26.02.1951
Sameinað þing: 46. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

Vandamál bátaútvegsins

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Það er vafalaust vel viðeigandi að þakka hæstv. atvmrh. fyrir, að hann lætur Alþingi fylgjast með því, sem hæstv. ríkisstj. hefur á prjónunum, og gerir grein fyrir stefnu hennar í þessum málum. Þm. vita næsta lítið um þessi mál, enda hefur hæstv. ríkisstj. lítt gætt þess, að hún er þingbundin stjórn. Þess vegna vil ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þessa skýrslu hans, þótt hún sé hvorki mjög ýtarleg né við leiddir í mikinn sannleika.

Það er víst ekki viðeigandi á þessari stundu, enda gefur hin stutta skýrsla ekki tilefni til þess, að fara inn á langar rökræður um það, sem hæstv. ríkisstj. hyggst fyrir til að greiða fyrir bátaútveginum. En ég get þó ekki stillt mig um að spyrja örfárra spurninga í þessu sambandi, og vil benda á í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. gat um, hvort með hefðu verið í ráðum þeir hagfræðingar, sem undirbjuggu lögin um gengislækkunina og skiluðu ýtarlegri grg. með því frv., — þeir Benjamín Eiríksson og Ólafur Björnsson. En því spyr ég að þessu, að mér finnst viss kafli í álitsgerð þeirra benda til þess, að þeir álíti ekki ráðlegt að fara þessa stefnu ríkisstj. Á bls. 32 í gengislækkunar frv. er einmitt kafli, sem ræðir um frjálsan gjaldeyri, eða einmitt um það, sem hæstv. atvmrh. var að skýra okkur frá og hér er um að ræða. Þar segir fyrst, með leyfi hæstv. forseta: „Slíkar undanþágur eru viðurkenning fyrir því, að erfitt er að halda haftaverzluninni á skynsamlegum grundvelli. Undanþágurnar hafa í för með sér þjóðhagslegt tjón.“ Og síðan segir: „En með því að leyfa að leggja óhóflega á innfluttu vöruna, sem borguð er með þessum gjaldeyri, þá er þessi tegund af framleiðslu stundum gerð arðbærari fyrir atvinnurekendurna heldur en framleiðsla á vörum, sem seldar eru á hærra verði erlendis.“ Og loks segir enn í þessari álitsgerð þeirra: „Þjóðin borgar brúsann með hærra vöruverði. Það er því augljóst, að því lengra sem út á þessa braut er gengið, því meiri umráð sem útgerðarmönnunum eru veitt yfir gjaldeyri, sem þannig er aflað, því óhagkvæmari verður útflutningsverzlunin og því meiri kjararýrnun þjóðarinnar.“ Og ég vek athygli á dómi þessara hagfræðinga um afleiðingarnar, ef farið er inn á þessa leið. Því að í álitsgerðinni segir enn fremur: „Með því að fara þessa leið mundi raunverulega sett tvenns konar gengi á íslenzku krónuna og þá um leið tvenns konar verðlag á innfluttar vörur.“

Ég vil minna á þessi atriði í álitsgerð hagfræðinganna, og er ég vitna í síðustu orðin, tek ég eftir, að hæstv. atvmrh. lýsti því yfir, að ríkisstj. hefði leitað til alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fengið samþykki hans fyrir þessum ráðstöfunum. En ég skal annars ekki fara inn á fræðilega athugun á því, hvort hér sé farið inn á tvöfalt gengi eða ekki. Þó blasir það atriði við, að þetta hækkar stórlega verð þeirra vara, sem fluttar verða inn fyrir þann hluta gjaldeyrisins, sem bátaútvegsmenn fá til umráða, því að ella hefðu útvegsmenn ekkert gagn af þessum ráðstöfunum. Það er með öðrum orðum verið að leggja nýjan innflutningstoll á vörur, sem nema mun 50–60 millj. kr. á ári. Það virðist svo sem hæstv. ríkisstj. hafi ekki enn lagt nógu háa skatta á landslýðinn og telji, að enn sé nauðsyn að hækka þann skatt, sem er lagður á neytendur. Það er ástæða til að minna á það atriði, að áður var lagður á skattur til að standa undir þeim styrk, sem veittur var til að halda uppi fiskábyrgðinni, en hann var lagður á þær vörur, sem ekki var hægt að segja að væru beinar nauðsynjavörur. Þetta fyrirkomulag má að vísu alltaf gagnrýna, en með gengisbreytingarl. var þetta fellt niður. Gengisbreytingin hefur nú hins vegar ekki reynzt sú meinabót, sem dugað hefur, og þess vegna er nú farið inn á þá braut að leggja enn meiri skatta á landslýðinn. Það er nú að vísu svo, að það er erfitt að ræða við ríkisstj. um það á þessu stigi málsins, hvaða vörur muni hækka vegna þessa frjálsa gjaldeyris, því að enn kann hún að eiga eftir að gefa frekari upplýsingar um það, hvaða vörur á þar að vera um að ræða. En þó hefur heyrzt og reyndar verið tilkynnt opinberlega, að margar af þeim vörum, sem í ráði er að kaupa fyrir þann hluta gjaldeyrisins, muni ekki verða taldar bráðnauðsynlegar, ekki sízt ef þess er gætt, að kaupgeta fólksins verði ekki of mikil, þó að hins vegar margir mundu freistast til að kaupa þær, ef peningar væru fyrir hendi. Og það er víst um sumar þessar vörutegundir, að þær eru þess eðlis, að það er fólki verulegur bagi og fjárhagslegt tjón að geta ekki veitt sér þær, og þetta fyrirkomulag, sem hér er verið að taka upp, þýðir raunar ekki annað en aukna dýrtíð, sem bitnar á alþýðu manna. Það hefur t. d. heyrzt, að tilbúinn fatnaður verði í flokki þessara vara. Það er nú vitað, að sá fatnaður, sem þannig er fluttur inn tilbúinn, er mun ódýrari en sá fatnaður, sem menn láta sauma á sig hér heima, en eftir að þetta fyrirkomulag verður komið á, má ætla, að tilbúin föt muni verða komin upp í 1500–1600 kr. Þetta eitt mun því koma mjög hart niður á almenningi. Ég hef nefnt þetta hér, af því að mér virðist auðsætt, að hér sé um marga þá vöruflokka að ræða, sem almenningur getur illa verið án, og þýðir því ekki annað en aukna dýrtíð fyrir þá í þjóðfélaginu, sem minnsta hafa kaupgetu og verst mega við auknu dýrtíðarflóði. Með öðrum orðum, þetta eykur dýrtíð fyrir þá, sem versta aðstöðu hafa í þjóðfélaginu.

Hæstv. ráðh. sagði, að þessir vöruflokkar yrðu ekki háðir verðlagseftirlitinu. Í því sambandi taldi hann heimild til að undanskilja vöruflokka, sem hann nefndi, sem nema munu 1/5 af venjulegum innflutningi, — að undanskilja þá verðlagseftirliti að óbreyttum lögum. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta sé ekki unnt og vænti þess, að ríkisstj. geri ráðstafanir til þess að fá lagaheimild til að undanþiggja þessa vöruflokka. Ég segi þetta vegna þess, að það eru uppi tilgátur um það, að ríkisstj. hugsi sér ekki að gera þetta og muni þá jafnframt gefa út brbl. um þetta efni skömmu eftir að þingi er slitið. Ef þetta er meiningin, þá vil ég hér með andmæla því harðlega, og ég tel það vægast sagt óþingræðislegt og á engan hátt nauðsynlegt, þar sem á þetta hefur verið bent nú þegar, meðan þing situr. Ef á að gera þessar ráðstafanir, þá álít ég, að það eigi að leita til þess samþykkis Alþingis, allt annað er í raun og veru óþingræðislegt, og það sæmir ekki ríkisstj. að læðast upp í stjórnarráð skömmu eftir að þingi er slitið og gefa þá út brbl. um þetta efni, sem vel er hægt að fá heimild Alþingis fyrir núna. Það getur oft verið afsakanlegt að gefa út brbl., en ef ríkisstj. er sýnt fram á það, meðan þing situr, að nauðsynlegt verði að gefa út brbl. um eitthvert efni, þá er óafsakanlegt tómlæti að sinna því ekki.

Ef það er ætlun ríkisstj. að undanskilja ýmsa vöruflokka verðlagseftirlitinu, þá verður ekki framar neinn hemill annar á verðlaginu en gjaldgeta fólksins í landinu. Það má vera, að ríkisstj. aðhyllist þá stefnu að láta pyngju launþeganna í landinu ráða verðlaginu, með öðrum orðum að láta vöruverðið vera svo hátt, að þeir, sem takmarkaða kaupgetu hafa, verði að takmarka við sig eða neita sér alveg um ýmsar lífsnauðsynlegar vörur. Það er þessi lífsspeki, sem gerir meira og meira vart við sig hjá stjórnarvöldum landsins, þetta er sú umhyggja, sem þeir bera fyrir hag þeirra stétta í þjóðfélaginu, sem eiga við erfiðust kjör að búa, þetta er barátta þeirra fyrir kjörum alþýðunnar á Íslandi.

Það er ljóst, að þegar verið er að undanþiggja ýmsar vörur verðlagseftirliti, þá er það ekki nema eftirspurnin ein, sem verðlaginu ræður á þessum vöruflokkum. Og ef það er rétt, að bátaútvegsmenn telji sig þurfa að fá 50–60 millj. meira miðað við meðalafla, þá þýðir það, að þeir verða að fá flutt inn fyrir 80–100 millj. og það verður að seljast með 50–60% álagi miðað við innkaupsverð. Með öðrum hætti eiga bátaútvegsmenn það ekki öruggt, að þeir fái það, sem þeir þurfa að fá.

Ég vildi því spyrja ríkisstj. í sambandi við afskipti hennar af þessum málum, hver afstaðan eigi að vera milli bátaútvegsmanna og frystihúsanna annars vegar og bátaútvegsmanna og fiskimanna hins vegar, hvort þessi samkomulagsgrundvöllur nægir til þess að allir þessir aðilar fái það, sem þeir telja sig þurfa að fá. Ég spyr að þessu, af því að ég fel, að ef útgerðarmenn eiga að fá 50 millj., þá sé sanngjarnt, að sjómenn fái einhvern hluta þess, en þetta fannst mér ekki koma nógu skýrt fram í ræðu hæstv. ráðh. um þetta efni.

Annars skildist mér svo sem mörg atriði þessa máls væru enn óútkljáð og ekki að fullu gengið frá endanlegri lausn þessa máls. Og ég held, að nú, þegar þetta blessað blýantsstrik kemur hér inn í þingið, þessi allsherjarlausn á vandamálum mikils hluta þjóðarinnar, þá sé það langt frá að vera beint né leysa á nokkurn hátt úr þeim vanda, sem við er að stríða, heldur finnst mér það vera bæði hlykkjótt og sundurlaust og ég fæ ekki séð, á hvern hátt það getur á nokkurn hátt bætt það ástand, sem nú ríkir í efnahagskerfi landsmanna.

Ég ætla ekki að fara inn á það atriði, sem ráðh. upplýsti, að við mundum fá aukið fé frá greiðslubandalagi Evrópuríkjanna, en vil aðeins taka það fram, að það gleður mig, ef svo er. Og það kemur þá einnig í ljós, hver lífsnauðsyn Marshallaðstoðin er orðin Íslendingum, og tek ég undir orð ráðh. um það efni, því að án hennar er nú svo komið, að við mundum ella ekki geta flutt inn okkar lífsnauðsynjar.

Ég fagna því mjög, ef það er staðreynd, að okkur verði mögulegt að flytja inn meiri lífsnauðsynjar, og vænti þess, að þær vörur verði þá settar á frílista. En í því sambandi vil ég spyrja hæstv. ríkisstj., hvort þær vörur, sem þannig verða fluttar inn fyrir þennan gjaldeyri frá greiðslubandalaginu, verði ekki háðar verðlagseftirlitinu, því að þrátt fyrir það að mikið yrði af þeim vörum í landinu, þá tel ég óhyggilegt að afnema verðlagseftirlit með þeim og þá um leið undanskilja 70–80% af innflutningi landsmanna verðlagseftirliti. Ég held, að slíkt væri ekki skynsamlegt og mundi leiða til stórhækkaðs vöruverðs og aukinnar dýrtíðar í landinu, en því mega atvinnuvegirnir ekki við eins og nú stendur.

Það gladdi mig líka að heyra, að ríkisstj. hafði ekki hugsað sér að taka gjaldeyrislán til neyzluvöruinnflutnings. Ég hafði vonað, að það mundi verða reynt að fá aukið framlag sem óafturkræft fé, og það er gott, að það getur orðið, og það gleður mig, og svo mun vera um alla þá, sem ekki eru forblindaðir af hatri á Marshallaðstoðinni, sem miðar að uppbyggingu Vestur-Evrópu og þá ekki sízt Íslands.

Ég held, að þessi orð verði að nægja að sinni. Ég tel það slæmt, ef þessi hækkun, sem óhjákvæmilega fylgir þessum aðgerðum ríkisstj., á að koma niður á lífsnauðsynjum fátækrar alþýðu, og ég vil að endingu undirstrika þær fyrirspurnir til ráðh., hvort ríkisstj. álíti, að hún hafi heimild til þess í lögum að undanskilja þannig ýmsar vörutegundir verðlagseftirliti, og hitt, hvort hún hafi gert ráð fyrir, hvert hlutfallið verði milli hraðfrystihúsanna og útgerðarmanna annars vegar og sjómanna og útgerðarmanna hins vegar. — Ég læt svo þessi orð nægja að sinni, enda er tíminn naumur, ef ljúka á umr. um. þetta fyrir hádegi.