28.02.1951
Sameinað þing: 46. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

Vandamál bátaútvegsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þegar ríkisstj. þóknast nú loksins að gefa þessa skýrslu, bæði seint og illa, þá vil ég gera nokkra tilraun til að afla mér frekari upplýsinga um þetta mál en komu fram í ræðu hæstv. ráðh. Það væri að vísu tilefni til að hnýta inn í það mál nokkrum aths., en tíminn mun nú varla leyfa það.

Það er í fyrsta lagi viðvíkjandi þeim álögum, sem nú er í ráði að auka á almenning. Ég vil spyrja hæstv. ríkisstj.: Álítur hún sig hafa rétt til þess að úthluta til einstakra manna leyfi til að flytja inn ákveðnar vörur? Ef ríkisstj. hefur þennan rétt, gæti hún alveg eins veitt einstökum mönnum rétt til einokunar á útfluttum sjávarafurðum. Hingað til hefur verið álitið, að það þyrfti til þess sérstaka löggjöf að heimila ákveðnum aðila þannig einokun, t. d. um tóbak og áfengi. Ef ríkisstj. álítur sig hins vegar hafa rétt til þess að heimila þannig einokun á einstökum vörum, þá gæti hún t. d. látið S. Í. S. hafa einokun á öllum innflutningi á matvælum og einhvern heildsala allan innflutning á byggingarefni. Ég vildi gjarna, að ríkisstj. segði það ákveðið, hvort hún álítur sig hafa rétt til þessa.

Viðvíkjandi þessari einokun á vörutegundunum sjálfum, þá mun það vera árangurinn af skeleggri baráttu Framsfl. fyrir rétti neytendanna til þess að kaupa vöruna, þar sem þeir sjálfir kjósa, og ég óska Framsfl. til hamingju með þennan glæsilega árangur af baráttunni.

Ég vildi svo spyrja ríkisstj., hvernig hún hugsar sér að tryggja það, að þessar auknu álögur á almenning komi útgerðinni til góða. Svo framarlega sem þetta á að koma henni til góða, verða bankarnir að lána útgerðarmönnum meira fé en þeir hafa hingað til gert. Hafa verið gerðar ráðstafanir til þess? Ég veit ekki til þess, að farið sé að kaupa útflutningsframleiðsluna af útvegsmönnum, og meðan svo er, get ég ekki séð, á hvern hátt þeir standa nær, og eins og fjármálum er háttað í landinu nú get ég ekki séð, hvernig á að sjá til þess, að blátt áfram útvegsmenn fái þann aukna gjaldeyri, sem þetta fyrirkomulag á að hafa í för með sér. Hvernig á að koma í veg fyrir það, að þessi gróði lendi í höndum milliliða, þannig að minnst af þessum álögum komi útgerðarmönnum til góða, — m. ö. o., að neytendurnir greiði úr sínum vasa, til þess að einhverjir milliliðir geti makað krókinn á þeim gróða, sem á að koma til bjargar útveginum? Ef ríkisstj. hefur gert eitthvað til þess að koma í veg fyrir þessi mistök, þá væri rétt að hún upplýsti það, svo að maður sé ekki að ætla henni verra en hún á skilið. Mér sýnist, að aðalatriðið í þessari svokölluðu lausn sé að viðhalda allri verzlunareinokuninni í landinu, og ég skil ekki, að ekki sé hægt að koma útgerðinni af stað án þess að fórna öllum atvinnuvegum þjóðarinnar á altari þessarar einokunar.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðh. um það, hver sé sú upphæð, sem við fáum í auknu Marshallfé og EPU-framlagi, og hvort þeim auknu gjöfum fylgi nokkrar auknar skyldur. Ég tel rétt, að Alþingi fái að vita þetta, fái yfirleitt að vita, hvort verið er að svipta það ráðstöfunarrétti á fjármunum þjóðarinnar. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj. um það, hverju þessi upphæð nemur, hvort hún er 100 eða 200 millj., og á hvern hátt er ætlazt til, að við notum þetta fé. Er það meiningin, að við eigum að kaupa fyrir þetta kapítalvörur, byggingarefni, verksmiðjuvélar og fleira? Eða er það ætlun ríkisstj. að kaupa fyrir þetta neyzluvörur? Og þá vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj., hvort hún áliti, að hún geti samkv. II. kafla l. um fjárhagsráð undanþegið þessar vörur verðlagseftirliti, án þess að gefa neytendasamtökunum leyfi til að flytja þær frjálst inn. — Enn fremur leyfi ég mér að spyrja hæstv. ríkisstj., hvaða vörur eigi að vera á bátalistanum. Ég hafði búizt við, að við mundum fá hér sundurliðaðan lista yfir þær vörur. — Þá vil ég enn fremur leyfa mér að spyrja, hvort hæstv. ríkisstj. sé búin að ákveða almennan frílista og hvenær hann muni ganga í gildi og hvaða vörur muni verða á honum. Það er nú búið að láta það í ljós alllengi, að slíkur listi sé væntanlegur, og enn þá var hæstv. ríkisstj. með framsögu hæstv. atvmrh. að gefa í skyn, að von væri á slíkum lista, en það virðist ætla að dragast að sýna hann. Og ég vil nú segja það fyrir mitt leyti, að ef hæstv. ríkisstj. gefur ekki út slíkan lista nú á meðan Alþ. þetta situr, þá er ég ákaflega hræddur um, að það kunni að dragast alllengi eftir að Alþ. er farið heim. Og ég vil sérstaklega beina því til hæstv. ríkisstj. — og vona að fá svar við því nú út af þessu máli, sem hér liggur fyrir, og að hæstv. ríkisstj. muni gefa yfirlýsingu um það nú þegar — að allar byggingarvörur væru á þessum alinenna frílista. Það er satt að segja ákaflega hart, að það skuli ekki vera hægt að útkljá einmitt mál eins og þetta á Alþingi Íslendinga, að hve miklu leyti eigi að gefa íslenzkan innflutning frjálsan, og að hæstv. ríkisstj. skuli koma sér hjá að taka ákvörðun um slík mál, meðan Alþ. situr.

Ég tók eftir, að hæstv. atvmrh. lýsti, að ríkisstj. hefði átt í samningum við alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og ég held alþjóðabankann líka og Marshallstofnunina, viðvíkjandi þessum stórauknu framlögum. Ég vil spyrja: Á hæstv. ríkisstj. í slíkum samningum við þessa aðila um það, hvaða vörur megi setja á frílista á Íslandi? Eigum við líka að þurfa að bíða eftir því mánuðum saman að fá leyfi til þess frá erlendum aðilum, hvort við Íslendingar fáum leyfi til að mega flytja ákveðnar vörur á frílista inn í okkar land fyrir okkar eigið fé? Á hæstv. ríkisstj. að fá leyfi frá alþjóðagjaldeyrissjóðnum, alþjóðabankanum eða Marshallstofnuninni til slíks? Getur hæstv. ríkisstj. ekki tekið ákvarðanir um þetta sjálf eða með aðstoð Alþ.?

Þá vil ég að síðustu leyfa mér í sambandi við þetta að bera fram þá fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hvort hún hafi ekki hugsað sér að leyfa Íslendingum frjálsan útflutning á sínum vörum, og þá að mínu áliti með því skilyrði, að sett sé lágmarksverð á þessar vörur. Er ekki hugsað að lina neitt á þeirri einokun, sem er nú af hálfu hæstv. ríkisstj. á innflutningnum og að mínu áliti hefur kostað mjög mikið, bæði hindrað okkur í að framleiða vörur, sem selzt hefðu vel, og einnig valdið því, að við höfum selt vörur fyrir lægra verð en hægt hefði verið að fá fyrir þær? Ef sagt er sífellt við þjóðina, að það þurfi að gera svo og svo stórar ráðstafanir, leggja svo og svo þungar álögur á þjóðina vegna útgerðarinnar, hví í ósköpunum má þá ekki þjóðin fá að reyna að bjarga sér sjálf, án þess að ríkisstj. komi þar nærri, þegar henni ferst svo óhöndulega með allt, sem hún gerir? — Ég spyr því, hvort ekki eigi að lina neitt á einokuninni í þessu efni.

Ég hafði hugsað mér, af því að ákveðinn var svo stuttur tími til þessara umr., að það væri rétt að nota hann fyrst og fremst til þess að reyna að fá upplýsingar, ef hægt væri, um þessi mál frá hæstv. ríkisstjórn. Og þess vegna hef ég nú gert minna að því að deila á hennar lausn í þessu, þó að ýmsar aths. hafi nú skotizt inn í. En mér þætti vænt um, ef hæstv. ríkisstj. gæti leyst þannig úr þessum spurningum, að við þm. stæðum nokkru betur að vígi með að hafa hugmynd um, hvað hæstv. ríkisstj. í raun og veru ætlast fyrir á þeim sviðum, sem útgerðina og verzlunina varða, frekar en fram kom í ræðu hæstv. atvmrh.