08.11.1950
Sameinað þing: 12. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

Varamaður tekur þingsæti, rannsókn kjörbréfa

Forseti (JPálm) :

Mér hefur borizt í hendur svo hljóðandi bréf frá forseta Ed.:

„Þorsteinn Þorsteinsson, 11. landsk. þm., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Að ráði dr. Halldórs Hansens yfirlæknis mun ég á morgun leggjast í sjúkrahús hér í bænum og dveljast þar 3–4 vikur til hvíldar og athugunar. Óska ég, með skírskotun til 144. gr. l. nr. 80 1942, um kosningar til Alþingis, að varamaður, Ingólfur Flygenring í Hafnarfirði, taki sæti mitt á Alþingi í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að kjörbréf þessa varaþingmanns verði tekið til rannsóknar á væntanlegum fundi sameinaðs Alþingis á morgun.“

Tekur nú frsm. hv. kjörbréfanefndar til máls.