23.01.1951
Neðri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

81. mál, ríkisreikningurinn 1947

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það er út af því, sem fram kom um endurskoðun ríkisreikninga og hvernig þetta hefur legið fyrir Alþingi til samþykktar.

Ástandið hefur verið alveg óviðunandi, en reikningar hafa verið lagðir fram fyrir árið 1948, og finnst mér vera nokkur bót að því, en það er ekki nægilegt. Ég hef ekki haft tíma til að rannsaka þetta mál til hlítar, en get sagt af því, sem ég hef séð, að það er aðallega þrennt, sem er ábótavant.

Í fyrsta lagi er reikningunum lokað of seint; þeim er haldið allt of lengi opnum. Ég hef rætt þetta við endurskoðendurna og athugað, hvort ekki sé hægt að loka þeim fyrr en gert hefur verið hingað til. Ég hygg þess vegna, að þetta sé ekki hægt í bili, en verð að láta flýta fyrir þessu verki og loka reikningunum fyrr. Svo vona ég, að reikningunum verði lokað fyrr fyrir árið 1950, svo að endurskoðun geti farið fram.

Í öðru lagi er það, að fjármálaráðuneytið leggi reikningana inn í endurskoðunardeild, sem skoði alla reikningana og geri skilagrein og yfirlit yfir þá, sem aðalendurskoðendurnir byggi svo niðurstöður sínar á. Endurskoðunin hefur verið langt á eftir tímanum síðustu árin, en því þarf nauðsynlega að kippa í lag. Endurskoðun á tekjunum hefur að vísu verið í lagi, en hvað gjöldin snertir hefur endurskoðun þeirra dregizt aftur úr. Ég hef gert ráðstafanir til þess að láta semja um, að endurskoðunarskrifstofa taki það, sem fyrir hefur legið, og vil ég það heldur en að bæta fleiri mönnum í endurskoðunina, og hefur þessu verki miðað allvel áfram. En helzt þyrfti þetta að vera þannig, að skoða reikningana jafnóðum, og þannig hefur það verið áður, að endurskoðendurnir taki til strax og reikningum er lokið, en það þótti erfitt. En þannig þarf þetta að vera, ef þetta á að fylgjast að. Endurskoðunin hefur dregizt hjá aðalendurskoðendunum, en landsreikningunum þarf að ljúka sem fyrst. Þetta þarf að fylgjast að, en það má ekki láta reikningana safnast fyrir. Endurskoðendurnir þurfa að vera reiðubúnir til að starfa að þessu og taka aðalstarfið á sig yfir sumartímann. Þá gætu þeir lokið athugunum sínum í september. Með þessu móti væri hægt að fá reikningana strax fram, og gengi þetta þá mun fljótar fyrir sig, og gætu reikningarnir þá komið fyrir þingið. Ég segi ekki, að þetta takist, en ég hef hug á þessu og trúi ekki öðru en hægt sé að komast langt með þessu.