12.10.1950
Neðri deild: 2. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

18. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Á tveimur síðustu þingum lá fyrir þessari d. frv. um meðferð opinberra mála, og í hvorugt skiptið skilaði n. áliti, en skilst mér þó, að störfum hafi verið langt komið. Ég veit þó ekki gerla, hver niðurstaða n. hefur verið, en það hefur legið í loftinu, að aðalmótbáran gegn frv. væri sú, að þar er gert ráð fyrir stofnun nýrra embætta, aðallega embætti saksóknara ríkisins og skiptingu sakadómaraembættisins í Reykjavík. Eins og nú er háttað, skal það játað, að það blæs ekki byrlega um stofnun nýrra embætta, og reyna ber að koma fram nauðsynlegum umbótum á þessum málum án þess að ný embætti séu stofnuð, nema brýna nauðsyn beri til. Ætla mátti, að ekki yrði mikill kostnaður samfara skiptingu sakadómaraembættisins, en þó má segja, að þetta leit ekki alls kostar vel út á pappírnum á tímum, þegar allir góðir menn viðurkenna, að spara ber ríkisfé. Mikilsverðari var stofnun embættis saksóknara ríkisins og rannsóknarstjóra, en þó er það svo, að verulegum réttarbótum er unnt að koma fram um meðferð opinberra mála, jafnvel þó að þessi embætti séu ekki stofnuð.

Eins og menn kannast við, eru ákvæðin um meðferð opinberra mála nú mjög á tætingi og sum orðin harla gömul, jafnvel frá 17. öld, og er auðsætt, að þau réttarákvæði, sem sett eru fyrir 200 –300 árum, eigi ekki lengur við. Það er því brýn nauðsyn á því, að nýrri skipun verði komið á þessi mál. Um sumt verður ekki umflúinn einhver nýr kostnaður, en koma má því fram, sem mestu máli skiptir, jafnvel þó að ný embætti séu ekki stofnuð, því að unnt er að láta rn. fara með málin samkv. hinum nýju reglum, en hitt má geyma, að stofna embætti saksóknara ríkisins og rannsóknarstjóra.

Þessar ráðstafanir urðu þess valdandi, að mér þótti rétt að gera enn þá eina tilraun til að fá þennan lagabálk um meðferð opinberra mála lögfestan, en með þeirri breyt., að tekin eru burt ákvæðin um stofnun þessara nýju embætta, en sett er jafnframt fram frv. um saksóknara ríkisins og rannsóknarstjóra, sem ekki þarf að samþ. frekar en verkast vill. Ég taldi eðlilegt, að frv. væri lagt fram til hliðsjónar, til þess að menn gætu séð, hvernig frambúðarskipulag þessara mála yrði, en ég legg áherzlu á, að ég ætlast ekki til, að það frv. verði samþ. á þessu þingi. Á hitt legg ég mjög mikla áherzlu, að nú verði samþ. breyt. á l. um meðferð opinberra mála, en undirbúningur þess máls hefur kostað allmikla vinnu af hendi þeirra manna, sem um það fjölluðu. Mér virðist ekki ósanngjarnt að ætlast til, að n., sem fær þetta mál væntanlega til meðferðar, geti nú skilað áliti tiltölulega fljótt, því að hún mun vera að miklu leyti skipuð sömu mönnum sem fyrr. Ég veit, að allir, sem til þekkja; játa, að ákvæði þau, sem nú gilda í þessum efnum, eru mjög á við og dreif og ærið úrelt sum hver, svo að brýn þörf er verulegra umbóta.

Það má að sjálfsögðu deila um einstök atriði þessa frv., eins og það liggur fyrir. Það er samið af hæfustu mönnum, sem mesta hafa reynslu af þessum málefnum hér á landi, og ég hef ekki orðið var við neina gagnrýni á sjálfu frv. aðra en varðandi hina nýju embættaskipun, en ég geri mér fastlega von um, að þingið geti afgr. þetta frv., hvað sem pólitískum deilum liður. Ég hygg, að fá merkari mál liggi fyrir þinginu en einmitt þessi lagabálkur og þingið mundi geta sér góðan orðstír, ef það gæti afgr. þetta mál í verulegum atriðum á þann veg, sem hér er lagt til.