16.10.1950
Neðri deild: 3. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

2. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það er nú að sönnu svo, að þeir, sem hlut eiga að þessu máli, hafa gert sér grein fyrir því, er þeir réðust í þessa atvinnu á s.l. sumri, að þeir gætu ekki gengið að sjóveðinu, ef til kæmi. Þeir eiga þannig ekki kröfu á ríkissjóð um það, að hann hlaupi hér undir bagga með greiðslur. Hitt er svo jafnrétt, að meiri hl. þessara manna á erfitt með að komast af án þess fjár, sem þeir eiga kröfu til, og ber á það að líta. Ég býst nú við, að það liggi fyrir næstu daga, hvað skilanefndin hefur gert af athugunum varðandi útveginn og ástand hans, og mun hún leggja fyrir mig sínar tillögur um þessi efni; það kann jafnvel að hafa komið frá henni eitthvað til ráðuneytisins núna yfir helgina. En í sambandi við það verður þetta athugað, hvað hægt verður að gera fyrir sjómennina. Mér er ljós sú þörf, sem hér er fyrir hendi. Og mér eru enn fremur ljósir erfiðleikar ríkisstj. á því að útvega handbært fé. En um endi þessa máls er mér ekki auðið að segja í dag. Og eins og hv. þm. veit, þá steðja nú erfiðleikarnir að úr öllum áttum.