26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

49. mál, sveitarstjórar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það voru orð hæstv. dómsmrh., sem gáfu mér tilefni til að standa upp, en hann sagði, að óþarfi væri að taka fram í l. ákvæði eins og þau, sem standa í 8. gr. þessa frv., um að segja megi upp sveitarstjóra, sem gerist sekur um vanrækslu og hirðuleysi í starfi sínu, heldur sé slíkt svo sjálfsagt, að óþarfi sé að taka það fram í lögum. Ég vil því segja frá tveimur eða þremur tilfellum, sem fyrir mig hafa komið, og spyrja hæstv. ráðh., hvort ekki sé þar um vítaverða vanrækslu að ræða hjá viðkomandi embættismönnum. Ég þurfti að fá lán fyrir mann, og sá maður hafði fengið jörð að erfðum fyrir 24 árum, en sýslumaður hafði ekki fært það inn í bækur sínar. Eftir að ég hafði fengið hann færðan inn, fékk ég veðbókarvottorðið. Í annað skipti, þegar ég þurfti á vottorði að halda, kom í ljós, að ekki var farið að skipta búi konu nokkurrar, sem dó 1902 eða 4903, svo að jörðin var enn á hennar nafni. Ef til vill hefur ekki verið kært út af þessu, en ég held, að rn. sendi annað slagið út menn til að fylgjast með embættisrekstri sýslumanna. Hér virðist vera um að ræða vanrækslu og hirðuleysi í starfi, sem hæstv. ráðh. sagði, að sjálfsagt væri að refsa með brottrekstri, og hæstv. ráðh. hlýtur að vera kunnugt um tilfelli eins og þessi, þar sem hann sendir menn til að athuga embættisfærsluna hjá sýslumönnum. Ég vildi nú fá að vita hjá hæstv. ráðh., hvort hann teldi ekki að í þessum tilfellum, sem ég nefndi, hefði verið um vítavert hirðuleysi og vanrækslu að ræða.