08.12.1950
Efri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

49. mál, sveitarstjórar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð um þetta frv. Þetta frv. lá fyrir í fyrra og var samið að tilhlutun Alþingis, til að ráða fram úr erfiðleikum framkvæmdastjórnar í sveitarfélögum. Þá náðist ekki samkomulag um frv., og lét félmrn. endurskoða það og lagði það svo fyrir Nd. Á frv. hafa verið gerðar breyt. í Nd. Helzta breyt. er, að sveitarfélögum var samkv. frv. gert skylt að hafa sérstakan sveitarstjóra, þ.e.a.s. í þeim þorpum og sveitarfélögum, sem telja yfir 500 íbúa.

En eins og það stendur núna, er þetta aðeins heimild fyrir sveitarfélögin. Ég tel þessa breyt. síður en svo til bóta. Í sumum sveitarfélögum er full nauðsyn að kjósa slíkan sveitarstjóra, en ekki hægt að leggja framkvæmd allra mála á herðar oddvitans. Hitt hefði ég vel getað hugsað mér, að hámarkinu væri breytt og miðað við t.d. 600 íbúa. Ég vil taka það fram, að ég mun ekki setja fyrir mig, þó að breyt. yrði gerð. En ég vildi mælast til fyrir mitt leyti, að frv. yrði afgr. héðan í því formi, sem það nú er. Og hér er um hrein heimildarlög að ræða. Að lokum legg ég svo til, að frv. verði vísað til hv. félmn.