aðeins að minnast á þrjú atriði í þessu máli.

Í fyrsta lagi að í brtt. frá hv. 5. landsk. og mér er gert ráð fyrir að banna minkaeldi algerlega í landinu frá ársbyrjun 1952, eða nákvæmlega það sama og stóð í frv. þeirra hv. þm. Borgf. og hv. l. þm. Árn. Ég hefði ekki trúað því, að þeir breyttu þessari afstöðu sinni og samþykktu, að minkarnir skríði út næstu 5 árin.

Í öðru lagi viðvíkjandi því, hvort við viljum ekki taka brtt. okkar til baka, þá vil ég taka það fram, að við munum ekki gera það, en falli hins vegar brtt. okkar, þá munum við fylgja frv. því, sem hér liggur fyrir, þó að við efumst um, að það sé lögfræðilega rétt, þar sem gert er ráð fyrir eignarnámi án endurgjalds.

Ég kem svo að lokum að 3. atriðinu, en það er afstaða hv. meiri hl. landbn. um það að banna ekki minkaeldi. Ég þarf ekki að fjölyrða um það tjón, sem minkarnir valda landsmönnum. Aðalástæðan til þess að banna ekki minkaeldi virðist vera sú, að það sé svo dýrt að greiða bætur fyrir dýrin. Það má vel vera, að það sé mjög dýrt, en ég hygg, að það séu ekki minni verðmæti, sem fara í þessi dýr árlega hjá einstökum landsmönnum, og ég vil benda á, að einmitt sá tekjumissir hjá þessum mönnum verður einnig tekjumissir fyrir það opinbera, og það verður álitamál, áður en mörg ár liða, hvort ekki mundi margborga sig að leggja nokkra fjárhæð í það að drepa aliminkana fyrst og fremst og hefja svo skelegga baráttu fyrir eyðileggingu villiminkanna eins og auðið er.

Ég vil endurtaka ósk mína um, að till. okkar hv. 5. landsk. verði samþ., en fari svo, að það verði ekki, mun ég fylgja frv. eins og það kom frá hv. Ed.