16.10.1950
Neðri deild: 3. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

2. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Eins og grg. ber með sér, þá var ástæðan fyrir því, að ríkisstjórnin taldi nauðsynlegt að setja þessi lög á s.l. sumri, sú, að síldveiðarnar höfðu þá brugðizt í 6. skipti í röð, eða virtust þá mundu bregðast, og ríkisstj. taldi sér skylt að tryggja það, að skipin stöðvuðust ekki í ágústbyrjun, á meðan enn var mikið eftir af síldveiðitímanum. Til þess hafði hún ekki önnur úrræði en þau að afla til þess lánsfjár, þar sem ríkissjóður hafði ekki til þess handbært fé. En hér bar ríka nauðsyn til, þar sem margir útvegsmenn voru svo staddir, að þeir gátu ekki greitt sjómönnunum lögboðna tryggingu. Varð því að leita til lánsstofnana, og var ákveðið að veðsetja til þess handbært fé í hlutatryggingasjóði, 490 þús. kr., og auk þess skyldi síldveiðideildin fá nokkurn hluta stofnfjár sjóðsins. En til þess þurfti lagabreytingu. Efni málsins er, að samkv. þessum l. má ekki skerða stofnfé sjóðsins, og með 42. gr. l. nr. 22 1950 voru sjóðnum tryggðar 5 millj. kr.; en af þeim átti nú síldveiðideildin að fá 21/2 millj. kr. Þessum l. um að ekki mætti skerða stofnfé sjóðsins var nauðsynlegt að breyta, svo að hægt væri að afla þess fjár, sem þurfti; en meiningin er að endurgreiða lánið með því fé, sem handbært var í sjóðnum, er l. voru sett, og því sem honum áskotnast á árinu.

Nú veit ég ekki með vissu um það, hve mikil lán útvegsmenn hafa fengið; líklega hafa þau reynzt minni en ráð var fyrir gert, og er það vel; en ég hygg það verði þó langur vegur frá, að 490 þús. kr. nægi, og lagasetning þessi er því eftir sem áður nauðsynleg. — Ég er svo annars reiðubúinn til að afla upplýsinga um það, hvað búið er að lána í þessu skyni, en sé ekki ástæðu að sinni til að fara um þetta fleiri orðum. Ég leyfi mér svo að æskja þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn. að lokinni umr.