25.01.1951
Neðri deild: 55. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

47. mál, loðdýrarækt

Pétur Ottesen:

Ég vil mjög taka undir með hv. þm. Dal. (ÁB), að það er mjög gleðileg sú hugarfarsbreyting, sem orðið hefur hjá hv. þm. Snæf. (SÁ) til frv. okkar hv. 1. þm. Árn. um bann gegn minkaeldi. Sama frv. lá fyrir síðasta þingi, og þá barðist þessi þm. á móti því með oddi og eggju, sá ekki ljósan blett í því, en nú hefur hann lýst því yfir, að ef frv. lægi hér fyrir, — sem það raunar gerir, — þá mundi hann greiða því atkvæði. Þetta er geysileg afstöðubreyting, enda mun hv. þm. hafa fengið þá lexíu heima í sínu héraði, sem hafi bent honum á rétta leið, en hann hefur þá líka verið maður til þess að taka sönsum. En hv. þm. taldi öll tormerki á því að framfylgja frv. eða ljá frv. Ed. atkvæði sitt og að því er mér skildist vegna þess, að það mundi ekki vera gengið nógu skelegglega til verks í þessu, þar sem málið yrði fyrst endanlega leyst að fimm árum liðnum. Bæði þessum hv. þm. og öðrum hlýtur að vera það ljóst, að við hv. 1. þm. Árn. hefðum allan tímann, sem við höfum verið að berjast fyrir þessu máli á Alþ., auðvitað helzt kosið að knýja þetta mál í gegn á sem allra skemmstum tíma, og það er enginn vafi á því, að ef Alþ. yrði einhvern tíma gagnrýnt fyrir að hafa samþ. slíkt frv., mundi sú gagnrýni eingöngu snúa að því, hvað það hefði lengi dregizt fyrir Alþ. að taka ákvarðanir um, að minkaeldi skyldi bannað. Hitt skilja svo allir menn, að þegar ekki er hægt að koma því bezta fram, þá er eðlilegt, að menn taki það næstbezta, og það er það, sem fyrir liggur hér og það eina, sem fyrir liggur í þá átt að fá afgreiðslu á þessu þingi, eins og hv. 1. þm. Árn. gerði mjög rækilega grein fyrir í ræðu sinni áðan. Ef þess vegna hv. þm. vill vera trúr þeirri stefnu, sem hann nú hefur tekið og áreiðanlega fellur mjög vel saman við skoðanir manna heima í hans héraði, á hann nú að styðja þann málstað á þinginu, sem getur fleytt þessu máli áleiðis, þ.e. styðja þær till., sem eru beztar í þessum efnum. Hann þarf ekki að óttast, að það verði nein stefnubreyting í þessu að 5 árum liðnum, og þess vegna getur hann með beztu samvizku greitt atkv. með þessu frv. og staðið á móti þeim tálsnörum, sem hér eru lagðar á leið þess. – Þetta vildi ég mjög benda hv. þm. á.

Hv. þm. Snæf. sagði, að leyfður hefði verið innflutningur á minkum, en ég man ekki eftir slíku. Það var fyrir nokkrum árum, að nokkrir minkaeigendur sóttu um það til fjvn. að fá innflutningsleyfi fyrir minkum, en því var ákveðið synjað.

Við flm. viljum, þegar við getum ekki komið fram okkar frv., sem við auðvitað teljum það bezta í þessum efnum, — þegar það tekst ekki, tökum við að sjálfsögðu sem sannir og raunhæfir menn í þessu máli þann kost að styðja annað, sem næst gengur því, sem okkar till. lúta að, og við heitum á stuðning hv. d. og þar á meðal hv. þm. Snæf. að styðja einmitt þær till., sem helzt geta orðið tilgangi okkar til framdráttar.

Það er náttúrlega rétt hjá hv. þm. Snæf., að þeir minkar, sem eru geymdir í girðingum, gera engan skaða, en það eru minkarnir, sem sleppa úr girðingum, sem hafa gert og gera skaða, — þetta mikla tjón, sem á rætur sínar að rekja til þess, að minkar hafa sloppið úr girðingum og tímgazt ört. Og þá vofir þessi hætta alltaf yfir, og reynslan hefur sýnt og það greinilega, að það er ekki hægt frekar hér en annars staðar að búa þannig um búrin, að ekki vofi alltaf sú hætta yfir mönnum, að dýrin sleppi. Þess vegna er það, að þeir, sem hér vilja stemma á að ósi, ganga hreint til verks og beíta sér fyrir því, að minkaeldi verið bannað með öllu og styðja að því með hugsanlegum ráðum, að gengið verði að útrýmingunni með fullum krafti, og það verður áreiðanlega gert, þegar búið er að kippa úr vegi þeim þröskuldum, sem eru á þeirri leið.

Þó að fáir hafi verið við þessar umr. hér, ber ég þó það traust til manna, þó að þeir hafi ekki hlýtt á rök með og móti þessu máli hér, að þeir sjái, hvað eru aðalatriði þessa máls, og velji þau að leiðarstjörnu fyrir sig, en hengi sig ekki í aukaatriði eða lendi í þeim snörum, sem nú er verið að leggja með ýmsum brtt. fyrir þetta mál.