16.11.1950
Efri deild: 20. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

58. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég gat þess, er frv. var afgr. í n., að ég vildi hafa óbundnar hendur með að leggja fram brtt. við það. Ég hef þó ekki gert það, vegna þess að ég varð var við, að skipulagsstjóri hefði hug á að koma fram með breytingu. Veit ég til þess, að hann hafi nú gert það, og býst ég við, að n. athugi þær einhvern daginn, en frsm. lét þess ekki getið.

Ég er samþykkur frv. svo langt sem það nær. En gjaldið leggst aðeins á nýbyggð hús og með sívaxandi þunga fyrir þá, sem byggja, og í annan stað er þetta ótryggur tekjustofn. Þetta hygg ég, að skipulagsstjóra sé ljóst, og því vill hann fá breytingar á frv.

Ég mælist til, að það verði athugað að nýju í n. í samráði við skipulagsstjóra, og áskil ég mér rétt til þess að flytja brtt. við frv. við 3. umr.