04.12.1950
Neðri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

49. mál, sveitarstjórar

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta mál til athugunar, og liggur álit nefndarinnar fyrir á þskj. 241. N. leggur til, að frv. verði samþykkt, en vill gera á því nokkrar breytingar, sem eru prentaðar á þskj. 241. Fyrsta brtt. n. er á þá leið, að n. telur eðlilegt, að lög, sem sett eru um þetta efni, feli í sér heimild fyrir hreppa með fleiri en 500 íbúa til að taka upp þá skipan, sem frv. gerir ráð fyrir, en ekki að þeim verði ert að skyldu að ráða sérstakan sveitarstjóra. — Önnur brtt. er aðeins orðalagsbreyting á 2. gr. frv. og er bein afleiðing af breyt. á 1. gr. — Þriðja brtt. fjallar svo um að breyta orðalagi á 3. gr. frv., og að í stað þess, sem í frv. stendur, að ekki sé heimilt að binda ráðningu sveitarstjóra við kjörtímabil sveitarstjórnar né önnur ákveðin takmörk, komi, að ekki sé skylt að binda ráðningu sveitarstjóra við kjörtímabil sveitarstjórnar o.s.frv. N. finnst þessi breyt. eðlileg. — Í 7. gr. frv. er mælt svo fyrir, að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða þóknun til oddvita, þegar sérstaklega stendur á, en til þess þurfi samþykki félmrh. N. leggur til, að orðin „að þar til fengnu samþykki félmrh.“ falli brott, þar eð hreppsnefnd ber ábyrgð á þóknun, sem hér um ræðir, og þar sem hún er líka greidd úr sveitarsjóði. — Fimmta brtt. n. er við 8. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir, að félmrh. hafi íhlutun um ágreining, ef upp kemur, á milli sveitarstjóra og hreppsnefndar, en n. leggur til, að þarna verði gerð breyt. á, þannig að íhlutunarvald félmrh. verði meira takmarkað en gert er ráð fyrir í frv. — Sjötta brtt. fjallar um það, að 9. gr. falli burt, en það er eðlileg afleiðing af brtt. við 1. gr., að lögin feli í sér heimild fyrir hreppa með íbúafjölda yfir 500 að taka upp það skipulag, sem hér um ræðir. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þær brtt., sem eru prentaðar á þskj. 241, nema þá sérstakt tilefni gefist.