01.03.1951
Efri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

2. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Mönnum er það í fersku minni, að þó að síldveiðar hafi brugðizt 6 undanfarin ár, þá var þó aflabresturinn langsamlega hörmulegastur s.l. sumar svo að langt er síðan slíkt hefur átt sér stað. Það var því svo komið þá, eins og kunnugt er, að flotinn var að stöðvast, þar sem útgerðarmenn bátanna gátu ekki einu sinni fengið nauðsynlega úttekt lengur til skipanna. Því var það, að ríkisstj. skarst í leikinn með því að veita útvegsmönnum hjálp í formi lána eða ábyrgðar fyrir lánum til þeirra, til þess að þeir gætu haldið rekstrinum áfram. Í sambandi við þessar ráðstafanir ríkisstj. voru gefin út tvenn bráðabirgðalög. Önnur voru frv. það, sem nú var verið að senda til Nd., um heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast allt að 2,250 millj. kr. lán til útvegsmanna, er stunduðu síldveiðar á s.l. sumri. Hin eru þau brbl., er hér liggja fyrir til umr., — um breyt. á l. um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins; og innihaldið er það, að stjórninni sé heimilað að skerða stofnfé síldveiðideildar sjóðsins, að fengnu samþykki ráðh. Er svo ráð fyrir gert í hinum l., að yrði ríkissjóður fyrir tapi vegna ábyrgðar sinnar, þá megi endurgreiða það af fé síldveiðideildar hlutatryggingasjóðs. Þessi mál eru þannig samhangandi, enda þótt þau séu borin fram sitt af hvorum ráðherra. Og nú hefur verið gerð ýtarleg grein fyrir þessu máli af hv. frsm. fjhn. þessarar d., og get ég sparað mér að fara inn á það.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er eins og áður er sagt staðfesting á brbl. frá 19. ágúst s.l., og héfur sjútvn. athugað það og vísar til nál. fjhn. á þskj. 732 og mælir með því, að frv. verði samþ. óbreytt með tilvísun til þess nál. og þá alveg sérstaklega til síðustu málsgr. þess, er hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. síðustu málsgr. 10. gr. l. nr. 48 25. maí 1949, um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins, má aldrei ganga nær sjóðnum en svo, að eftir standi stofnfé hans. Var lögð á það rík áherzla, þegar lögin voru til umræðu í þinginu, að einmitt þetta ákvæði næði fram að ganga og síðan virt í framkvæmd. Nú hefur þótt brýn nauðsyn bera til þess að gera undanþágu frá þessu ákvæði fyrir árið 1950. Skal það út af fyrir sig ekki gert hér að umræðuefni. Hitt er ljóst, að þótt nauðsynlegt hafi þótt að skerða stofnfé sjóðsins, þá er og rík nauðsyn til þess að afla sjóðnum tekna á ný, svo að stofnféð sé a.m.k. aftur fyrir hendi svo fljótt sem verða má. Í trausti þess, að ríkisstj. láti athuga þegar á þessu ári, á hvern hátt haganlegast verði að afla sjóðnum tekna til að mæta greiðslum þeim, sem hér hafa farið fram úr sjóðnum, samkvæmt ákvæðum bráðabirgðalaganna, mælir nefndin með því, að frv. verði samþykkt óbreytt.“

Sjútvn. vill leggja áherzlu á það, sem þarna segir í nál. fjhn., og mælir með frv. í sama trausti og fjhn. mælir með hinu frv. En nú hafa tveir nm. fyrirvara, þeir hv. þm. Vestm. og hv. 6. landsk., eins og frá er skýrt í nál. á þskj. 743; en sá fyrirvari er á þá leið, að fylgi þeirra við málið sé bundið því skilyrði, að yfirlýsing fáist frá ráðh. við meðferð málsins í d. um að tekin verði upp í næsta fjárlfrv. hæfileg fjárhæð til endurgreiðslu á fé því, sem tekið hefur verið af stofnfé síldveiðideildar sjóðsins. Við hinir nm. tveir, sem undir nál. skrifum, höfum talið nægilegt það, sem sagt er í nál. fjhn., og ég vil aðeins í því sambandi benda á, að vel gæti verið, að hægt væri að taka upp einhvern hluta á næsta fjárlfrv. af því, sem eytt kann að hafa verið úr sjóðnum, þó ekki yrði hægt að taka alla upphæðina, og þar með gefið fyrirheit um, að ekki yrði hægt að hætta við fyrr en búið væri að bæta sjóðnum að fullu. En fyrirvari þessara 2 hv. þm. virðist vera um það, að þeir ætlist til, að upphæðin sé tekin á næsta fjárlfrv.Hv. 4. landsk. þm. var ekki viðstaddur, þegar málið var afgr. í n., og er því ekki kunnugt um hans afstöðu til þess.