01.03.1951
Efri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

2. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Þessi hjálp til síldarútvegsmanna, sem veitt var af ríkisstj., átti sér fordæmi, að ég held, í tvö skipti a.m.k. áður, og í bæði skiptin minnir mig, að ég væri þar forsvarsmaður af hálfu ríkisstj. til þess að leggja til þetta fé, og þá var það ríkissjóður, sem stóð á bak við, og það var ekki leitað annarra bragða til þess að styðja þetta, og skakkaföll af vangreiðslum hafa þess vegna lent á ríkissjóði og reiknast náttúrlega með öðrum þeim stórsyndum, sem ég sem fjmrh. hef drýgt á því tímabili. Ég álít samt sem áður, að þetta hafi verið eina leiðin, sem við gátum farið á þeim tíma, því að tilgangurinn var aughós og sá, að síldveiðin strandaði ekki fyrir kreppu sakir, þegar helzt var von að fá eitthvað úr sjónum, og í bæði skiptin hefur þessi viðleitni ríkisstj. borið árangur, enda var hún sammála um að gera það, og ég geri ráð fyrir, að það sama hafi átt sér stað hjá núv. ríkisstj. En þar sem sú leið er farin að éta upp stofnfé síldveiðideildar hlutatryggingasjóðs, þá tel ég, að það verði að bæta og megi ekki fara þannig að, að eyða stofnfénu án þess að það sé bætt, og þess vegna var ég með því í n. og geri það að skilyrði fyrir mínu atkv. við þessa ráðstöfun. Út af fyrir sig tel ég óheppilegt að ráðast á þennan sjóð, en þetta er hægt að bæta, og ég er fús til samkomulags við ríkisstj. í þessu efni, sé það fyrirheit gefið, að sjóðnum verði bættir peningarnir aftur á þá leið, sem ég benti á eða við bendum á þessir tveir þm., sem virðist vera eðlilegt, að upphæðin verði tekin upp í fjárlfrv. fyrir næsta ár.

Hv. frsm. minntist á það, að það væri ekkert um það talað, hvort ætlazt er til, að þetta sé gert í einu lagi eða gert tröppu af tröppu. Ég skal játa, að það var ekki rætt, og mig skiptir ekki öllu máli, hvort þessu er skipt á tvö ár eða eitt, meginatriðið finnst mér vera, að áreiðanlegt sé, að hlutatryggingasjóður eða sú deild úr honum, sem þarna hefur verið svipt fé, fái það bætt, og ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. skilji það sjónarmið og þann tilgang, sem liggur á bak við hjá okkur, en hann er sá, að síldveiðideildin þurfi ekki að verða krypplingur, heldur geti hún orðið starfhæf áfram, en það getur hún því aðeins orðið, að hennar stofnfé fái að halda sér. Ég vona þess vegna, að sá hæstv. ráðh., sem hér á hlut að máli, sem er sennilega hæstv. fjmrh., sjái sér fært að hafa þennan sama skilning og við og treysti sér til að gefa fyrirheit í þessu efni.