01.03.1951
Efri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

2. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af því, sem hv. þm. Vestm. ræddi, þá vil ég aðeins taka það fram, að það er mín skoðun, að mikil nauðsyn sé, að unnt væri að láta aftur í sjóðinn fúlgu, sem svaraði til þessarar, sem þarna er varið strax af stofnfénu. Eins og hann tók fram, þá var æskilegt, að ekki hefði þurft að skerða stofnféð strax. Um þetta vil ég segja það, að ég get ekki nú gefið yfirlýsingu um það að þetta yrði tekið á fjárl. næst, t.d. að það verði athugað þegar liður á árið og allar kringumstæður skoðaðar, hvort slíkt væri mögulegt eða ekki. Yrði þá á næsta þingi að taka það til meðferðar, hvort hægt væri að gera ráðstafanir út af þessu. Ég get ekki á þessu stigi gefið bindandi yfirlýsingu um þetta, en tel æskilegt að hægt væri að greiða úr fyrir sjóðnum með því að bæta honum upp þennan skaða.