13.02.1951
Neðri deild: 67. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

177. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1951

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það var út af þessari brtt. frá hv. þm. Árn. og hv. þm. Borgf., sem ég vil nú taka þetta fram:

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. flm. brtt., að það hefur verið venja undanfarin ár, að þingið byrji ekki fundi fyrr en 10.–11. okt. Hitt er líka rétt, og mér er það ljóst, að þetta er óhentugur tími fyrir bændur, sem eiga að sitja á þingi, einmitt þegar sláturtíðin stendur yfir. En þess er að gæta, að sláturtíðin er langt komin um mánaðamót, eða nokkuð áleiðis, svo að óhætt er að segja, að þeir yrðu ekki alveg sviptir því að vera við búið þann tíma. En það, sem fyrir ríkisstj. vakir, er það að fá meiri tíma til þess að ljúka störfum Alþ., fyrst og fremst fjárl. og helzt öllum störfum, fyrir áramót. Nú er öllum ljóst, að tíminn frá 10. okt. er ekki langur til slíkra hluta, þó að það heppnaðist nú að ljúka fjárl., en ekki afgreiðslu á málum að öðru leyti. Þetta er aðalástæðan fyrir því, að ríkisstj. hefur lagt til, að samkomudagurinn verði 1. okt. 1951, og ég fyrir mitt leyti vil ekki falla frá því, að svo verði. Að vísu má segja, að ríkisstj. hafi það að nokkru leyti í hendi sér að kalla þingið saman, en það mun nú trauðla vera gert, ef Alþ. ákveður samkomudag 10. okt., og slík ákvörðun mundi verða til þess, að ríkisstj. notaði sér það síður að kalla þingið saman fyrr. Af þeirri ástæðu vil ég vænta þess, að flm. brtt. gætu fallizt á þann samkomudag og að þessi hv. d. vildi samþ. frv. óbreytt eins og það liggur fyrir.