24.01.1951
Sameinað þing: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

80. mál, fjáraukalög 1947

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað frv. það til fjáraukalaga, er hér liggur frammi, og leggur til, að það verði samþ. með beim breytingum, sem prentaðar eru á þskj. 532. Ég get þess fyrst, að það hafa orðið smámistök í prentun brtt., þannig að í f-lið átti talan, sem stendur í talnadálkinum aftast, ekki að koma þar, heldur fylgja meginmálinu og koma strax á eftir: „tekjur urðu“.

Þetta frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1947 er æði síðbúið, eins og oft áður hefur verið með slík lög, og hefur fjvn. áður bent á, hve það er óviðkunnanlegt, að fjáraukalög hvers árs liggja ekki fyrir Alþingi, fyrr en 3–4 árum eftir að þau ættu að geta verið tilbúin. Það má segja, að það hefði verið hæfilegt, að nú lægju fyrir þinginu fjáraukalög fyrir árið 1949, en ekki fyrir árið 1947, eins og raunin er. Ég tel ekki ástæðu til að fara langt út í þetta atriði, því að það mun sennilega verða rætt betur síðar, og það skal viðurkennt, að nú mun vera á leiðinni nokkur leiðrétting á þessu, því að nú er búið að útbýta frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1948, og má ætla, að ekki liði mörg ár, þar til þetta mál er komið í viðunandi horf.

Ef litið er á þetta frv., þá vekur það nokkra athygli, hve fjáraukalögin fyrir þetta ár eru há, og ef þau eru borin saman við fjárlög sama árs, þá kemur í ljós, að þau hafa farið prósentvís mjög mikið fram úr áætlun. Þetta er því miður orðin nokkuð föst venja, að greiðslur fara allmikið fram úr áætlun fjárlaganna. Þær greinar, sem hafa farið mest fram úr áætlun, eru 20. gr., sem hefur orðið á ríkisreikningum um 72,5 millj. króna, í stað 17,5 á fjárlögunum, og aukningin því 55 millj.

Næst kemur 19. gr. 1, og mun hafa verið sem endranær mjög erfitt 1947 að áætla hana nær hófi, enda hefur hún farið þá um 35 millj. fram úr áætlun. Aðra liði tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða um, þó að ýmsir liðirnir í frv. séu athyglisverðir, m.a. 9. liður 2. gr., sem sýnir, að rekstrarhalli skipasmiðju landssmiðjunnar hefur verið um 2 millj. kr., en tekjur hennar um 48 þúsundir. Mun þar verið að mæta mistökum liðinna ára, en verður til að hækka fjáraukalögin verulega. Einnig má benda á, að ríkisbúin valda töluverðri hækkun, en þau eru tekin upp á þessum fjáraukalögum, án þess þó að þau hafi verið tekin inn á fjárlög tilheyrandi árs. Ég hefði ímyndað mér, að ríkisstj. væri það nokkuð metnaðarmál á hverjum tíma að hafa ekki fjáraukalögin hærri en nauðsyn krefði, og því virðist mér það hefði verið æskilegt að taka þau inn á fjárlögin, en hafa þau ekki utan þeirra, eins og nú er. Það mætti ef til vill segja, að fjvn. geti á hverjum tíma gert kröfu til þess, að þau séu tekin inn á fjárlögin, ef hún telur það æskilegt, en ég verð að ætla, að það sé fremur í verkahring fjmrh. að ákveða slíkt, þar sem um rekstur ríkisbúanna er að ræða.

Um þetta frv. út af fyrir sig vil ég segja það, að mér finnst það furðulega flausturslega samið og frágangurinn slæmur af hálfu fjármálaráðuneytisins. Ég á þar við, að það er hvimleitt, að það skuli þurfa að vera verkefni nefndar á Alþingi að gera á því tölulegar leiðréttingar, því að eins og sést á þskj. 532, eru þær furðu margar. Slíkt ætti auðvitað ekki að koma fyrir. Þær leiðréttingar, sem nefndin þurfti að gera, eru á þskj. 532,a, b, d, e og f liður, en það víkur aftur á móti öðruvísi við með c-lið, og má segja, að þar sé um principielt atriði að ræða, varðandi viðtækjaverzlun og viðgerðarstofu ríkisútvarpsins. Ráðuneytið mun líta svo á, að þar sem þessi fyrirtæki hafa skilað arði, þá sé það nóg, og hefur það sett nettóútkomuna af reikningum þeirra yfir á reikning ríkisútvarpsins. En fjvn. hefur ekki getað fallizt á þetta og hefur því leyft sér að bera fram 2 brtt. um umframgreiðslur til þessara stofnana. Afleiðingin af þessu er sú breyting, sem kölluð er b á þskj. 532, og er það eini liðurinn í brtt., þar sem um lækkun er að ræða, og er það í sambandi við það, að ráðuneytið tók hærri rekstrarhalla inn á ríkisútvarpið en fjvn. telur nauðsynlegt. Viðtækjasmiðjan er í fjárlögum fyrir árið 1947, og þar sem rekstrarkostnaður hefur ekki farið fram úr áætlun, þá á rekstrarhallinn ekki skylt við aðalútkomuna, og þarf því ekki að leita sérstakra heimilda fyrir þá greiðslu.

Ég vildi svo að lokum víkja lítils háttar að því formi, sem fjáraukalögin hafa verið í undanfarin ár. Ég ætla, að tilgangur þeirra sé sá að leita heimildar Alþingis fyrir allar umframgreiðslur, sem hafa verið viðhafðar á viðkomandi ári, og til skamms tíma mun sú aðferð hafa verið viðhöfð að leita heimildar fyrir hvern þann lið, sem farið hefur fram úr áætlun. En nú um nokkurt skeið hefur verið breytt til að tilhlutun fjmrn., þannig að það hefur leitað heimildar fyrir hverja grein fjárlfrv., sem farið hefur fram úr áætlun. Um ríkisstofnanirnar hefur þó verið viðhafður sami háttur og áður í aðalatriðunum, að leitað hefur verið leyfis fyrir hverja umframgreiðslu. Þetta virðist máske í fljótu bragði eðlilegur háttur, þar sem hver niðurstöðugrein getur gefið tilefni til umræðna, en þegar betur er að gætt, kemur í ljós, að það er raunar ótækt, ef ríkisstj. þarf ekki að leita leyfis á sínum tíma fyrir hvern lið, sem fer fram úr áætlun. Ef tekið er dæmi, þá mætti hugsa sér, að einn liðurinn hefði farið 100 þús. kr. fram úr áætlun og aðrir um önnur 100 þús., eða samtals um 200 þús. kr. umframgreiðslur, en um leið hafi tekizt að spara í einstökum lið um 100 þús., svo að heildarútkoman hefði ekki orðið nema 100 þús. kr. fram úr áætlun. Ef þessi aðferð væri viðhöfð, þá þyrfti ríkisstj. ekki að fá heimild fyrir hverri umframgreiðslu, heldur aðeins niðurstöðugreinunum. Nú væri hægt að hugsa sér, að nýir liðir yrðu teknir upp innan ákveðinnar greinar og háar upphæðir greiddar út án þess að heimild væri til þess í fjárl. En ef ríkisstj. tekst að spara svo í heild, að greinin fari ekki fram úr áætlun, þá verður niðurstaðan sú, að ríkisstj. þarf ekki að leita heimildar hjá Alþingi, þótt hún leggi út í kostnað, sem ekki er gert ráð fyrir í fjárl. Væri þá látið nægja að fá samþykki Alþingis á útkomu greinarinnar í heild.

Ég tel því, að ástæða væri til að óska þess, að fjmrn. og hv. yfirskoðunarmenn hér á Alþingi fái því áorkað, að sá háttur á þessum málum verði ekki hafður á framvegis sem hingað til. Það mætti máske spyrja, hví fjvn. hefði ekki gert formlega athugasemd við þetta mál nú, en það liggur í því, að þá þyrfti að gerbreyta fjáraukalögunum og að hún telur æskilegra að gera raunhæfar breytingar og koma reglu á þetta mál í framtíðinni.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að hafa þessi orð fleiri, en eins og ég gat um í upphafi, þá leggur nefndin til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem prentaðar eru á þskj. 532.