26.02.1951
Sameinað þing: 46. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

Vandamál bátaútvegsins

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Herra forseti. Eins og öllum hv. alþm. er kunnugt, hafa staðið yfir viðræður frá því í októbermánuði s. l. milli umboðsmanna ríkisstj. annars vegar og umboðsmanna útvegsins hins vegar, varðandi úrræði til þess að leysa þann vanda, sem að útveginum hefur steðjað vegna þess, að frá því að gengislögin voru sett í marzmánuði s. 1. hefur verðlag á aðkeyptum nauðsynjum útvegsins stórhækkað á erlendum markaði, en fiskverðið hefur hins vegar ekki hækkað á árinu 1950, heldur lækkað.

Það yrði of langt mál að rekja hér sögu þessara löngu samningaumleitana eða þeirra rannsókna á hag og afkomu útvegsins, sem framkvæmdar hafa verið af ríkisstj. hálfu, enda þykir nægilegt að skýra frá því, að 24. jan. s. l. skrifaði ríkisstj. LÍÚ bréf, þar sem m. a. segir, að í því skyni og að því tilskildu, að takast megi að skapa það verðlag á afurðum bátaflotans, að eigendur hans telji sér fært að hefja útgerðina tafarlaust, sé ríkisstj. reiðubúin til þess að veita bátaútveginum sérréttindi í sambandi við innflutning á nokkrum vörutegundum. Skyldu þessi fríðindi ná til vöru, sem keypt yrði fyrir hálft andvirði framleiðsluvöru bátaflotans að undanskildu þorskalýsi, síld og síldarafurðum.

Ríkisstj. tók það fram, að þessi fyrirheit væru því háð, að stj. tækist að fá til umráða nægjanlegan erlendan gjaldeyri, til þess að auðið yrði að auka til verulegra muna innflutning til landsins á mörgum öðrum vörum. Hafði stj. þá fyrst og fremst í huga nauðsynjar almennings og þar á meðal ýmsar þær vörur, sem skortur hefur verið á að undanförnu. Ætlaðist stj. til, að innflutningur þessara vörutegunda gæti orðið það mikill og frjáls, að hægt yrði að fullnægja eftirspurninni og einnig að safna nokkrum birgðum af þeim.

Loks hét stj. því, að ef ekki reyndist auðið að leysa vandamál bátaútvegsins með þessum hætti, mundi hún beita sér fyrir annarri lausn málsins.

Landssambandið brást mjög vel við þessu bréfi og skoraði á meðlimi sína að hefja tafarlaust veiðar. Gerðu menn það yfirleitt, aðrir en þeir, sem áttu í kaupdeilu, en þeir voru, sem kunnugt er, allmargir. Má því segja, að enga verulega stöðvun á rekstri bátanna hafi leitt af leit að úrræðum í þessu mikla vandamáli.

Eins og áður greinir, var það frumskilyrði þess; að ríkisstj. teldi sér fært að hníga að þeim ráðstöfunum bátaútveginum til framdráttar, sem um ræðir í nefndu bréfi, að henni tækist að tryggja nægilegt fé til stóraukins innflutnings á nauðsynjavörum til landsins. Hafa gengið miklar sagnir og mjög ýktar og villandi um, að ríkisstj. hefði í huga að taka stórlán erlendis, jafnvel 200–300 millj. kr. Hefur það og verið óspart látið í veðri vaka, að fyrir stj, vekti helzt að auka sem mest innflutning á óþarfri vöru. Allt er þetta mikill misskilningur. Hið sanna í málinu er þetta:

Aðstaða íslenzkra banka erlendis hefur batnað síðasta hálfa árið. Er þessi batnandi aðstaða út á við í samræmi við vonir þeirra manna, sem stóðu að gengisfellingunni og stefnu ríkisstj. í fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. — Þessa bættu aðstöðu Íslands erlendis taldi ríkisstj. og ráðunautar hennar þó hvergi nærri traustan grundvöll undir stórvægilegri aukningu innflutnings á nauðsynjavörum, og var þess vegna álitið óhjákvæmilegt að leita annarra úrræða til frekara öryggis. Ríkisstj. sneri sér í því sambandi til ECA-stofnunarinnar í Washington og óskaði aðstoðar hennar í málinu. Niðurstaða þeirrar málaleitunar liggur nú fyrir þannig, að tekizt hefur að fá loforð um stóraukið beint framlag af Marshallfé á þessu ári. Enn fremur hefur ríkisstj. fengið vilyrði Bandaríkjanna um aukið framlag í Evrópugjaldeyri, sem greiðslubandalag Evrópu mundi þá inna af hendi. Loks hefur svo Ísland, svo sem kunnugt er, rétt til yfirdráttar hjá greiðslubandalagi Evrópu, sem hægt væri að notfæra sér, ef ríkisstj. telur það nauðsynlegt og ráðlegt. Fær Ísland þannig til umráða mikinn erlendan gjaldeyri því til tryggingar, að hægt verði að auka til verulegra muna vöruinnflutning til landsins. Er þá tryggður sá kjarni málsins, að stóraukinn verður innflutningur nauðsynja til landsins með auknu verzlunarfrelsi öllum almenningi til verulegra hagsbóta, þótt enn sé ekki fastákveðin endanleg skipun þessara mála.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því, að megintilgangur Marshallhjálparinnar er sá að skapa þeim þjóðum, sem hennar njóta, skilyrði til sjálfsbjargar með því fyrst og fremst að gera þeim kleift að efla atvinnurekstur sinn og koma honum á heilbrigðan grundvöll til þess þannig að bæta afkomuskilyrði almennings. Hins vegar er ekki ætlað, að bein fjárframlög verði varanleg. Verður því að viðurkenna, að þessi framlög, þótt góð séu og af góðhug í té látin, munu reynast Íslandi lítils virði, ef þjóðin kann ekki fótum sínum forráð, en lætur glepja sér sýn og ginnast inn á háskabraut kaupstyrjaldar, sem að óbreyttum kringumstæðum hlýtur að verða almenningi til bölvunar.

Þar sem nú þannig ríkisstj. telur sig fá til umráða nægilegan erlendan gjaldeyri til fullnægingar þeim skilyrðum, sem hún í öndverðu setti fyrir því, að bátaútvegsmenn gætu öðlazt þau fríðindi, sem þeim með fyrr nefndu bréfi var heitið, hafa þeir nú, samkvæmt fyrirheiti bréfsins, öðlazt þessi fríðindi. Er bátaútveginum ætlað að hagnast á innflutningi sérstakra vörutegunda eða á sölu á innflutningsskírteinum sínum á þessum vörum. Hefur verið saminn sérstakur listi yfir þær og leitazt við að velja vörurnar þannig, að þær séu út af fyrir sig öllum æskilegar, en þó hefur verið reynt að sneiða hjá höfuðnauðsynjum almennings. Til kaupa á þessum vörum er ekki ætlazt til að varið verði öðrum gjaldeyri, að undanskildum þó sjómannagjaldeyrinum. Ríkisstj. áskilur sér samt sem áður rétt til þess að víkja frá því ákvæði, ef hún telur nauðsynlegt vegna breyttra aðstæðna. Vörur þær, sem inn verða fluttar gegn þessum skírteinum, verða ekki háðar verðlagseftirliti.

Þessu samkomulagi við útvegsmenn er ætlað að ná til framleiðslu ársins 1951. Hefur ríkisstj. engin fyrirheit gefið um, að það verði framlengt. Þvert á móti er það eindreginn ásetningur stjórnarinnar að afnema þessa skipan svo skjótt sem auðið er, og vonar fastlega, að það megi takast, þegar nefndu samningstímabili lýkur.

Rétt þykir að skýra frá því, að þessi skipan hefur verið borin undir og samþykkt af stjórn alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en eins og menn vita, eru Íslendingar aðilar að sjóðnum.

Sérfræðingar stjórnarinnar og útvegsmanna eru nú að ljúka við að semja reglur um framkvæmd þessa samkomulags, og verða þær mjög bráðlega birtar ásamt lista yfir þær vörur, sem flytja má inn samkvæmt áðurnefndum innflutningsskírteinum.

Vænti ég þess svo, að hv. alþm. geti áttað sig á þessari skipan í höfuðefnum samkvæmt því, sem nú hefur sagt verið.