26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

49. mál, sveitarstjórar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það er að vísu rétt, sem hv. 7. landsk. sagði, að það má ná öllu því, sem í þessu frv. felst, með breytingu á sveitarstjórnarlögunum, en ekkert frv. liggur nú fyrir um breytingar á þeim, og þó að slíkt frv. væri flutt nú, vita allir, að það nær ekki fram að ganga á þessu þingi. Öðru máli gegnir með þetta frv., sem komið er til 2. umr. í síðari deild, svo að það nær sennilega fram að ganga. Þetta er þýðingarmikið mál fyrir sum sveitarfélög og því rétt að samþykkja það, þó að ég játi, að því sama mætti ná með breytingu á sveitarstjórnarlögunum. Aftur á móti er það misskilningur hjá hv. þm., að sýslunefndir geti heimilað hreppsnefndum það sama og þetta frv. heimilar þeim. Það getur oft staðið svo á, að enginn hreppsnefndarmaður getur gegnt oddvitastarfi á viðunandi hátt, en ég held, að sýslunefnd geti ekki heimilað utanhreppsnefndarmanni að gegna því. Ég held sannast að segja, að það þurfi að túlka lögin dálítið frjálslega til þess að fá slíkt fram. Ég held einnig, að sýslunefnd geti ekki heimilað hreppsnefnd að hækka laun fyrir þetta starf meira en lög mæla nú fyrir, en að vísu má oft heimila hærri innheimtulaun á ýmsum gjöldum, en þó ekki nema að vissu takmarki. En ef sveitarstjórnarlögin verða endurskoðuð, þá held ég að vel færi á því að fella þessi lög inn í þau og afnema þau þar með sem sérstök lög.