13.02.1951
Neðri deild: 67. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

177. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1951

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér, ásamt hv. þm. Borgf., að bera fram brtt. um, að Alþ. þurfi ekki að koma saman fyrr en 10. okt. 1951, og er það í samræmi við það, sem hefur tíðkazt um langt skeið. Ég hef heyrt frá hæstv. forsrh., eins og menn hafa vafalaust almennt álitið fyrr, að það sé tilætlunin að reyna að ljúka þinginu fyrir hátíðar. En ég vildi vona, þó að þingið kæmi ekki saman fyrr en nokkrum dögum síðar, að þá mætti það heppnast, ef eindreginn vilji væri fyrir því, sem maður gæti ætlað að væri fyrir hendi, og ef engin sérstök atvik koma í veg fyrir, að það megi takast. Að byrja um mánaðamót sept. og okt. á þinghaldi er óþægilegt þeim mönnum, sem hafa mikið að sýsla úti um sveitir landsins, eins og t.d. bændur. Þá standa smalamennskur yfir, og fjárslátrun stendur einnig yfir á þessum tíma, en er lokið rúmlega viku af október. Það er, eins og menn vafalaust sjá, óþægilegt fyrir bændur að geta þá ekki verið heima við. Þess vegna er það æskilegt, ef hægt væri að þoka samkomudeginum til, svo að þetta mætti takast.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frekar, það liggur mjög ljóst fyrir. Það er ekki meining okkar flm. þessarar brtt. að koma í veg fyrir það, að þinginu mætti verða lokið fyrir hátíðar, en ef eindreginn vilji er fyrir því að ljúka þinginu fyrir hátíðar, þá held ég að það mætti takast, þó að það kæmi seinna saman en 1. okt.